- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Menntaskólinn á Akureyri var settur í morgun í 136. sinn. Fjömenni var við skólasetninguna, nemendur og forráðamenn nýnema.
Í skólasetningarræðu sagði Jón Már skólameistari að nemendur í vetur væru 731 talsins, 203 í 1. bekk, 209 í öðrum bekk, 160 í þriðja bekk og 159 í fjórða og síðasta bekk. Hann lagði áherslu á að MA væri landsmenntaskóli og ríflega helmingur 330 íbúa á Heimavist væri menntaskólanemar. Auk þess byggju margir aðkomunemendur úti í bæ, en gætu verið félagar í Mötuneyti MA eða keypt þar stakar máltíðir.
Um formlega móttöku nýnema vonaðist meistari til að hún yrði bæði glaðleg og skemmtileg. Hún færi fram á þriðjudag og lyki með balli í Kvosinni.
Skólameistari talaði um skólanámskrána, hún væri nemendamiðuð og nemandinn bæri ábyrgð á námi sínu. Hann gat þess að í áratug hefðu nemendur verið teknir inn í skólann beint úr 9. bekk, með góðum árangri, en framundan væru breytingar og frá hausti 2016 myndi skólinn bjóða upp á sveigjanleg námslok, þriggja eða fjörurra ára skóla. Sem fyrr væri miðað að því að við lok skóla væri nemandi vel undir frekara nám búinn.
Meistari fjallaði um umræðuna um læsi og mikilvægi þess að nemendur æfðu sig reglulega til að viðhalda lestrarfærni sinni og auka lesskilning. Það væri mikilvægara að glíma við flókin viðfangsefni og ná tökum á þeim en að fást við einfalt efni sem stæðist ekki mál í háskóla. Han skoraði á nemendur að gefa sér tíma í að þjálfa lesturinn og gat þess í leiðinni að viðfangsefni í skólanum og annars staðar í lífinu væru ekki og ættu ekki endilega að vera öll skemmtileg alltaf.
Skólameistari brýndi nemendur á að skipuleggja tíma sinn vel og freista þess að hafa skólann sem vinnustað, ljúka skólavinnunni í skólanum en bera hana ekki heim með sér. Aðstaðan í skólanum væri góð og vel hægt að hafa hann til að vinna öll námsstörf. Skólinn ætlaðist til að nám væri full vinna og í skólanum væri gott og gagnlegt félagslíf, sem líka teldist til náms. Skólinn gerði ekki ráð fyrir að nemendur ynnu önnur störf meðafram náminu.
Undir lokin hvatti skólameistari foreldra og forráðamenn til að standa með börnum sínum og styðja þau á skólagöngunni. Það væri til dæmis ekki skynsamlegt að sleppa tökunum af börnunum og ætla nemendum 4. bekkjar að sjá um vímuefnauppeldi þeirra.
Að lokum fjallaði skólameistari um nauðsyn góðrar umgengni og að eldri nemendur ættu að vera fyrirmyndir hinna yngri. Hann þakkaði foreldrum og forráðamönnum svo fyrir að treysta skólanum fyrir börnum sínum. Nú væri að því komið að allir til samans gerðu eins vel og þeir gætu.