Stjörnuverið í Kvosinni
Stjörnuverið í Kvosinni

Í byrjun vikunnar var í Kvosinni í MA heljarstór svartur belgur, eins konar uppblásið kúlutjald, og innan úr því heyrðist eitt og annað, meðal annars mannamál. Hér var um að ræða stjörnuver, sem komið var með hingað norður í tengslum við stjörnuskoðunarmálþingið Undur Alheimsins, sem haldið var hér á laugardaginn var.

Eigandi þessa vers, Snævarr Guðmundsson, stjörnuáhugamaður og jarðfræðinemi, bauð þinggestum að skoða stjörnuheiminn inni í tjaldi sínu og hlýða á fyrirlestur í leiðinni. Á mánudag og þriðjudag komu fjölmargir hópar úr grunnskólunum hér í bæ og fengu að skoða stjörnur og heyra sagt frá þeim inni í verinu og síðdegis á þriðjudag gafst nemendum MA og starfsfólki kostur á því sama.

Verið er nú farið og eftir stendur möguleikinn að kasta höfðinu aftur á bak og horfa á sjálfar stjörnurnar þegar gefur til þess, eða sjá þær í gegnum stjörnusjónauka sem er á þaki Möðruvalla, en félag um stjörnuskoðun var stofnað á málþinginu, og segir nánar frá því síðar.

.