- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Fjölmenni var við skólasetningu Menntaskólans á Akureyri í dag. Flestir voru nýnemar og aðstandendur þeirra, en í fyrsta bekk eru skráðir hartnær 230 nemendur.
Jón Már Héðinsson skólameistari ávarpaði gesti og bauð nemendur velkomna til starfa. Hann fjallaði um veturinn framundan, útskýrði breytingar vegna niðurskurðar í skólakerfinu, sem leitast er við að komi ekki niður á námi eða starfi nemenda, enda þótt draga verði úr þjónustu að einhverju leyti. Hann skýrði fyrir nemendum hvert eðli þess er að vera nemandi í fullu námi, hvatti þá til að vinna helst að öllu námi sínu í skólanum, en hús hans eru opin fram á kvöld alla virka daga, og ítrekaði að skólinn væri ekki skipulagður með tilliti til þess að nemendur ynnu launavinnu með náminu. Skólinn væri nám, námsvinna og félagslíf. Skólameistari ræddi um mikilvægi félagslífsins sem verklegar æfingar í því að taka þátt í lífi og starfi í lýðræðisþjóðfélagi. Í skólanum væri metnaðarfullt félagsstarf, stjórnað og skipulagt af nemendum sjálfum. Þeir hefðu sjálfir kosið að félagslífið færi fram innan veggja skólans og væri áfengis- og vímuefnalaust. Hann varaði nemendur jafnframt við því að standa fyrir eftirlitslausum samkvæmum úti í bæ eða í sveitum. Ekkert slíkt starf væri á vegum skólans eða með vilja hans, en kæmi slíkt fyrir kæmi það illu orði á skólann.
Í skólann eru í haust skráðir 774 nemendur. Í fyrsta bekk eru 227, í öðrum bekk 192, í þriðja bekk 171 og fjórði bekkur er fjölmennari en nokkru sinni, þar eru nemendur 184.
Við upphaf og loka skólasetningar léku Axel Ingi Árnason og Þuríður Helga Ingvarsdóttir á píanó og fiðlu. Gestum var boðið upp á léttar veitingar að athöfninni lokinni. Skólastarfið hefst á morgun, nemendur í 1. bekk eiga að koma í skólann klukkan 10 og nemendur 2. bekkjar klukkan 11, en allir nemendur eiga að mæta samkvæmt stundaskrá á morgun klukkan 13.05.