- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Margir bíða í ofvæni eftir því hvernig skipulag skólans verður nú í upphafi annar. Skólasetningardagur sem átti að vera 24. ágúst er í venjulegu ári afar fjölsóttur viðburður nemenda, starfsfólks og foreldra. Ljóst er að sú skólabyrjun verður með breyttum hætti. Móttöku nýnema mun seinka um 1-2 daga og það skýrist fljótt eftir helgi hvort þeir verða boðaðir í skólann 25. eða 26. ágúst. Mikil áhersla verður lögð á að nýnemar geti sótt skólann sem mest fyrstu vikurnar, þótt væntanlega þurfi þeir að sinna fjarnámi að einhverju leyti á móti. Annar bekkur verður boðaður í skólann í þeirri sömu viku eftir ákveðnu skipulagi. Líklegt er að þriðji bekkur byrji önnina í fjarnámi en fyrsti dagurinn í staðnámi verði 31. ágúst. Miðað við núgildandi fyrirmæli heilbrigðisráðherra verður gert ráð fyrir blöndu af staðnámi og fjarnámi í öllum bekkjum, en hlutfall staðnáms verður hærra í fyrsta bekk en hinum tveimur. Fyrirkomulagið verður kynnt betur í næstu viku og vert að minna á að aðstæður geta breyst á þessum tíma en við munum upplýsa nemendur okkar jafnóðum og málin skýrast. Við hlökkum til að fá nemendur í hús og erum þess fullviss að við munum geta í samvinnu við þá haldið uppi skólastarfi en jafnframt farið að öllum tilmælum sóttvarnaryfirvalda.