- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Um þessar mundir er í famhaldsskólum landsins unnið að því að endurskoða námskrár og skipuleggja styttingu náms til stúdentsprófs. Menntaskólinn á Akureyri var í fararbroddi skóla við að endurskoða námskrár. Frá árinu 2010 hefur MA starfað eftir nýrri námskrá sem byggir á lögum um framhaldsskóla frá 2008. Þá var tekið upp nýtt einingakerfi, námsáfangar endurskipulagðir, brautum fækkað og námsframboði skipt upp í tvö svið, tungumála- og félagsgreinasvið og raungreinasvið með mjög auknu vali í kjörsviðum frá því sem áður var. Náminu á fyrsta ári var einnig töluvert breytt og námsgreinar samþættar í stóra áfanga, menningar- og náttúrulæsi. Fyrstu stúdentarnir brautskráðust eftir þessari námskrá vorið 2014 og annar hópurinn mun því brautskrást í vor.
Menntaskólinn á Akureyri vinnur að því að innleiða breytingar á námstíma frá og með hausti 2016. Leiðarljósin í þeirri vinnu er að auka sveigjanleika í námstíma þótt skólinn sé bekkjaskóli og nemendur hafi val um að brautskrást á þremur, þremur og hálfu eða fjórum árum. Í MA hefur nemendum í áratug verið gert kleift að ljúka stúdentsprófi 19 ára, með því að setjast á hraðlínu beint úr 9. bekk grunnskóla. Það hefur gefist afar vel og nemendur undantekningarlítið skipað sér í hóp árangursríkustu nemenda.
Stefnt er því að tillögur að sveigjanlegum námstíma verði kynntar á vordögum. Byggt verður á núverandi skólanámskrá og skólasýn. Aðgangsviðmið í háskóla verða höfð til hliðsjónar þegar einingum í núverandi námskrá verður fækkað því meginmarkmiðið er sem fyrr að búa nemendur vel undir háskólanám. Stúdentar frá MA fara flestir í nám á háskólastigi og því lykilatriði að undirbúningur hér sé sem bestur. Skólinn leggur jafnframt áherslu á grunnþætti menntunar og breiða almenna menntun líkt og í núverandi námskrá. Styttri námstími þýðir meira álag á nemendur og mikilvægt að finna leiðir til þess að varðveita hið öfluga félagslíf skólans samhliða krefjandi námi.
Frá því ný námskrá var tekin upp hefur stöðugt verið unnið að sjálfsmati, þróunarstarfi og breytingum á skólastarfinu. Þar á meðal hefur verið rætt um hugsanlega möguleika á styttingu námstíma. Vinna við sveigjanleg námslok hófst formlega nú á vorönn, vinnuhópur kennara og stjórnenda fundar reglulega, tveir vinnufundir kennara hafa verið haldnir auk kennara- og fagstjórafunda. Rætt verður við rýnihópa nemenda, bæði núverandi og fyrrverandi í vor og næsta vetur til að heyra þeirra sjónarmið. Hópurinn hefur einnig kynnt sér fyrirkomulagið í öðrum skólum og til dæmis hvorttveggja fengið heimsókn frá Kvennaskólanum og farið í heimsókn þangað.
Nánari fregna af námstíma við skólann er að vænta á vordögum.