Soffía Meldal 2VX sem skrifaði ásamt fleirum Barnaskýrsluna
Soffía Meldal 2VX sem skrifaði ásamt fleirum Barnaskýrsluna

Í vikunni var svokölluð Barnaskýrsla, sem börn á Íslandi hafa unnið um málefni sem á þeim brenna, kynnt fyrir Barnaréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna. Soffía Meldal 2VX sat í stjórninni sem sá um að ákveða efnistök skýrslunnar og framkvæmd. Þetta er í fyrsta skipti sem börn á Íslandi skila slíkri skýrslu og skýrsluhöfundar segjast vonast til að hún verði grundvöllur framtíðarskýrslna barna á Íslandi og verði til breytinga á ýmsum stigum stjórnsýslu á Íslandi.

Lokaafurð verkefnisins var barnaskýrsla og myndband. Í skýrslunni er sagt frá 8 málefnum sem nefndarfólki þótti mikilvæg og í myndbandinu er fjallað um 4 málefni.

,,Að lokum afhentum við skýrsluna til Barnaréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og nefndin mun notast við skýrsluna okkar sem hluta af reglubundnu eftirliti með innleiðingu barnasáttmálans á Íslandi. Í ljósi aðstæðna fór afhending skýrslunnar fram í gegnum fjarfund en þrátt fyrir það var mjög áhugavert að hitta nefndina og ræða við þau um stöðu mála sem varða börn og ungmenni á Íslandi. Hægt er að lesa skýrsluna og horfa á myndbandið á Facebook síðunni okkar: Umbi – ritstjórn barnaskýrslu til Barnaréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna,“ segir Soffía.

Soffía segir að þetta hafi verið mikil vinna, skýrslan er löng og það þurfti að leita í mörgum heimildum og tala við marga. En þetta hafi líka verið mjög áhugavert og það sé mjög mikilvægt að börn hafi eitthvað að segja um sín málefni.