Skólasetning 2012
Skólasetning 2012

Menntaskólinn á Akureyri var settur í morgun í 133. sinn fyrir fullum sal af fólki. Jón Már Héðinsson skólameistari ávarpaði gesti og setti skóla.

Í ræðu skólameistara kom fram að nemendur í vetur væru 752 talsins og þar af 220 í 1. bekk. Af um 330 nemendum á Heimavist væri sem næst helmingurinn úr MA.

Jón Már benti á þá hollustu sem starfsfólk og nemendur sýndu skólanum, áhersluna sem lögð er á að búa nemedur undir háskólanám og góða frammistöðu nemenda þar. Nemendur veldu MA vegna þess. Það væri jafnframt nauðsynlegt að nemendur legðu sig fram í námi, drægju úr endurtökuprófum með því að stunda námið reglulega og standa sig. "Þið nemendur markið framtíð ykkar á þessum árum í MA", sagði hann, „Þið þurfið að svara ykkur sem fyrst hver þið viljið vera, þá getið þið tekist á við spurninguna hvað þið viljið verða."

Skólameistari lýsti í stuttu máli nýrri námskrá, sem miðaði að því að nemendur skólans hefðu að námi loknu í höndum þau tól og tæki sem þarf til að takast á við framtíðina í námi og starfi. Skólanum væri mikils virði að fá áhugasama og metnaðarfulla nemendur. Hann sagðist vita að margir nemendur vissu ekki enn hvert stefnt væri en áhuginn væri margvíslegur. „Það skiptir miklu að þið leggið ykkur fram um að tengja námið við það sem ykkur finnst áhugavert og biðja kennarana um að hjálpa ykkur við það, þá verður það ykkar og þið lærið fyrir ykkur sjálf. Það er ekkert í náminu hér sem er svo erfitt að þið ráðið ekki við það, þetta er spurning um vinnu." Hann sagði að skólinn gerði kröfur til nemenda og þeir yrðu að vera gagnrýnir og virkir, vel undirbúnir í kennslustundum og tilbúnir að svara sjálfum sér af heiðarleika hvort þeir hefðu gert eins vel og þeir gætu.

Jón Már talaði um hið mikla félagslíf í skólanum sem væri stór þáttur í því að búa nemendur undir þátttöku í lífi og starfi í lýðræðisþjóðfélagi. Hinu metnaðarfulla félagslífi væri stjórnað af nemendum sjálfum og þeir ætluðust til að félagslífið innan skólans væri áfengis- og vímuefnalaust. Í þessu sambandi skipti miklu máli hvernig tekið væri á móti nýjum nemendum í skólanum. Í næstum áratug hefði verið tekið við nýnemum með alls kyns leikjum og þrautum og skemmtun, að hafa gaman saman án lítilsvirðingar. Þessu stýrðu eldri nemendur af þroska og ábyrgð og hefðu gert það mjög vel. Öllu þessu lyki svo með busaballi í skólanum sjálfum, að sjálfsögðu án áfengis og vímuefna. Þessi opinbera móttaka væri til fyrirmyndar. „Hins vegar," sagði skólameistari, „hefur verið óopinber móttaka nýnema sem fer fram utan skólans og er haldið leyndri fyrir skólanum. Þetta eru svokölluð busapartí þau hafa ekki alltaf verið til fyrirmyndar vegna þess að þar er áfengi haft um hönd. Þessi seinni partur móttökunnar er í hrópandi mótsögn við allt annað sem nemendur gera í félagslífinu. Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá er félagslíf MA-inga innan og utan skólans tengt, við njótum þess þegar vel gengur og gjöldum þegar við segjum eitt og gerum annað. Það er því gleðilegt til þess að vita að sífellt fleiri fjórðubekkir leggja metnað sinn í að nota ekki brennivín til að tengjast sínum fyrsta bekk heldur uppbyggilegri og skemmtilegri leiðir." Og hann beindi orðum sínum til foreldra: „Ykkur foreldra hvet ég til að standa með börnum ykkar á þessum tímamótum, styrkja þau í lífsviðhorfi sínu og hafa samband við skólann ef þið eruð í vafa. Það hljómar ekki trúverðugt ef þið standið hlutlaus hjá og ætlist til að skólinn eða nemendur skólans í fjórða bekk sjái um vímuefnauppeldi barna ykkar, hér verðum við öll að standa saman. Ég vil árétta að skólafélagið Huginn stendur sig frábærlega við að skipuleggja metnaðarfullt félagsstarf innan skólans þar sem nemendur taka virkan þátt.

Jón Már hvatti nemendur til að ganga vel um hús og muni skólans og lauk máli sínu með því að segja: „Lykillinn að góðu starfi og vellíðan er að temja sér að vera jákvæður og gera eins vel og maður getur og hrósa þeim sem gera vel, sýna virðingu. Við skulum vera minnug þess að með því að halda því jákvæða í umhverfi okkar á lofti upprætum við það neikvæða."

Á undan skólasetningarræðunni og að henni lokinni lék Bjarni Karlsson konsertmeistari skólans á píanó og söng.