Kennslu verður haldið áfram að mestu með óbreyttum hætti í MA og því skipulagi sem gilt hefur. Í nýjum reglum um framhaldsskóla er heimilt að halda uppi kennslu ef nemendur blandast ekki milli hópa/bekkja. Starfsfólk getur hins vegar farið milli hópa. Engir hópar í skólanum eru fjölmennari en 30 manns og erum við því innan þeirra fjöldatakmarkana sem nú gilda. Sjá skipulagið hér. 

Helstu breytingar sem verða:

  • Bekkir mega ekki blandast saman og því verður að finna aðrar lausnir á blönduðum hópum í 1. og 2. bekk. Nemendur verða upplýstir um þær breytingar.
  • Nemendur sem eru í sveigjanlegum námslokum sem fara milli hópa eru beðnir um að hafa samband við brautarstjóra eða náms- og starfsráðgjafa.
  • Valgreinar í 3. bekk verða kenndar í fjarnámi.
  • Grímuskylda verður við innganga (nemendur þurfa að koma með grímur með sér á morgnana) og þegar ekki er hægt að halda eins metra regluna, sem getur verið í kennslustundum ef nemandi þarf aðstoð hjá kennara eða á göngum.
  • Mötuneyti heimavistar verður lokað öðrum en heimavistarbúum.

Ekki er hægt að halda uppi neinu félagsstarfi meðal nemenda en það er hins vegar afar jákvætt að við getum haldið staðnámi að þetta miklu leyti. Það reynir hins vegar enn meira nú á grímunotkun, 1 m regluna og allar sóttvarnir, svo ekki sé talað um að hópamyndum á göngum er alls ekki leyfð.

Við stöndum saman, vinnum þetta saman og hjálpumst öll að.

 

Úr nýrri reglugerð um sóttvarnir:

Í öllum byggingum framhaldsskóla er skólastarf heimilt að því tilskildu að nemendur og starfs­fólk geti haft minnst 1 metra fjarlægð sín á milli og hámarksfjöldi nemenda í hverri kennslustofu fari ekki yfir 30. Í sameiginlegum rýmum skóla, s.s. við innganga, í anddyri, á salerni og á göngum, er heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun og reglu um blöndun hópa að því gefnu að notast sé við andlitsgrímu. Við aðstæður þar sem ekki er hægt að framfylgja nándarreglunni, svo sem í verklegri kennslu, listkennslu, klínísku námi og kennslu nemenda á starfsbrautum skulu nemendur og kennarar nota andlitsgrímu sem hylur munn og nef.

Blöndun nemenda milli hópa er ekki heimil í kennslu en starfsfólki er heimilt að fara á milli hópa.

Aðrir viðburðir sem ekki teljast til kennslu eða náms skulu ekki fara fram í skólabyggingum. Takmarka skal gestakomur í skólabyggingar.

Við íþróttakennslu eru snertingar heimilar milli nemenda á æfingum og í keppnum. Aftur á móti skal virða 1 metra nálægðartakmörkun í búningsklefum og á öðrum svæðum utan æfingasvæðis og keppnissvæðis.

Sameiginlegir snertifletir í kennslustofum framhaldsskóla skulu sótthreinsaðir eftir hverja við­veru nemenda­hópa. Jafnframt skal sótthreinsa sameiginlegan búnað og snertifleti a.m.k. einu sinni á dag og leggja áherslu á einstaklingsbundnar sóttvarnir.

Ákvæði þetta skal ekki koma í veg fyrir að nemendur geti áfram dvalið á heimavist.