Eva María ásamt foreldrum sínum og Jóni Má
Eva María ásamt foreldrum sínum og Jóni Má

Menntaskólanum á Akureyri var slitið í 131. sinn í dag. Jón Már Héðinsson skólameistari sleit skóla og brautskráði 166 nýstúdenta. Stúdentsprófseinkunnir nemenda MA er meðaltal allra einkunna frá upphafi fyrsta bekkjar til loka þess síðasta. Meðaleinkunn stúdentahópsins var nærri 7,5 og 7 stúdentar luku prófi með ágætiseinkunn, 9 og hærra, Dux, með einkunnina 9,69, er Eva María Ingvadóttir. Tveir deila titlinum semidux, með næsthæsta einkunn, 9,5, Gauti Baldvinsson og Gunnar Björn Ólafsson, en sá síðarnefndi hlaut í gær styrk Afreks- og hvatningarsjóðs stúdenta Háskóla Íslands. Á myndinni sem tekin var að lokinni athöfninni eru ásamt skólameistara Eva María Ingvadóttir og foreldrar hennar, Dórothea Dagný Tómasdóttir og Ingvi Vaclav Alfreðsson. Miklu fleiri myndir eru á Facebooksíðu MA.

Í ræðu sinni fagnaði skólameistari því að náðst hefði kjarasamningur milli ríkis og kennara, það væri alvarlegt fyrir menntun í landinu þegar kennarar drægjust aftur úr í launum. Nauðsynlegt væri að stjórnvöld mætu og virtu störf kennara því rannsóknir sýndu að öflugt skólastarf væri langbesta forvörnin gegn rótleysi og lífsfirringu. Á erfiðum tímum eins og nú mættu yfirvöld alls ekki skera endalaust niður fjárveitingar til skóla. Með því skapaðist vítahringur, lakari þjónusta hefði í för með sér að nemendur flosnuðu upp frá námi og síðan væri kostað miklu fé til að fá þá til baka. Jón Már sagði: Það kostar fjórum sinnum meira að ná einstaklingi aftur inn í skólann en að bjóða honum fjölbreytilegt, einstaklingsmiðað nám, á meðan hann er í skólanum.

Skólameistari sagði frá metnaðarfullu starfi kennara og starfsmanna skólans til að mæta kröfum nútímans um fjölhæfni og aðlögun. Þetta sé gert með samþættingu námsgreina, meðal annars í Íslandsáfanganum í 1. bekk þar sem upplýsingatækni í einstaklings- og hópverkefnum er beitt við metnaðarfull verkefni á sviði sögu, samfélagsfræði, náttúru-, jarð-, og líffræði þar sem lögð er áhersla á læsi og margvíslega beitingu móðurmálsins í ræðu og riti. Þetta er allt gert í takti við skólasýn MA sem byggist á einkunnarorðum hans, virðing, víðsýni, árangur. Og breytingar sem þegar hafa tekið gildi í 1. bekk kalla á að kennarar endurskoði og smíði nýja áfanga og breyttar áherslur. Jón Már tók fram að í öllu þessu breytinga- og nýjungastarfi ynnu saman jafnt reynslumestu kennarar skólans og þeir yngstu, með afar góðum árangri

Fleira fylgir nýrri skólanámskrá, sem smíðuð hefur verið á undanförnum árum og unnið hefur verið eftir í vetur. Heimspeki og siðfræði verður kennd öllum nemendum, dönskukennslan flutt af fyrstu tveimur árunum á tvö þau síðustu, meðal annars til að tengja nemendur betur við framhaldsnám á Norðurlöndunum, val nemenda verður fjórðungur námsins og námi hvers stúdents lýkur á stóru lokaverkefni. Að auki tekur skólinn þátt í verkefni Lýðheilsustöðvar að vera heilsueflandi skóli.

Jón Már sagði stundum spurt hvers vegna MA væri að breyta námi og kennslu þegar 97% MA-nemenda í Háskóla Íslands teldu námið í MA góðan undirbúning og nemendur MA skiluðu bestum árangri allra nemenda HÍ. Hann sagði gott að vita af góðum árangri en af slíku væri ekki ofmetnast, í öllum breytingum væri tekið mið af því sem best hefur verið gert og reynt að bæta það sem betur má gera og skólinn ætti ekki að staðna. Í MA lítum við ekki á kyrrstöðu sem möguleika. Það koma nýir nemendur, nýir kennarar og samfélagið tekur breytingum og við í MA ætlum okkur að hafa áhrif á þær breytingar. Það gerir maður ekki með því að snúa öfugur í sætinu.

Jón Már fjallaði um félagslífið í skólanum og gildi þess í mótun nemendanna. Heilbrigt félagsstarf sem stjórnað væri af nemendum sjálfum af einlægum metnaði þeirra væri öflugt forvarnastarf og í nútímasamfélagi þyrfti hugrekki til að skipuleggja og stjórna þúsund manna árshátíð og fimm hundruð manna skólaböllum og kvöldvökum í húsum skólans nokkrum sinnum á ári – allt þetta fullkomlega vímuefnalaust. Svona starfi ætti að hampa og virða það sem ungt fólk gerir vel. Þá nefndi skólameistari fjölmörg dæmi um framúrskarandi árangur og afrek nemenda skólans í leik og keppni innan skóla og á landsvísu og þakkaði öllum þeim sem bera hróður skólans víða.

Í lokaávarpi sínu til nýstúdenta þakkaði skólameistari þeim samferðina. Kveðjustundin væri tregablandin, ekki bara þeim sem færu heldur líka starfsmönnum öllum. Þið hafið verið mikilvægur hluti af starfi okkar í fjögur ár og deilt með okkur sorg og gleði. Maður saknar þess sem skiptir máli. Hann óskaði þeim loks velfarnaðar, hvatti þá til að trúa á drauma sína, trúa á hæfileika sína og minnti loks á að hamingja þeirra væri í höndum þeirra sjálfra.