Menntaskólanum á Akureyri verður slitið í 137. sinn í Íþróttahöllinni 17. júní klukkan 10.00. Húsið er opið gestum frá klukkan 9.00.

Skólameistari, Jón Már Héðinsson mun brautskrá 145 stúdenta. Fulltrúar afmælisárganga munu flytja ávörp auk fulltrúa nýstúdenta. Þar er um að ræða fulltrúa 10 ára stúdenta, 25 ára, 40, 50, 60, og 70 ára stúdenta. Tónlistaratriði verða í höndum tveggja nemenda skólans, sem báðir voru í vetur í 3. bekk og eiga ár eftir til stúdentsprófs, en hafa þegar lokið námi við Tónlistarskólann á Akureyri og haldið lokatónleika sína þar. Þetta eru Una Haraldsdóttir og Alexander Smári Edelstein.

Að brautskráningu lokinni verður haldið rakleitt í myndatöku í útiþrepunum við Möðruvelli. Á sama tíma og allt fram til klukkan 15.00 verður opið hús í skólanum og gestum boðið að þiggja léttar veitingar, skoða skólahúsin og sýningu á verkefnum nemenda, sem verður í kennslustofum á Hólum, og listaverk skólans, sem eru í öllum skólahúsunum. Þá verður og opið upp á Suðurvistir í Gamla skóla, en þar er meðal annars svolítil sýning á gömlum kennslutækjum. Þá verður Bókasafn skólans opið og þar verður eitt og annað að sjá, meðal annars gamlar Carminur.

Um kvöldið er Hátíðarveisla nýstúdenta og fjölskyldna þeirra í Íþróttahöllinni og þar verða skemmtiatriði úr röðum stúdentanna. Undir miðnætti hópast þeir í bæinn og dansa og syngja á Torginu en síðan verður dansað fram á nótt í höllinni við leik hljómsveitarinnar Í svörtum fötum.

Undirbúningur stúdentahátíðarinnar hefur staðið yfir undanfarið, en siðameistari er Linda Sólveig Magnúsdóttir. Umsjá hátíðarveislunnar um kvöldið er í höndum Eyrúnar Huldar Haraldsdóttur en Hafdís Inga Haraldsdóttir heldur utan um sýningu á verkefnum nemenda.

  • Miðasala fyrir Hátíðarveisluna 17. júní er í stofu H4 á Hólum mánudaginn 12. og þriðjudaginn 13. júní klukkan 11-13. Á sama stað verður hægt að velja sæti í höllinni.
  • Æfing nýstúdenta fyrir brautskráninguna fer fram í Kvosinni föstudaginn 16. júní klukkan 10.- 11. Mjög áríðandi er að allir mæti.
  • Mæting nýstúdenta 17. júní er klukkan 9.00 í Kvosinni. Þar fá þeir blóm í barminn og raða sér upp til göngunnar út í Höll.
  • Hátíðin í höllinni hefst klukkan 19.30. Húsið er opnað klukkan 18.30 og æskilegt að fólk komi tímanlega til að koma sér fyrir í sætum og panta drykki.