MA 2009
MA 2009

Menntaskólanum á Akureyri verður slitið við hátíðlega athöfn í Íþróttahöllinni á Akureyri miðvikudaginn 17. júní. Athöfnin hefst klukkan 10.00 en hús er opið frá klukkan 9.00.

Jón Már Héðinsson skólameistari greinir frá skólastarfinu í vetur og hugmyndum um framtíðarskipan náms og starfs í skólanum. Fulltrúar afmælisárganga flytja stutt ávörp og einnig fulltrúi nýstúdenta. Nemendur flytja tónlistaratriði, meðal annara nýstúdentar sem nýverið hafa lokið framhaldsprófi í hljóðfæraleik.

Við athöfnina verða brautskráðir 143 stúdentar, 71 af félagsfræðibraut, 24 af málabraut, 48 af náttúrufræðibraut, þar af 16 af eðlisfræðilínu og einn jafnframt af tónlistarkjörsviði listnámsbrautar.. Að þessu sinni verður enn fremur brautskráður fyrsti hópur nemenda sem komu í skólann á hraðlínu almennrar brautar, rakleitt úr 9. bekk grunnskóla, harðsnúið lið sem hefur sýnt afar góðan árangur í námi og skólastarfi.

Að lokinni brautskráningu nýstúdenta verður myndataka í trjálundi norðan við Hóla, en Opið hús verður í Menntaskólanum á Akureyri frá hádegi fram til klukkan 15.30. Þar verða á borðum léttar veitingar og sýnishorn af verkefnum nemenda verða í kennslustofum á Hólum og víðar. Hundruð manna koma á Opið hús 17. júní ár hvert, meðal annars gamlir stúdentar sem koma og ylja sér við að rifja upp sögur frá skólaárunum í MA.

Í tengslum við skólaslit Menntaskólans á Akureyri koma hundruð gamalla nemenda í heimsókn til Akureyrar, koma í gamla skólann sinn, fara margvíslegar ferðir um héraðið og nágrennið og fagna saman stúdentsafmælum á MA-hátíðinni í Íþróttahöllinni að kvöldi 16. júní.

Að kvöldi 17. júní verður stúdentahátíð í Íþróttahöllinni, þar sem saman koma nýstúdentar, ættingjar þeirra og vinir auk kennara og starfsmanna. Þarna verða að þessu sinni á tólfta hundrað manna í hátíðarkvöldverði og skemmtidagskrá nýstúdenta. Þeir munu ganga um bæinn fylktu liði um miðnættið, en síðan verður dansleikur þeirra í Höllinni fram á nótt.

Menntaskólinn á Akureyri er að vanda síðastur skóla til að ljúka starfsári sínu. Það er skólanum mikils virði að þessa viðburðar sé getið í fréttum, enda er þetta einn af stærstu viðburðum sumarsins á Akureyri. Þess vegna býður skólinn tíðindafólk og myndatökufólk fjölmiðlanna velkomið á hátíðahöldin, jafnt brautskráninguna að morgni 17. júní, Opna húsið um miðjan dag og hátíðina að kvöldi dags. Það er ekki að efa að hún er einhver stærsta fjölskylduhátíð ársins á Íslandi.

.