Stúdentar MA 2009
Stúdentar MA 2009

Menntaskólanum á Akureyri var slitið í i dag. Skólameistari Jón Már Héðinsson brautskráði 143 stúdenta, 71 af félagsfræðibraut, 24 af málabraut, 48 af náttúrufræðibraut, þar af 16 af eðlisfræðilínu og einn jafnframt af tónlistarkjörsviði listnámsbrautar. Að þessu sinni var enn fremur brautskráður fyrsti hópur nemenda sem komu í skólann rakleitt úr 9. bekk grunnskóla.

Í vetur voru nemendur skólans 726. Miklar kröfur eru gerðar til nemenda og sérhver einkunn reiknast að lokum til stúdentsprófs. Langbestum árangri eftir bekkjum náðu Hallfríður Kristinsdóttir sem var hæst fyrstubekkinga með 9,9 í meðaleinkunn á skólaárinu. Í öðrum bekk var hæst Eva María Ingvadóttir með 9,8, í þriðja bekk var Tinna Frímann Jökulsdóttir hæst með 9,3 og í fjórða bekk voru jafnhá Kristján Godsk Rögnvaldsson og Svala Lind Birnudóttir með 9,5.

Í upphafi ræðu sinnar minntist skólameistari Árna Friðgeirssonar ráðsmanna, sem starfaði við skólann í 50 ár og Elínborgar Þorsteinsdóttur matráðskonu sem stýrði mötuneyti heimavistarinnar í tvo áratugi.
Skólameistari fjallaði um það mikla starf sem í skólanum hefur verið unnið að því að endurskoða og bæta skólaskipan og laga hana að nýjum lögum um framhaldsskóla. Hann tók fram að allir starfsmenn og nemendur hefðu lagt til málanna og niðurstaðan væri sú að vernda heildarhagsmuni nemenda og skólans, leggja áherslu á breiða almenna menntun með markvissu starfi, nýta kosti bekkjakerfisins og auka svigrúm nemenda til að móta sjálfir stúdentspróf sitt, sem stæðist hæstu gæðakröfur.

Jón Már fjallaði um fjárveitingar til skólans og kvaðst vongóður um að með nýju verklagi yrðu þær tryggari en verið hefur. Skólinn hefði verið afar vel rekinn og samkvæmt ströngum reglum og það væri lykilatriði að ríkisvaldið tæki tillit til þess og léti skólann njóta þess en ekki gjalda óreiðu annarra stofnana.

Í skólanum hefur verið unnið að margvíslegum þróunar- og framfaramálum og gerði skólameistari nokkra grein fyrir þeim eldmóði og metnaði starfsmanna sem einkenndi starfsandann í skólanum. Aukin áhersla væri lögð á þverfaglegt starf og skýrasta dæmið um það væri ferðamálakjörsviðið, sem hefði hlotið Evrópumerkið fyrir framsýni og nýjungar og kennarar væru boðaðir til að kynna það víða um heim. Fleiri samstarfsverkefni kennara væru í gangi auk þróunarstarfs um almenna námsbraut hraðlínu og stoðlínu, sem unnið hefði verið að. Meðal annars hefði af þessum tilraunum leitt að í nýju skólakerfi sé stefnt að því að skóladagurinn verði vinnudagur þar sem nemendur geti að mestu lokið því sem hingað til hefur verið kallað heimanám.

Jón Már þakkaði öllum starfsmönnum og lagði áherslu á umgengni og umhverfismál, þar sem meðal annars ræstitæknar eiga stóran þátt, og hann gat þess að starf þeirra og umhverfisnedndar skólans hefði leitt af sér að skólinn hefði á vordögum fengið að skarta grænfánanum.

Skólameistari fór orðum um félagsstarfsemina í skólanum, hversu ríkur þáttur hún væri í skólastarfinu og mótun nemendanna og ætti sinn þátt í þeim órofa böndum sem nemendur bindast skólanum og vitja hans reglulega og rækta vináttu sína. Hann nefndi nokkur dæmi um glæsilegan árangur nemenda meðal annars í leiklist, blaðaútáfu, söngkeppni, íþróttum og margvíslegum listum. All þetta auk námsins og daglegra annað gerir fólk að MA-stúdentum. En meistari nefndi líka afrek nemenda skólans á öðrum vígstöðvum, þar sem þeir eiga fulltrúa í alþjóðlegri keppni í eðlisfræði, efnafræði, og þýsku, svo eitthvað sé nefnt.

Fulltrúar áfmælisárganga ávörpuðu samkomuna og færðu skólanum kveðjur og gjafir. Fyrst skal nefna Huldu Kristjánsdóttur, sem lauk stúdentsprófi frá MA fyrir 70 árum. Fultrúi 60 ára stúdenta var Steinunn Bjarman, Halldór Blöndal var fulltrúi 50 ára stúdenta, Ragnheiður Ríkharðsdóttir talaði fyrir hönd 40 ára stúdenta, Þuríður S. Árnadóttir fyrir hönd 25 ára stúdenta og fulltrúi 10 ára stúdenta var Þórir Sigmundsson.

Meðaleinkunn á stúdentsprófi var 7,44. Dux scholae, með hæsta einkunn á stúdentsprófi sem er meðaltal allra prófseinkunna í skólanum, er Svala Lind Birnudóttir af málabraut með einkunnina 9,31. Næsthæstu einkunn á stúdetsprófi hlaut Kristín Sigurðardóttir af félagsfræðibraut, 9,23. Í þriðja sæti varð Inga Helgudóttir Ingulfsen af félagsfræðibraut, með 9,14 og í fjórða sæti var Kristján Godsk Rögnvaldsson af náttúrufræðibraut, 9,05.

Fjölmargir nemendur hlutu verðlaun og viðurkenningar fyrir námsárangur og störf í þágu skólans.
Í lokaorðum til nýstúdenta minnti Jón Már þá á að rækta sig áfram undir því formerki sem þeir hefðu sýnt hér í skóla, að setja sér verðug markmið. Hamingju öðlaðist enginn nema fyrir eigin kraft. Hann þakkaði þeim góða samveru og bauð þeim að leita til skólans hvenær sem á þyrfti að halda.

Að lokum sleit Jón Már skóla í 129. sinn.

Á annarri myndinni eru Anna Elvíra Herrera Þórisdóttir, fráfarandi formaður Hugins, sem flutti ávarp nýstúdents, og Jón Már Héðinsson skólameistari. Hin er af öllum stúdentahópnum.

.