Í stúdentahópnum 2012
Í stúdentahópnum 2012

Menntaskólanum á Akureyri var slitið við athöfn í Íþróttahöllinni á Akureyri 17. júní. Jón Már Héðinsson skólameistari brautskráði þá 153 nýstúdenta.

Í ræðu sinni við skólaslit varpaði skólameistari fram spurningunni af hverju nemendur veldu MA. Hann taldi að það væri einkum af orðspori skólans og ekki síst því að kannanir í Háskóla Íslands sýndu að nemendur MA væru jafnan í hópi þeirra sem vegnaði best í námi þar.

Skólameistari vék því næst að rekstri skólans og benti á að niðurskurður á fé til skólanna kæmi verst niður á vel reknum bekkjaskólum, sem væru þó ódýrastir í rekstri. Aðhald og sparnaður hefði verið í rekstri MA árum saman fyrir hrun og nú væri komið að hættumörkum. Skólinn og starfsfólk hans hefðu leitast við að veita nemendum góða þjónustu og þannig reynt að skerða ekki menntun þeirra. Skólinn og menntamálaráðuneytið þyrftu öflugri stuðning samfélagsins til að standa vörð um menntun. Ef menntun hrakaði kæmi það illa niður á atvinnulífinu seinna meir, það væri til dæmis alvarlegt fyrir sjávarútveg og iðnað ef ekki fengist fólk til starfa með góða framhaldsmenntun. Skólakerfið væri ekki hafið yfir gagnrýni en það væri áhorfsmál hvort rétt væri að skerða menntunarþættina með órökstuddum skyndilausnum eins og að ríkið standi að rekstri tveggja framhaldskólakerfa.

Jón Már sagðist hafa hvatt nemendur til að vera gagnrýna á stjórnun skólans og því hefði verið illa tekið á sínum tíma þegar skólinn vildi færa busavígslu til manneskjulega horfs. Í vetur hefði vaknað andstaða nemenda við afskipti skólayfirvalda af félagsstarfi innan og utan skóla sem væri ekki í samræmi við skólasýn og einkunnarorð MA. Hann kvaðst gleðjast yfir gagnrýni því hún leiddi til umræðu og hvatti nýstúdenta til að halda gagnrýni sinni og hafna henni ekki.

Skólameistari ræddi um nýja menntastefnu og námskrá MA, sem unnin væri vegna þess að skólinn vildi sífellt vera búinn undir að svara kalli breyttra tíma. Tuttugasta öldin hefði verið öld mælanleikans, allt mælt með tölum en engir reitir til dæmis fyrir öfund og græðgi eða ánægju og væntumþykju. Það væri markmið skólans að meta nemendur eftir fleira en því sem setja mætti í tölulega mælikvarða. Út á það gengi frelsisandi framhaldsskólalaganna. Þess vegna væri erfitt að horfa upp á að Háskóli Íslands áformaði að taka upp prófakerfi sem gengi þvert á þessa menntastefnu með sérstökum aðgangsprófum sem væru einungis þekkingarpróf, einsleitt stýrandi mat. Með því væri HÍ að véfengja fjögurra ára fjölbreytt námsmat sem tæki jafnt til mælanlegra og metanlegra þátta námsins á meðan aðrir háskólar um víða veröld tækju nemendum MA fagnandi.

Jón Már skýrði nokkrum orðum breytingar sem orðið hefðu í skólanum með mikilli þverfaglegri samvinnu kennara ólíkra greina og samkennslu greina sem áður hefðu verið einangraðar. Hann rakti í framhaldi af því einkunnarorð skólans, virðingu, víðsýni og árangur, og innihald þeirra og skýrði jafnframt skólasýnina, sem meðal annars byggðist á því að þroska víðsýni nemenda og efla ábyrgðartilfinningu þeirra, vellíðan og heilbrigði, sjálfstæð vinnubrögð og afla sér um leið staðgóðrar þekkingar og læsis á allt umhverfi sitt.

Til marks um nyjungar í ljósi skólasýnarinnar gerði skólameistari grein fyrir nokkrum þáttum, meðal annars viðamiklu samvinnuverkefni í Íslandsáfanganum, þar sem nemendur í 1. bekk verðu nær helmingi námstíma síns í samþættum greinum þar sem mikil áhersla væri lögð á hópvinnu og einstaklingsverkefni, leiðsögn og víðtæka þjálfun í margvíslegum vinnubrögðum við nám. Sumir áfangar í áframhaldandi námi væru skipulagðir með samþættingu að leiðarljósi og samvinnu kennara í ólíkum greinum, eins og að samkenna ensku og landafræði. Hann nefndi breytingar í lífsleikni sem miðuðu að því að þjálfa nemendur í virkri þátttöku og umburðarlyndi í samskiptum. Hann benti á þá áherslu sem skólinn hefði einsett sér að allir nemendur fengju fræðslu um siðfræði. Hann benti á færslu dönskunámsins úr fyrri hluta námsáranna til hins seinni, meðal annars til að þjóna þeim betur sem hygðu á framhaldsnám á Norðurlöndum. Síðast en ekki síst væri val nemenda í nýju námskránni fjórðungur heildarnámsins.

Meistari gerði grein fyrir skólastarfinu sem víkur að námi og kennslu og kom fram hjá honum að besti árangur eftir bekkjum, ef eingöngu væri litið á úrslit prófa á skólaárinu 2011-2012 væri sá að í fyrsta bekk var Ásdís Björk Gunnarsdóttir hæst með 9,5, Júlía Þóra Oddsdóttir var með hæsta vetrareinkunn í 2. bekk, 9,0, í þriðja bekk var Kristín Kolka Bjarnadóttir hæst með 9,5 og í fjórða  bekk var Agnes Eva Þórarinsdóttir efst með vetrareinkunnina 9,9. Þessar einkunnir eru meðaltal allra prófa skólaársins. Stúdentsprófseinkunn er hins vegar meðaltal allra prófa nemenda öll fjögur skólaárin. Þess má geta að allar þesar fjórar stúlkur eru nemendur sem hafa verið á hraðlínu, þar sem nemendur eru jafnan ári yngri en gerist og gengur og koma rakleitt úr 9. bekk grunnskóla.

Jón Már gerði grein fyrir skólalífinu í víðu samhengi þar sem félagslíf nemenda skipti ekki síst máli. Þar væri skólafélagið Huginn kjölfestan en til dæmis um félagslífið mætti nefna stórglæsilega árshátíð, magnaða söngkeppni, blaðaútgáfu, leiklist, mikið íþróttastarf og keppni, býsna góðan árangur í Gettu betur og Morfís og margvíslega listastarfsemi, dans, myndlist og tónlist. En nemendur hefðu ekki síður staðið sig með mikilli prýði í fræðilegri keppni. Þeir hefðu staðið sig vel í keppni í eðlisfræði og stærðfræði og MA ætti fulltrúa í Ólympíuliði Íslands í efnafræði. Þeir hefðu staðið sig vel í ræðukeppni í ensku og þýskuþraut, eins hefðu þeir átt merkilegt tæki í áskorun HR og fengið viðurkenningu í snilldarlausnakeppni Marels. Auk þess hefði sprengigengi efnafræðinema farið víða um Norðurland og sýnt listir sínar.

Skólameistari ræddi um tryggð gamalla nemenda við skólann sem sýndi að hér væri gott að vera. Nokkrir fulltrúar þeirra fluttu ávörp við athöfnina. Fulltrúi 70 ára stúdenta var Sverrir Pálsson, 60 ára stúdenta Guðmundur Þorsteinsson, 50 ára stúdenta Svanfríður Larsen, 40 ára stúdenta Anna Dóra Antonsdóttir, 25 ára stúdenta Ebba Margrét Magnúsdóttir og fulltrúi 10 ára stúdenta var Hálfdán Pétursson.

Ebba Margrét upplýsti hverjir hefðu hlotið styrk úr Uglusjóðnum, hollvinasjóði MA. Anna Eyfjörð hlaut styrk í umboði ferðamálakjörsviðs,  Valdís Björk Þorsteinsdóttir og Hólmfríður Þorsteinsdóttir hlutu styrk til að vinna að stærðfræðikennsluefni fyrir tungumála- og félagsgreinasvið, Guðjón Andri Gylfason og Stefán G. Jónsson hlutu styrk til að kaupa tæki til verklegrar kennslu í raungreinum, MyMA, myndbandafélag nemenda, fékk fjárveitingu til að koma myndbandasafni nemenda á stafrænt form og efnafræðifélag nemenda, sem staðið hefur fyrir sýningum á efnafræðitilraunum og spengingum hlaut einnig styrk.

Við brautskráningu nýstúdentanna 153 kom fram að margir hlutu verðlaun og viðurkenningar, en hæsta einkunn á stúdentsprófi, meðaltal einkunna í öllum prófum í fjögur ár, fékk Agnes Eva Þórarinsdóttir, 9,8. Þetta er hæsta einkunn á stúdentsprófi MA. Til grundvallar liggja 60 próf, 48 sinnum hefur hún fengið 10, 12 sinnum 9. Næsthæst var Hallfríður Kristinsdóttir með 9,65, í þriðja sæti Sunna Björnsdóttir með 9,4 og í fjórða sæti Sigurbjörg Björnsdóttir með 9,27. Þrjár þær fyrstu mættu í hvern einasta tíma alla fjóra veturna.

Að lokinni brautskráningu flutti fráfarandi formaður Hugins, Sindri Már Hannesson, ávarp nýstúdents. Að því loknu kvaddi skólameistari nýstúdenta með óskum um góða framtíð og að dvöl þeirra í skólanum nýttist vel, en minnti jafnframt á að hamingjuna yrðu þeir að finna hjá sjálfum sér, hana væri ekki hægt að kaupa.

Myndataka fór fram við Stefánslund og síðan var opið hús í MA fram eftir degi og þá komu í heimsókn fjölmargir góðir gestir.