Jón Már setur skóla 14. sept 2011
Jón Már setur skóla 14. sept 2011

Menntaskólinn á Akureyri var settur í 132. sinn í dag. Jón Már Héðinsson setti skólann og lagði nemendum lífsreglur.

Nemendur við upphaf skólaárs eru 746, þar af 226 í fyrsta bekk, 203 í öðrum bekk, og hafa aldrei áður verið svo margir, 163 í þriðja bekk og á lokaárinu eru 154. Jón Már sagði að busavígsla yrði á þriðjudag og kappkostað yrði að hún yrði glaðleg og skemmtileg og án niðurlægingar. Vígslu nýnema lyki svo með busaballi í skólanum að kvöldi þriðjudagsins.

Skólameistari áréttaði að MA væri landsmenntaskóli, en um fjórðungur nemenda er úr sveitarfélögum utan Eyjafjarðarsvæðisins. Á Heimavist væru 330 nemendur og um helmgingur þeirra úr MA, og auk þeirra keypti fjöldi utanvistarnemenda ýmist stakar máltíðir eða reglulegt fæði í Mötuneyti MA.

Jón Már sagði að í vetur yrði meðal annars unnið að því að endurskoða starfsmanna- og jafnréttisstefnu skólans og áfram yrði unnið að nýrri námskrá samkvæmt nýjum lögum um framhaldsskóla og kappkostað að niðurskurður fjárveitinga rýrði ekki nám nemenda. Niðurskurður í langan tíma hefði veruleg áhrif á skólann, en skólinn hefði um árabil verið mjög vel rekinn og starfsmenn hefðu fórnað sér til að uppfylla þær kröfur sem til hans væru gerðar. Fyrirsjáanlegur væri enn meiri niðurskurður en nú væri komið að þolmörkum. Nú þyrftu nemendur og starfsmenn að ganga nær sér en áður til þess að grunnþættir starfsins skreðist ekki og nemendur hljóti jafngott veganesti út í lífið og hingað til.

Um nýja námskrá sagði skólameistari að hún væri nemendamiðuð, eins og sjá mætti á Íslandsáfanganum, velgengnisdögum, bekkjafundum, þar sem leitað væri eftir viðhorfum nemenda til námsins, og kjörsviðum og valmöguleikum hefði auk þess verið fjölgað. „Við viljum áfram fá til okkar áhugasama og metnaðarfulla nemendur eins og ykkur,“ sagði skólameistari, „og þess vegna hvet ég ykkur til að leggja ykkur fram því það er ekki síst framganga ykkar í námi sem skapar orðspor skólans.“ Hann sagði að ekkert í náminu væri svo erfitt að nemendur ættu ekki að ráða við það ef þeir legðu sig fram. Þetta væri allt spurning um vinnu. „Þið þurfið að svara sjálfum ykkur því hvort þið hafið gert eins vel og þið gátuð og ef svarið er heiðarlegt já, þá getið þið krafist þess af öðrum.“

Jón Már sagði að megineinkenni MA væri öflugt nám og kennsla og jafnframt mikið félagslíf. Félagslífið væri metnaðarfullt og og nemendur ætluðust til þess sjálfir að það væri áfengis- og vímuefnalaust og þess vegna færi félagslífið mestan part fram í skólanum. Þetta væri hið opinbera félagsstarf í þökk og með vitund skólans. Hins vegar væri blettur á því félagsstarfi sem stundum færi fram án vitundar og í fullri óþökk skólans og utan hans. Þar á meðal væru svokölluð busapartí, eftirlitslausar samkomur sem enginn bæri ábyrgð á, en ábyrgðinni væri skellt á herðar skólans ef eitthvað færi úr böndum. Hann hvatti fjórðubekkinga sérstaklega til að efna ekki til slíkra samkoma og hvatti fyrstubekkinga til að kalla ekki eftir þeim. Hann hvatti einnig foreldra til axla ábyrgð á börnum sínum. Eldri bekkingar ættu jafnframt að muna að hlutverk þeirra er að vera góðar fyrirmyndir.

Að lokum kynnti skólameistari foreldrum FORMA, foreldrafélag MA og kynningardag fyrir foreldra, sem verður 8. október. Þá gat hann þess að Uglunni, hollvinasjóði MA bærust reglulega fégjafir frá afmælisstúdentum og þegar hefði verið veitt úr sjóðnum til framfaraverkefna. Konsertmeisari skólans, Jóhann Axel Ingólfsson og systir hans, Katrín Þöll, luku athöfninni með því að syngja og leika eitt lag.

Að loknum léttum veitingum fóru nemendur í stofur og hittu umsjónarkennara sína.

Nokkrar myndir frá skólasetningu eru á Facebook MA.