Ásgerður Jana á flugi
Ásgerður Jana á flugi

Við bætum við svipmyndum, núna Íslandsmeistara í sjöþraut, fuglaskoðara og hlaupara, organista með meiru og tónlistarstjóra á leið í læknisfræði. Þetta er nokkur upptalning en lesum áfram og kynnumst þessu góða fólki sem nýtir tímann vel sem ekki fer í sjálft námið í skólanum.

Íslandsmeistari í sjöþraut

janaUm síðustu helgi brá Ásgerður Jana Ágústsdóttir í 4C sér til Selfoss á Íslandsmeistaramótið í fjölþrautum. Hún gerði sér lítið fyrir og kom heim sem Íslandsmeistari í sjöþraut. Það hafa ekki allir svona mikið út úr helgarferð suður á land.

Jana segist hafa byrjað að æfa íþróttir sjö ára gömul. „Ég hef alltaf keppt í öllum greinum frá því að ég byrjaði að æfa. Pabbi og mamma hvöttu mig til þess að keppa í sem flestu til þess að hafa gaman. Mér fannst síðan alltaf skemmtilegt að taka þátt í öllu og langaði ekki að sleppa úr grein. Ég er mjög jöfn í öllum sjöþrautargreinunum og mér myndi finnast mjög erfitt að þurfa að velja á milli greina. Svo er alltaf gaman að keppa í mörgu því þá eru meiri líkur á bætingum.“ En lífið er ekki alltaf dans á rósum og þetta var í fyrsta sinn síðan 2014 sem Jana keppti í sjöþraut, varð að taka sér hlé vegna meiðsla. En þetta verður að kallast góð byrjun á sumrinu og keppnistímabilinu. „Árangurinn kom á óvart þar sem ég náði að bæta minn persónulega árangur úr 4724 stigum í 4853 stig.“ Samt voru aðstæður ekkert of góðar, fyrri daginn rok og rigning og hálfgerður barningur, en miklu betra seinni daginn og þá gekk mun betur. Jana var í öðru sæti eftir fyrri daginn en tók svo á flug og brá sér á toppinn í lokin.

Jana hefur farið út um víðan völl í keppnisferðir. Hún segir heimsmeistaramót 17 ára og yngri í Donetsk í Úkraínu eftirminnilegast, en þar keppti hún í sjöþraut og kúluvarpi og þar hafi hún hlotið mesta reynslu af öllum mótum. Auk þess hefur hún keppt í Evrópubikarkeppni í Tblisi, Evrópubikar í fjölþrautum á Madeira og fimm sinnum á Norðurlandamótum. „Ég á margar skemmtilegar minningar en ég myndi segja segja að ég hafi bætt mig mest þegar ég þríbætti mig í hástökki á Akureyri árið 2012, úr 1.63 í 1,70. Svo bætti ég mig á Íslandsmeistaramótinu í sjöþraut síðustu helgi sem var haldið á Selfossi.“ Og það hefur áður komið fram hér fyrr í greininni.

Gísli Sigurðsson hefur verið aðalþjálfari Jönu síðustu 6 árin. Hún segir að allt þetta íþróttastarf sé mjög skemmtilegt. Auðvitað geti komið fyrir leiðinlegar æfingar, en það sé mjög sjaldan. „Maður þarf að láta þetta vera skemmtilegt því ef manni finnst þetta ekki gaman þá kemst maður ekkert áfram í þessu. Þegar maður keppir og sér bætingar þá veit maður að allar æfingarnar hafa skilað sér og það er ekkert skemmtilegra en það.”

Og framtíðarmyndin mótast af íþróttunum. Jana segist stefna að því að fara í háskólanám til Bandaríkjanna í haust, en þangað leita margir bestu íþróttamenn okkar og –konur. En langtímamarkmiðið, segir Jana, eru Ólympíuleikar - að sjálfsögðu.

 

Fuglaáhugamaður á hlaupum

SnæþórHingað til lands koma á hverju ári stórir hópar manna og kvenna frá útlöndum til þess að skoða fuglalífið, aðrir koma vopnaðir stórkostlegum tækjum til að taka myndir af fuglum. Hér á landi eru reyndar býsna margir góðir fuglaljósmyndarar og fuglaáhugamenn. Einhvern veginn finnst manni þetta fulgasport vera fyrir fullorðna, en svo er innan um í ungmennaskaranum einn og einn sem hefur brennadi áhuga á fuglum og fuglalífi. Einn af þeim er Snæþór Aðalsteinsson í 4U, sem er nú í síðustu prófunum í MA.

Snæþór segist hafa snemma fengið áhuga á fuglum. „Ég var bara mjög lítill þegar ég fór að fylgjast með fuglunum heima. Það er svo mikið fuglalíf í sveitinni og við pabbi höfum alltaf verið saman að hyggja að fuglum. Hann er fuglafræðingur, svo það er svo sem ekki langt að sækja þetta.“ Snæþór á heima á Víkingavatni í Kelduhverfi og segist fygjast miklu meira með vatnafuglum en sjófuglum. Það sé sjálfsagt vegna þess hve mikið er um fugla heima við vatnið. Hann segist ekki geta nefnt neinn sérstakan uppáhaldsfugl, geri ekki upp á milli.

Í vetur vann Snæþór að verkefni í líffræði í skólanum sem fól í sér meðal annars að fylgjast með fuglalífinu við Leirutjörn og telja fugla tvisvar í viku þar og svo heima í sveitinni einu sinni í viku, og fylgjast með breytingum. Það hafi til dæmis verið áberandi að þegar farfuglarnir tóku að koma í vor hefðu þeir stoppað við Leirutjörnina í dálítinn tíma, en síðan farið í burt, trúlega til að finna sér hreiðurstað við betri aðstæður. Heima komi fuglar frekar til að vera. Það sé margt sambærilegt með þessum svæðum, þó sé fuglaífið heima fjölbreyttara, fleiri tegundir þar, enda svæðið stærra og lífríkið og gróðurlendð bjóði upp á fleiri kosti fyrir fleiri tegundir.

BoxiðEn þekkir Snæþór einhverja jafnaldra sem eru svona heillaðir af fuglum? „Nei, eignlega ekki. Það eru frekar fullorðnir í þessu, þett erum aðallega við feðgarnir. Ég veit þó um einn á svipuðum aldri fyrir sunnan.“ Og Snæþór horfir ekki á fuglalífið eingöngu hérna heima. Hann segist líka fylgjast með því eftir föngum þegar hann fari til útlanda.

En það er fleira sem kemst að hjá Snæþóri í frístundunum. Hann er frjálsíþróttamaður og reyndar í hópi betri hlaupara, hefur iðulega keppt í millivegalengdum og langhlaupum, svo og utanvegahlaupum, og æfir og keppir undir merkjum HSÞ, að sjálfsögðu. Fyrir utan íþróttir og fuglaskoðun má nefna að hann hefur líka staðið sig mjög vel í landskeppni í efnafræði og svo var hann í þeim fríða hópi MA sem vann frækilegan sigur í BOXinu í vetur og var sýnt frá því í Sjónvarpinu. Lífið er fjölbreytt.

Framundan er svo nám í háskóla, og engan skyldi undra val á námsbraut: Líffræði. „Ekki endilega til að skoða fugla,“ segir hann, „því líffræðin býður upp á svo ótalmarga aðra spennadi kosti.“

 

 

Oganleikari og píanóleikari sem syngur og leikur

UnaMargt er nemendum til lista lagt og margir stunda tónlistarnám meðfram menntaskólanáminu. Það er þó trúlega fátítt í framhaldsskóla að rekast á kirkjuorganista, eins og ég leyfi mér að kalla Unu Haraldsdóttur. Hún verður ekki 17 ára fyrr en seint í sumar, er á raungreinabraut í MA og í fullu námi og vel það í Tónlistarskólanum á Akureyri. Hún hefur meðal annars flutt tokkötu og fúgu á stóra orgelið í Akureyrarkirkju við messulok og þar hélt hún líka tónleika ásamt Eik systur sinni, spilaði fyrri helming dagskrárinnar á stóra pípuorgelið og síðan sungu systurnar saman.

Una spilar ekki bara á orgel. Hún byrjaði að læra á píanó 2007 og stefnir að því að ljúka framhaldsprófi 2017. Aðalkennari hennar er Þórarinn Stefánsson en hún hefur einnig tvívegis tekið þátt í Tónlistahátíð unga fólksins í Kópavogi og notið þar leiðsagnar Peter Maté. Árið 2011 bætti Una svo við orgelnámi hjá Sigrúnu Mögnu Þórsteinsdóttur, og stefnir að því að ljúka framhaldsprófi í organleik 2018.

Eins og áður sagði hélt Una tónleika í Akureyrarkirkju fyrir um það bil ári, en þá var hún meðal annars að safna peningum til að komast á námskeið í Konunglega danska tónlistarháskólanum. Það gekk afar vel. Una sótti tíma hjá prófessorunum Bine Bryndorf og Hans Davidsson, lauk þar 5 einingum í organleik á háskólastigi og stefnir á að fara aftur á námskeið þar núna í sumar.

Una1Ferilskrá Unu er býsna löng og fjölbreytt þótt ung sé að aldri. Hún segist lengi hafa verið í dansi og sungið í kórum og eitt af því sem er eftirminnilegt er að hún lék og söng í Fiðlaranum á þakinu í Freyvangsleikhúsinu og foreldrar hennar og systir sungu þar líka og léku. Þetta var svona fjölskyldusýning, í þeim skilningi orðsins. Systurnar Una og Eik hafa iðulega sungið saman við ólík tækifæri, en Una hefur líka leikið í hljómsveit LMA í sýningum á Rauðu myllunni og Konungi ljónanna auk þess að vera í hljómsveit hússins í Söngkeppni MA fyrr á þessari önn.

Una hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir hljóðfæraleik sinn og notið nokkurra styrkja – en það er erfitt að hugsa sér annað en að framtíðin hjá þessum ágæta nemanda á raungreinabraut verði tónum stráð.

 

 

Tónlistarstjórinn sem ætlar að verða læknir

KamillaTónlistin í söngleikjum LMA, Rauðu myllunni í fyrra og Konungi ljónanna í ár, vakti verulega athygli, en tónlistarstjórinn bæði árin var Kamilla Dóra Jónsdóttir, nemandi á raugreinabraut MA.

Kamilla segist hafa byrjað fimm ára að læra á selló, lærði síðan í 10 ár á píanó en skipti yfir á flautu árið 2009. Hún hélt kveðjutónleika í Hofi fyrir skemmstu en framhaldsprófstónleikarnir voru settir á bið. „Ég stefni á læknisfræði,“ sagði hún, „og þess vegna ákvað ég að setja mesta áherslu á námið í MA og bíða með framhaldsprófið þangað til síðar.“

Kamilla hefur haft í mörg horn að líta. Tónlistarstjórnin er í því fólgin að setja saman hljómsveit, útsetja tónlistina fyrir hana og æfa svo bæði hljóðfæraleikarana og söngvarana og koma öllu þessu saman. „Tilfinningin sem fylgir því að heyra hljómsveit spila eitthvað sem maður hefur sjálfu búið til er að mínu mati ómetanleg, það er eitthvað sem mig langar til að gera aftur. Og LMA er stórkostlegt félag því þar erum við að gera ótrúlega hluti þótt við séum bara á framhaldsskólaaldri.” Í verkefni um Konung ljónanna sagði Kamilla meðal annars „Töfrar leikhússins eru einstakir og ekki á færi allra og það að fá tækifæri til að upplifa þá og í raun búa þá til á framhaldsskólaaldri er alls ekki eitthvað sem taka ætti sem sjálfsögðum hlut.

Kamilla2Fleira tekur Kamilla sér fyrir hendur. Hún er til dæmis í sönghópi með Evu Laufeyju Eggertsdóttur, Sigrúnu Mary McCormick, Aldísi Bergsveinsdóttur og Steinunni Atladóttur. Þær hafa víða komið fram, sumar eru að vísu komnar í nám suður svo söngurinn er stjálli en var, en framundan er hjá þeim um miðjan júlí að syngja í tónleikaröð á vegum KÍTÓN á Norðurlandi (Kítón eru konur í tónlist). Það er margt skemmtilegt að gerast.

Áður en Kamilla tekst á við læknisfræðina ætlar hún að taka sér hlé frá námi og ferðast. Hún segir að læknisfræðin hafi verið draumur sinn síðan hún var 11 ára og hann verði að fá að rætast, en hún efast jafnframt um að tónlistin verði langt undan. “Hvert sem ég fer og hvar sem ég verð veit ég að tónlistin verður alltaf stór hluti af mér.“