- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Í skóla eins og MA er megináherslan á náminu og skólalífinu. Nemendur eru litríkur hópur og búa margir yfir ómetanlegum hæfileikum, sem ekki eru alltaf uppi á teningnum á reglulegum skóladegi. Það er löngu tímabært að birta svipmyndir af nemendum og við stefnum að því að gera það af og til. Ábendingar eru vel þegnar.
Í þessum fyrsta þætti verður sagt svolítið frá þremur nemendum sem nýverið hafa látið til sín taka annars staðar en innan veggja skólans. Þeir eru vissulega margir sem gera það, en við byrjum leikinn á því að nefna þetta hæfileikafólk:
Símon Þórhallsson er nemandi í 2. bekk V. Hann brá sér á dögunum til Svíþjóðar og tók þar þátt í skákmóti. Það er ekki í fyrsta sinn sem hann bregður sér burt til að tefla. Hann gerði það til dæmis líka í fyrra þegar hann var í 1. bekk I. Að þessu sinni tók Símon þátt Norðurlandamótinu í skólaskák í flokki 16-17 ára, 18. – 21. febrúar, og hreppti þar bronsverðlaun. Áður hefur hann meðal annars teflt á EM ungmenna í Georgíu haustið 2014 og á HM ungmenna á Grikklandi haustið 2015 með fínum árangri.
Meðfylgjandi er mynd af lokastöðunni á NM. Eftir fyrstu fjórar skákirnar var Símon með 3 vinninga en tapaði fyrir Haug í 2. umferð. Í næstsíðustu umferð tefldi hann við Thybo en tapaði þrátt fyrir að hafa verið með unnið á tímabili. Í síðustu umferð gerðu hann og Jón Kristinn Þorgeirsson stutt jafntefli. Jón Kristinn er bekkjarbróðir Símonar úr Lundarskóla, en er nú í VMA.
Símon er í hópi efnilegustu ungra skákmanna á Íslandi, er í fjórða sæti yfir stigahæstu ungmenni landsins (fædd 1996 og síðar) með 2157 ELO-stig skv. skrá frá 31. janúar síðastliðnum. Á döfinni hjá símonu á næstunni er Íslandsmót skákfélaga um næstu helgi og Reykjavík Open sem er 8.-16. mars. Myndin er eftir Lars OA.
Erla Sigríður Sigurðardóttir er nemandi í 3. bekk X. Fyrir rúmir viku, 20 febrúar, var hún fulltrúi Menntaskólans á Akureyri í ræðukeppni framhaldsskóla, National Speaking Competition, sem haldin var í samstarfi við ESU, The English Speaking Union. Keppnin fór fram í Háskólanum í Reykjavík. Þemað sem ræðufólki var úthlutað var Integrity has no need of rules, og mátti hver keppandi túlka það á sinn hátt.
Erlu gekk vel í keppninni, þótt hún hefði ekki uppskorið verðlaunasæti. En dómarar veittu henni heiðursviðurkenningu fyrir sérdeilis góða ræðu, vildu: “give her an honourable mention for a challenging and excellent speech with a very intellectual content”, eins og þar stóð.
Og Erla var hvött til að koma að ári og þreyta kappi öðru sinni.
Rétt er að bæta því við að Erla er öflug á fleiri sviðum. Fyrir framúrskarandi árangur sinn í forvali fyrir Ólympíukeppni í líffræði, sem Íslendingar taka í fyrsta sinn þátt í og verður í Viet Nam 21-24. júlí, var Erla valin í úrvalshóp sem fær að taka þátt í æfingabúðum og svo lokakeppni, þar sem lið Íslands verður valið, en hún fer fram helgina 1.-3 apríl næstkomandi.
Breki Arnarsson í 4. bekk E er sundmaður góður. Helgina 11-14 febrúar tók hann þátt í Malmö Open, sem er íþróttamót fyrir fatlaða einstaklinga, þar sem yfir 2500 keppendur kepptu í 19 mismunandi íþróttum. Mótið er svokallað IPC mót en það þýðir að það sé viðurkennt af alþjóðalega íþróttasambandi fatlaðra og þarf það til þess að standast ákveðnar gæðakröfur. Einnig er einungis hægt að ná lágmörkum fyrir stórmót á IPC mótum og þá eru heimsmet aðeins gild á IPC mótum. Breki æfir sund með sundfélaginu Óðni og keppti í 5 einstaklingsgreinum og 1 boðsundi. Niðurstaðan var eitt gull, 3 silfur og eitt brons. Hann bætti tíma sinn í öllum greinum nema 50 m skriðsundi þar sem hann synti á sínum næstbesta tíma.
Í flokki fatlaðra er keppt í ákveðnum fötlunarflokkum frá s1 til s14. S1-s10 er flokkur hreyfihamlaðra þar sem 1 er mesta hreyfihömlun en 10 sú minnsta. S11-S13 er flokkur sjónskertra og blindra en S14 er flokkur þroskahamlaðra. Nýlega var síðan bætt við flokki S16 en það er flokkur þeirra sem eru með Downs Syndrome. Breki keppir í flokki S7 en til gamans má geta að á mótinu keppti hann á móti Niklas Andersson sem er meðal annars sænskur methafi í 50 og 100 metra skriðsundi.
Í nóvember síðastliðnum keppti Breki á IM25 (Íslandsmeistaramóti í 25 metra laug) þar sem hann varð tvöfaldur Íslandsmeistari í 50 m skrisundi og baksundi. Á uppskeruhátið Óðins fékk Breki viðurkenningar fyrir ástundun í flokki fatlaðra og fyrir að vera Íslandsmeistari auk þess að vera tilnefndur fyrirmyndar félagi og sundmaður félagsins.
Framundan hjá Breka er IM50 (Íslandsmót í 50 m laug) í mars þar sem hann stefnir að því að bæta sig enn frekar.