Skrifstofur skólans hafa nú verið opnaðar á ný að loknum sumarleyfum. Skólastarf hefst þó ekki strax, enda verður skólinn að vanda settur seinna en aðrir skólar, fimmtudaginn 11. september.

Í sumar hafa verið miklar framkvæmdir við hús og lóð skólans. Mest ber þar á því að verið er að mála Möðruvelli og lagfæra steypuskemmdir, en auk þess er unnið að því að stækka að mun bílastæði skólans við Þórunnarstræti. Drjúgur hluti gamla fótboltavallarins, Hermannsvallar, er orðinn að malbikuðu bílastæði, en hvort tveggja er að nemendum hefur fjölgað mikið og bílaeign aukist og enda þótt strætisvagnaferðir á Akureyri séu ókeypis hefur ekki dregið úr einkabílanotkun nemenda. Auk þess sem hér hefur verið talið hefur verið unnið að margvíslegum viðhaldsverkefnum og allt gert til að skólinn og skólahúsin geti tekið á móti nemendum og starfsfólki á komandi skólaári

.