Skólasetning MA 2022
Skólasetning MA 2022

Menntaskólinn á Akureyri var settur í dag, í fallegu veðri og við mikið fjölmenni. Það var sannarlega gleðilegt að hefja skólaárið á þennan hátt. Karl Frímannsson setti skólann og hóf ræðu sína á að þakka fyrrverandi skólameistara, Jóni Má Héðinssyni, fyrir framlag hans til menntamála. Karl kom inn á fjölmörg atriði í ræðu sinni, ekki síst gildi góðra samskipta og þess að sýna virðingu, þrautseigju og mikilvægi þess að gefast ekki upp. Hann vitnaði í Nelson Mandela sem sagðist aldrei tapa, því ef að hann ynni ekki þá lærði hann af því. Karl minnti líka á mikilvægi gleðinnar og hvatti nemendur til að vinna að því að vera góðar manneskjur.

Að lokinni skólasetningu var skólasöngurinn sunginn og nemendur í 1. og 2. bekk fóru í stofur til umsjónarkennara sinna. Foreldrar urðu hins vegar eftir í Kvosinni þar sem var stuttur kynningarfundur fyrir þá. Minnt var á foreldrafélagið, ForMA, sem tryggir aðkomu foreldra að skólastarfinu og hvatt til góðra samskipta milli heimilis og skóla, svo hægt sé að stuðla að velferð nemenda.

Alls eru 607 nemendur skráðir í skólann og þar af 240 nýnemar í alls 9 bekkjum. Svo margir nýnemar hafa aðeins einu sinni verið áður en það var árið 2006. Kennsla hefst í fyrramálið en hún verður þó aðeins slitrótt fyrstu dagana vegna nýnemamóttöku. Stjórn skólafélagsins og stjórnir undirfélaga bjóða nýnemum í göngu um bæinn eftir hádegi á morgun og kynna þeim starfsemi undirfélaganna í leiðinni. Á miðvikudaginn eftir hádegi verða ýmsar stöðvar víðsvegar um skólann fyrir nýnema sem 3. bekkingar sjá um. Það verða fjölbreytt atriði tekin fyrir á þessum stöðvun, allt frá því að læra ýmis MA-lög eins og Hesta-Jóa og fara yfir flokkun sorps. Á fimmtudagskvöldið verður svo danskeppni og nýnemaball.