- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Á árum seinni heimsstyrjaldarinnar fundu nemendur í MA lausn á vandamáli sem hafði oft og iðulega skotið upp kollinum við kennslu á köldum vetrardögum. Byltingarkennd aðferð nokkurra nemenda við að segja köldu andrúmslofti „á Salnum“ í Gamla skóla stríð á hendur hefur að því er virðist fallið í gleymskunnar dá þrátt fyrir að hafa sannað ágæti sitt haustið 1944. Litlar upplýsingar liggja fyrir um tækjabúnaðinn sem nemendur þróuðu og komu fyrir á Sal í fyrrnefndum tilgangi og eins hvaða einstaklingar áttu heiðurinn af þessari tímamótauppgötvun. Ef marka má heimildir virðist sem um einhvers konar geislatæki hafi verið að ræða. Víst er að margt er á huldu í þessu dularfulla máli. Hverjir voru hinir miklu frumkvöðlar sem hönnuðu fullkominn hátækniútbúnað í MA á þessum róstusömu tímum? Hver urðu afdrif þeirra sem stóðu í eldlínunni og lögðu sig í hættu við að gera Menntaskólann að betri stað þegar kuldinn ætlaði allt lifandi að drepa? Aðgerð EnigMA er ráðgáta.
Greinarkorn í skólablaðinu Muninn varpar örlitlu ljósi á málið. Rétt eins og annað sem tengist ráðgátunni um geislatækið í Gamla skóla er greinin Ný uppfundning sveipuð dulúðlegum blæ. Lítið fer fyrir henni á baksíðu og höfundur gengur undir nafninu Z! Z fjallar um erfitt hlutskipti nemenda í máladeild V.bekkjar og talar um „miklar þjáningar sökum hins gífurlega kulda, sem hefir verið á Salnum“. Ástæðuna segir hann vera gat á þakinu, svo hátt uppi að engum detti í hug að leggja sig í hættu við að loka því. Kalt vetrarloftið hafi því greiðan aðgang að nemendum, allt niður í -20° á Celsíus. Með hugvitið að vopni hafi nemendur þróað nýstárlegt tæki til að mæta köldum kára af fullum krafti. Z lýsir virkni tækisins:
Á bak við kennarastólinn hafa þeir sem sé komið fyrir margbrotnu og vönduðu tæki, sem sendir svo kalda geisla á kennarann, um leið og hitinn fer ofan fyrir visst stig, að hann fær samstundis munnherkjur og getur ekki kennt, en neyðist þá til að gefa frí. Hefir þetta tæki að sögn reynzt mjög vel. Um gerð tækisins hafa ekki borizt neinar áreiðanlegar fregnir, enda mun þar vera um hernaðarleyndarmál að ræða. Heyrzt hefir, að ekkert annað sjáist af tæki þessu, þótt inn sé komið, en meinleysislegur hitamælir, sem er aðeins frábrugðinn venjulegum lofthitamæli að því leyti, að núllpunktur hans samsvarar 25° á „Celsius“ og er kallaður kennslupunktur, og gera þeir ráð fyrir að bíða ekki varanlegt heilsutjón, þó að þeim sé kennt í svo kaldri stofu. Þegar kvikasilfrið er komið niður á þennan fyrrnefnda punkt, kemst á samband í rafleiðslum tækisins, og vélin fer í gang.
Z hrósar nemendum í V. bekk máladeildar [málaliðar-innsk.] fyrir framtakið en jafnframt „að þeir skuli þannig viðurkenna ágæti eðlisfræðinnar og notfæra sér hana svona rækilega“. Z setur þó spurningarmerki við hæfi þeirra til að þróa slíkan hátæknibúnað. „Þar sem máladeild V. bekkjar hefir ekki, svo vitað sé, fengizt neitt við eðlisfræði upp á síðkastið, hafa sumir efað, að þeir hafi verið einir að verki, en getið til, að þeir hafi notið aðstoðar máladeildar VI. bekkjar, sem talin er skara fram úr öllum öðrum í skólanum í hitafræði.“
Tæp 75 ár eru liðin frá aðgerð EnigMA. Ennþá er mörgum spurningum ósvarað. Hvernig tókst málaliðum að koma geislatækinu fyrir á Sal þannig að enginn yrði þess var utan hitamælis sem vakti engar grunsemdir? Hvað varð um sjálfan tækjabúnaðinn? Þá má velta fyrir sér hvort framvinda heimsstyrjaldarinnar hefði orðið önnur á kaldari átakasvæðum ef stríðandi fylkingar hefðu komist yfir hina nýju tækninýjung frá MA. Hættuspil málaliða og aðgerð EnigMA verður áfram ein stærsta ráðgáta Svipmynda.
Heimild: Muninn 17. árgangur, 2. tbl.