Menntaskólanum á Akureyri verður slitið í Íþróttahöllinni á Akureyri þriðjudaginn 17. júní. Athöfnin hefst klukkan 10, en hús stendur opið frá klukkan 9.

Að þessu sinni verða brautskráðir 152 stúdentar, en þetta er í annað sinn sem brautskráðir eru nemendur sem hafa stundað nám samkvæmt nýrri námskrá MA, sem starfað hefur verið eftir í fimm ár.

Að vanda munu tónlistarmenn úr röðum nýstúdenta leika við athöfnina, skólameistari flytur skólaslitaræðu og brautskráir stúdenta, fulltrúar afmælisárganga, 10 ára, 25 ára, 40, 50, 60 og 70 ára stúdenta flytja ávörp og kveðjur og fulltrúi nýstúdenta ávarpar samkomuna.

Að athöfn lokinni verða myndatökur. Að þessu sinni verða þær á nýjum stað, í þrepum sunnan undir Skólatorginu, þar sem mætast Möðruvellir og Hólar. Þessi þrep eru hugsuð sem möguleg útikennslustofa, en aldrei viðraði svo í vor að á það reyndi.

ÚtiSamhliða myndatökunum verður opið hús í MA til klukkan 15 síðdegis. Þar gefst gestum og gangandi færi á að skoða skólahúsin, rifja upp gömul kynni og myndir, skoða námsverkefni nemenda og svala sér á kaffi og kökum.

Á Hólagangi, milli Hóla og Gamla skóla, verða sýnd verk eftir tvo unga listamenn, sem luku námi við fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri í vor. Þetta eru Jónína Björg Helgadóttir, stúdent frá MA 2009 og James Earl Cistam, stúdent frá MA 2011.

Í tilefni 110 ára afmælis Gamla skóla verður sett upp söguskilti um hús skólans við gamla gangstíginn að innganginum í gamla skólahúsið. Þar eru myndir af skólahúsunum, teikning af svæðinu og örstuttar frásagnir um hvert hús.

Að kvöldi 17. júní er hátíðarsamkoma nýstúdenta í Íþróttahöllinni þar sem þeir koma með fjölskyldum sínum og vinum til borðhalds og þar munu stúdentarnir einnig flytja ýmis skemmtiatriði. Stúdentarnir fara að því loknu í bæinn og dansa á Torginu um klukkan 23.00, en nýstúdentaball er síðan í Höllinni fram eftir nóttu við undirleik hljómsveitarinnar Buff og Ernu Hrannar Ólafsdóttur, sem varð stúdent 2001.

JúbílantinnGamlir nemendur koma hundruðum saman til Akureyrar til að fagna stúdentsafmælum sem standa á heilum tug og hálfum og setja svip á bæjarlífið dagana 14., 15. og 16. júní. Þeir fara gjarnan í dagsferðir um nágrennið og halda alls kyns fagnaði vítt og breitt um bæinn og sameinast svo á MA-hátíðinni í Íþróttahöllinni að kvöldi 16. júní. Þar verður borðhald og margvísleg skemmtidagskrá árganganna og Buff og Erna Hrönn spila fyrir dansi fram á nótt.

Upphafsmenn MA-hátíðarinnar eru þeir sem í þetta sinn eru 50 ára stúdentar, en hverju sinni er hátíðinni stjórnað af 25 ára stúdentum. Á þessum tímamótum hefur nú verið gefið út blaðið JÚBÍLANTINN, mætast vinir enn í dag. Blaðið er tileinkað öllum afmælisárgöngum skólans en þó er sjónum mest beint að 25 ára stúdentum. Frá árinu 1990 hafa þeir skipulagt og haldið utan um MA-hátíðina sem mörg hundruð manns sækja á hverju ári.

Ritnefnd skipuðu Arnar Már Arngrímsson, Hildur Hauksdóttir, Sigurlaug Anna Gunnarsdóttir og Valdimar Gunnarsson. Harpa Sveinsdóttir var fulltrúi 25 ára stúdenta en þeir leggja mikið efni til blaðsins.  Nokkrir úr hópi 25 ára stúdenta rifja upp minningar frá menntaskólaárunum og Orri Páll Ormarsson tekur viðtal við Jóhann Sigurjónsson fyrrverandi kennara og skólameistara og Kjartan Þorbjörnsson, Golli, leggur til myndir. Aðrar myndir eru flestar eftir Auðun Níelsson og Sverri Pál Erlendsson

Eins og ævinlega er fulltrúum fjölmiðla guðvelkomið að fylgjast með þessum miklu hátíðahöldum og greina frá þeim í máli og myndum.

Siðameistari MA er Rannveig Ármannsdóttir (898 1275). Hún heldur utan um brautskráninguna, en Hólmfríður Jóhannsdóttir (868 0738) er veislustjóri að kvöldi 17. júní.