FÍAT og Citroen Méhari í sumarlitum veturinn 1974-1975. Myndin er samsett
FÍAT og Citroen Méhari í sumarlitum veturinn 1974-1975. Myndin er samsett

Bílaeign framhaldsskólanemenda er sígilt umræðuefni. Heilu bílabreiðurnar þekja gjarnan bílastæði framhaldsskólanna, svo mjög að þau líkjast frekar hafnarsvæði en skólalóð. Sjálfsagt hangir ýmislegt á spýtunni. Hvað er svo sem skemmtilegra en aka sjálf(ur) um götur bæjarins þegar ökuskírteinið er loks í höfn?

Já, hið nýfengna frelsi er spennandi og sérstakt samband getur myndast milli manns og vélar. Dæmi um skemmtilega tengslamyndun ökumanns og bifreiðar má finna í frásögnum tveggja nemenda MA veturinn 1974-1975.

Í grein sem ber yfirskriftina Bíllinn minn hugsar Hallgrímur Ingólfsson hlýtt til appelsínugulrar Citroen-bifreiðar sem hann segir óvenju fallega. Í ljóðinu In memorian yrkir skáldið tregafullt ljóð til bíls af gerðinni FÍAT sem má muna fífil sinn fegurri.

 

Það fer ekki framhjá neinum, að það er Citroén Méhari hér í bæ. Bifreiðin ber, eins og allir vita, gulan lit, svo sem appelsínur suðrænna landa. Blæjurnar eru svartar eins og tungan í Gísla Ingvarssyni, þegar hann segir ósatt, og kolsvart skinnlíkið á sætunum er eitthvað í ætt við belgmjúka áferðina á Hollywoodstjörnu. Já, hún er engin drusla, drossían sú, hún er upphá og mjóslegin eins og skagfirsk fegurðardís, hreyfilhljómar og vélartónar eru heillandi eins og heil sinfóníuhljómsveit, og þegar vel liggur á henni, vaggar hún sér og dillar í undirstellinu eins og seiðmögnuð fatafella frá „kongens Köbenhavn.“ Fjöðrun er fullkomin eins og dýna frá Listadún með gullbrúðkaups „garanti“ upp á vasann. Hún rýkur í gang í öllum veðrum, alltaf jafn þjónustufús, trygglynd, ratvís, gangviss og gírviss. Rafkerfið og viðbragðið er öruggt og óbrigðult og hún kveikir alltaf á öllum kertum. Hún hefur bókstaflega upp á allt að bjóða nema klósett og bað. Það má telja, að okkar kynslóð eigi ekki eftir að Iíta glæsilegra fjögurra hjóla farartæki en hana og breyting verður að eiga sér stað, ef það á að geta orðið um ókomna tíma. Nokkrar athugasemdir: Þess er ekki getið í upplýsingum frá verksmiðjunum, hvort bifreiðin er fáanleg sjálfskipt, en hitt veit ég, að hún er ekki fáanleg með tvöföldum karbarator og líklega ekki heldur með yfirliggjandi knastás (hvað sem knastás er). Þess má að lokum geta, að umrædd bifreið (A-4433) er til sölu vegna peningaleysis eiganda, á aðeins 350 þúsund krónur.

 

Þú mitt skrýtna skrapatól,
skyndilega sjónum horfinn.
Skökk og skæld nú eru hjól,
skrapaður og sundursorfinn.

Ég þér eigi ek um hríð,
eftir þetta ólán okkar.
Blasir við mér bölvað stríð,
nú blotna bæði skór og sokkar.

Í gjána sem er kennd við grjót,
guli garpur þangað þjót,
á vegi ei um VW hnjót,
villa það er stór og ljót.

Bifreið vor
þú sem ert í klessu
réttist þú við
burt fari þín beygla,
svo á bretti
sem á grilli.
Ég gef þér í dag nýtt grill, nýtt hood
og fyrirgef þér fyrri sakir,
aðeins ef þér aldrei akið
aðra bíla á.
Já, eigi ak á aðra bíla
heldur hemla og beygja frá þeim,
því að þín er orkan,
krafturinn og spyrnan,
að eilífu
          FÍAT.

Bíllinn þinn.
Grímur minn.
Allur er í klessu.
Við skulum hætta þessu.
          Vinur.

 

Heimild:  Muninn 47. árgangur, 1. og 5. tbl.