- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Einstakur sóðaskapur er viðhafður á bílastæði skólans. Engu er líkara en margir eigendur ökutækja líti svo á að stæðið sé allsherjar ruslagámur. Á sumrin, þegar hér koma einungis ferðamenn og hótelgestir eru bílastæðin tandurhrein. Þegar hótelið breytist í heimavist á haustin fer strax að bera á því að fólk fleygi rusli út um bílgluggana. Tómar drykkjarumbúðir, sælgætisbréf, umbúðir utan af matvælum og jafnvel skókassar liggja oft eins og hráviði út um allt. Húsverðir eyða talsverðum tíma í að tína upp rusl og koma því í ruslagáma.
Þessa mynd tók Jón húsvörður á dögunum. Hér hefur einhver bílstjórinn tekið til í bílnum sínum til að hafa hann ekki fullan af rusli. Hann hefur svo skutlað tómum pizzakössum undir bílinn ásamt tómum mandarínukassa og ofan í honum var fullur plastpoki af alls kyns rusli. Það er engu líkara en að þessi bílstjóri hafi haldið að þar með væri ruslið horfið, eins og í ævintýri, en þegar hann svo ók á brott var þetta eftir eins og hér má sjá.
Svona sóðaskapur gengur ekki. Nú verða allir að taka höndum saman og sjá til þess að umhverfi skólans verði ekki eins og svínastía. Rusli á að henda í til þess gerð ílát og bílastæði er ekki ruslagámur, öðru nær.
Munum að umgengni lýsir innri manni. Það er ótrúlegt að sá sem skildi þetta eftir vilji hafa þennan minnisvarða um manngerð sína.