Í lok vorannar voru 768 nemendur í skólanum, piltar 323 og 445 stúlkur. Nemendur á  fyrsta ári voru 223, á öðru ári 191, á þriðja ári 171 og stúdentar eru 183 og er fjölmennasti árgangur sem hefur brautskráðst frá skólanum.

Hæstu einkunn í fyrsta bekk hlaut Hlöðver Stefán Þorgeirsson 1.C  9,2

Hæstu einkunn í öðrum bekk hlutu Hallfríður Kristinsdóttir 2.U og Agnes Eva Þórarinsdóttir 2.X 9,8

Hæstu einkunn í þriðja bekk hlutu Ingunn Hreinsdóttir 3.XY og Eva María Ingvadóttir 3.U 9,7

Hæstu einkunn í fjórða bekk hlaut Elín Inga Bragadóttir 4.Y 9,4

Þrír nemendur hlutu ágætiseinkunn á stúdentsprófi; Elín Inga Bragadóttir 9, 0, Tinna Frímann Jökulsdóttir 9,25 og Þuríður Helga Ingvarsdóttir var dux scholae með 9,3. Þuríður Helga brautskráðist af listnámsbraut með tónlistarkjörsvið eftir þriggja ára nám.

Fjölmargir nemendur hlutu verðlaun við brautskráningu.

Í upphafi minntist Jón Már Héðinsson skólameistari Róberts F. Sigurðssonar sögukennara sem féll frá í vetur.

Meistari benti því næst á stöðugleika sem ríkt hefði undanfarið í skólum landsins þrátt fyrir aðhald í rekstri og samdrátt í kjölfar kreppu. Hann sagði einnig að skóli eins og MA ætti að fá að njóta þess að vera vel rekin stofnun þegar fé er úthlutað til starfseminnar. Hann benti jafnframt á að ódýrar skyndilausnir eins og að hraðsjóða stúdenta væru ekki heppilegasta leiðin til að þjálfa nemendur fyrir líf í lýðræðisþjóðfélagi.

Þessu næst vék skólameistari að starfi skólans við námskrá samkvæmt nýjum framhaldsskólalögum. Þar hefði verið unnið mikið starf innan skólans en jafnframt leitað til grunnskóla, háskóla, núverandi nemenda og gamalla nemenda til þess að móta skólann þannig að áfram gegni hann hlutverki sínu sem best. Skólasýnin sé í takti við einkunnarorð skólans, virðing ? víðsýni - árangur, vellíðan og heilbrigði nemenda sé meðal meginmarkmiða skólans og áhersla lögð á frumleika nemendanna, fjölbreytilega læsi þeirra svo og sveigjanlegar kennsluaðferðir og námsmat.

Skólameistari velti því upp hvers vegna verið væri að breyta skólanum þegar 97% brautskráðra stúdenta teldi að skólinn byggi þá vel undir háskólanám. Ný námskrá byggðist jöfnum höndum á því sem í skólanum sé og verið hafi vel gert en ekki síður á því að fylgjast með og aðlagast því sem breytist í hraða samtímans. Þar með er talin sú breyting að auka samstarf kennara ólíkra greina, samþætta nám og kennslu, sem gefist hafi vel í skólanum. Eitt skrefið í því hafi verið mikið samstarf kennara, sérstaklega síðustu tvö skólaár, við að skapa hina nýju mynd skólans. Nýjungarnar hafi verið kynntar víða og hvarvetna verið vel tekið, í grunnskólum og í háskólum. Margir sérfræðingar í skólamálum hafi komið og verið til ráðuneytis um skólaskipanina og nefndi Jón Már sérstaklega heimsókn Wolfgangs Edelstein og jafnframt að Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra hefði heimsótt skólann og tekið þátt í kynningarfundi um nýjungarnar.

Jón Már greindi nánar frá nýjungum í nýrri námskrá, sérstaklega svonefndum Íslandsáfanga, sem sé samþætting nær helmings námsgreina á fyrsta ári. Íslandsáfanginn sé tvískiptur. Íslenska og upplýsingatækni sé gegnumgangandi í báðum greinum, en auk þess saga og félagsgreinar í öðrum hlutanum, líffræði, jarðfræði og landafræði í hinum. Mikil áhersla verði lögð á að þjálfa vinnubrögð og efla virðingu fyrir viðfangsefnunum. Þá sé aukin áhersla lögð á lífsleikni, siðfræði og heimspeki í námi nemenda. Enn fremur sé nýjung að færa dönskukennslu upp á þriðja og fjórða námsár, en með því tengist dönskunámið betur námi á Norðurlöndum. Loks verði tekin upp lokaverkefni, einstaklingsverkefni á kjörsviði nemenda. Það sé ennfremur breyting á skólaskipaninni að val nemenda verði fjórðungur náms þeirra.

Skólameistari gat þess að nám væri ekki eingöngu alvarlegt og fræðilegt, það þyrfti líka að vera skemmtilegt, og góð samvinna og samvera kennara og starfsfólks stuðlaði að því. Hins vegar mætti ekki gleyma mikilvægi félagslífsins í skólanum. Þegar gamlir nemendur hittust væri það oftar en ekki það minnistæðasta úr skólalífinu. Hann kvað það forréttindi að fá að starfa með nemendum sem stæðu af metnaði fyrir heilbrigðu félagslífi og nefndi nokkur dæmi um vel heppnað félagsstarf á liðnum vetri. Hann sagði einnig frá nemendum sem jafnframt væru afreksmenn, ýmist í keppnisgreinum sem tengjast námi eða í íþróttum á landsvísu.

Að lokinni brautskráningu ávarpaði Jón Már nýstúdenta, hvatti þá til að hafa gagnrýna hugsun að leiðarljósi, setja markið hátt og láta drauma sína rætast, en minnti þá jafnframt á að hamingjuna öðlist þeir aðeins ef þeir vinna að henni sjálfir við að strita að því litla fyrir það mikla.

Hefð er fyrir því að fulltrúar afmælisárganga ávarpi samkonuna. Fulltrúi 60 ára stúdenta var Sigurður Björnsson, fulltrúi 50 ára stúdenta var Helgi Hafliðason, fulltrúi 40 ára stúdenta var Finnbogi Jónsson, fulltrúi 25 ára stúdenta var Björn Þorláksson og fulltrúi 10 ára stúdenta var Eygló Svala Arnarsdóttir. Allir fluttu þeir skólanum góðar kveðjur og gjafir.


.