Menntaskólinn á Akureyri var settur í morgun. Skólameistari ávarpaði nemendur og gesti og gerði grein fyrir því að skólinn, sem stæði á fornum grunni, væri nú á tímamótum. Til þess að halda þeirri stefnu að vera ævinlega í hópi bestu framhaldsskóla á Íslandi yrði í vetur unnið að endurskipulagi náms og kennslu í takti við ný lög um framhaldsskóla. Jón Már sagði að skólanum gæfist gott tækifæri til að auka á styrk sinn og stöðu, en til þess yrði að koma góð samvinna allra sem að skólanum standa, ekki síður nemenda en annarra, en meðal annars yrði námseining endurskoðuð og framvegis miðuð við vinnuframlag nemenda en ekki einvörðungu mæld í kenndum stundum.

Jón Már sagði að í skólanum yrðu í vetur um 750 nemendur í 33 bekkjum. Hann tók fram að nám í MA væri fullt starf og miðað væri við að jafnan mætti ljúka námsvinnu á tímabilinu frá 8 að morgni til 5 síðdegis. Hann hvatti nemendur til að ljúka sem mest námi sínu í húsum skólans þar sem aðstaða er öll hin ákjósanlegasta. Jón Már tók sérstaklega fram að starf skólans væri ekki miðað við að nemendur ynnu launaða vinnu með námi, og gaf í skyn að slíkt ættu nemendur helst að forðast. Hann hvatti til góðrar umgengni og ekki síst til að nemendur tækju drjúgan þátt í félagsstarfi, því í skólanum væri mikið, heilbrigt og metnaðarfullt félagsstarf, skipulagt af nemendum sjálfum, og það kæmi að verulega góðum notum í lífinu ekki síður en haldgott bóknám.

Skólameistari hvatti nemendur til að minnast orða Ólafs Stefánssonar og annarra afreksmanna í silfurliði Íslands á Ólympíuleikunum, og minnti í leiðinni á að þar voru tveir MA-stúdentar, að trúa og treysta á hið góða, vinna á því sem gott er og jákvætt en forðast að láta hið neikvæða og það sem maður getur ekki naga burt frá sér kjarkinn. Nemendur ættu að setja markið hátt, vera í hópi þeirra bestu, og ekki hika við að hrósa fyrir það sem vel væri gert.

Jón Már óskaði nemendum loks velfarnaðar, bauð nýnema velkomna, sagði að busavígsla yrði á þriðjudag og þar yrði þess gætt að enginn yrði niðurlægður. Busavígslan ætti að vera spennandi, mannúðleg og skemmtileg, þannig yrði hún eftirminnileg. Að þessu loknu voru gestum boðnar veitingar, nemendur í 1. og 2. bekk fóru síðan í stofur og hittu umsjónarkennara sína.

Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá á morgun, föstudag, klukkan 8.15.

.