- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Menntaskólinn á Akureyri var settur í 134. sinn á Sal skólans á Hólum í morgun. Það má með sanni segja að hafi verið húsfylli af nemendum og einnig aðstandendum nýnema.
Jón Már Héðinsson ávarpaði samkomuna og sagði frá því að nemendur í vetur væru 770, þar af 220 í 1. bekk, 205 í öðrum bekk, 165 í þriðja bekk og 180 í fjórða bekk. Hann sagði að á Heimavist MA og VMA byggju um 330 nemendur og tveir þriðju þeirra væru í MA.
Jón Már talaði um þau viðbrigði að koma í nýjan skóla. Menntaskólanum væri annt um að það gengi vel og nýnemum liði vel í hópi þeirra sem eldri væru. Þess vegna væri lögð áhersla á að inntaka nýnema, busavígslan, væri skmmtileg og án allrar niðurlægingar, og eins og allt annað félagslíf skólans væri hún án alls áfengis eða vímuefna. Félagslífið færi allt fram innan veggja skólans og skólinn stæði ekki að neinum samkvæmum úti í bæ eða sveit. Í því sambandi hvatti hann foreldra til að styðja börn sín og standa með þeim, því það væri til dæmis hlutverk heimilanna en ekki skólans eða eldri nemenda hans að annast uppeldi nýnema hvað varðar neyslu vímuefna. Það væri jafnframt mikilvægt að fjórðubekkingar hefðu ákveðið að leggja niður þá venju að halda svokölluð busapartí. Þau væru ekki og hefðu aldrei verið á vegum skólans eða í þökk hans.
Jón Már sagði hlutverk skólans að búa nemendur undir nám í háskólum um víða veröld og honum hefði hingað til tekist það afar vel. En námið væri nemendamiðað og það væri undir afstöðu, áhuga og metnaði nemandans sjálfs hvernig til tækist. Þess vegna gleddist skólinn yfir áhugasömum nemendum og hvatti þá til að stunda námið vel, búa sig undir kennslustundir og reyna að ljúka náminu sem mest á skóladeginum, nýta stofur skólans og bókasafn til undirbúnings næsta dags svo þeir gætu farið áhyggjulausir heim og átt frí að loknum vinnudegi. Og það væri sífellt hollt hverjum nemanda að spyrja sig hvort hann hefði gert eins vel og hann gæti.
Skólameistari fjallaði um gildi félagslífsins til að þjálfa margvísleg samskipti og sinna menningu. Félagslífið væri mjög mikilvægur þáttur skólalífsins og nemendur stýrðu því og skipulegðu af metnaði, svo eftir væri tekið. Þá fjallaði hann um umgengni og hversu mikilvægt væri að ganga um hús og eigur skólans af virðingu. Það hefði verið gert og gert vel.
Að lokum þakkaði skólameistari foreldrum fyrir að treysta skólanum fyrir börnum sínum og hvatti þá til að fylgjast með skólastarfinu, meðal annars með því að taka þátt í foreldrastarfi ForMA, Foreldrafélags MA, en að loknum léttum veitingum var haldinn fjölmennur fundur þess.
Bjarni Karlsson konsertmeistari skólans og núverandi formaður skólafélagsins Hugins lék á pianó og söng við upphaf og lok skólasetningar.
Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá mánudaginn 16. september.