Að mati prentsmiðjustjórans var 40% afsláttur til handa Munin fárfesting fram í tímann
Að mati prentsmiðjustjórans var 40% afsláttur til handa Munin fárfesting fram í tímann

Vegna þess, að ég hefi lengra á milli fóta en flestir aðrir dauðlegir menn, tek ég stigann í P. O. B. í þremur stökkum, — og fjórða stökkið flytur mig inn um opnar dyr senior prentsmiðjustjórans í P. O. B. Tíminn er naumur, og ég geng vafningalaust að viðfangsefni því, sem mér var trúað fyrir.
— Segðu mér eitt, Sigurður, af hverju eru þessar skrifstofudyr alltaf opnar, en ekki lokaðar, eins og á öllum virðulegum skrifstofum?
„Það skal ég segja þér, Halldór minn Blöndal.“

Þannig hefst grein í skólablaðinu Muninn vorið 1958. Greinin ber yfirskriftina Staldrað við í prentsmiðjunni – Rætt við Sigurð O. Björnsson prentsmiðjustjóra. Greinin, sem er í raun viðtal nemanda Menntaskólans á Akureyri við prentsmiðjustjórann, er um margt merkileg. Frásagnarstíllinn er lifandi og frjálslyndur á kostnað formlegheita og íhaldssemi sem svo gjarnan voru viðhöfð við textagerð „i den tid“. Þá skín hnyttni viðmælandans í gegn þegar hann svarar spurningum hins unga og óreynda blaðamanns Munins. Hér skal ekki fullyrt um mögulega framsýni Sigurðar en þó læðist að manni sá grunur að svar hans við spurningu blaðamannsins hér að ofan endurspegli ekki endilega almennt ástand á vinnumarkaði árið 1958. Eða hvað?

„Ég er einn af starfsmönnunum hérna í P. O. B. Við þurfum allir að vinna saman. Ef ég loka skrifstofuhurðinni, kemst ég úr tengslum við samstarfsmenn mína og fjarlægist þá, en það vil ég forðast sem heitan eld.“

Þegar Halldór spyr prentsmiðjustjórann hvernig standi á því að hann gefi alltaf Menntaskólanum 40% afslátt af prentkostnaði blaðsins stendur ekki á svari. Sigurður rekur mikilvægi þess að koma sér í mjúkinn hjá nemendum MA, slíkt geti komið sér vel síðar. Hann hafi tekið eftir því hversu fljótt þeir komist til valda á æðstu stöðum í þjóðfélaginu. Svarið er nokkurs konar framtíðarsýn, dæmisaga sem gerist 20 árum síðar, árið 1978.

Athygli vekur að hinn ungi Halldór er í aðalhlutverki í dæmisögunni og gegnir hann þar embætti ráðherra. Skemmtileg framtíðarsýn í ljósi þess að Halldór Blöndal átti vissulega eftir að gegna ráðherraembætti í raunheimum. Árið 1978 áttu þó 13 ár eftir að líða þar til að því kom því Halldór varð landbúnaðar- og samgönguráðherra árið 1991. En aftur að spurningunni um afsláttinn til MA. Gefum Sigurði prentsmiðjustjóra orðið.   

Þessu get ég líka svarað, Halldór. Þetta er nokkurs konar fjárfesting fram í tímann, fjárfesting t. d. á borð við fjárfestingu í skógrækt, að öðru leyti en því, að skógræktin þarf 50—100 ár til þess að endurgreiða allt það fé, sem lagt hefur verið til hennar, með vöxtum og vaxtavöxtum og gróða að auki. En þessi fjárfesting við Munin endurgreiðist á 10—20 árum. Ég hef nefnilega tekið eftir því, að stúdentar frá M. A. eru fljótari að komast til æðstu valda í stjórn landsins en aðrir Íslendingar.

Nú reikna ég dæmið svona: Eftir tuttugu ár verður Halldór Blöndal orðinn viðskiptamálaráðherra, en undir þann ráðherra heyrir allur innflutningur á t.d. prentvélum og öðru, sem prentverkinu tilheyrir. Við hérna úti á landinu eigum í miklum örðugleikum með að fá leyfi til þess að flytja inn það, sem okkur vantar, til þess að reksturinn geti gengið áfallalítið. Við göngum skjálfandi á beinunum fyrir dyr æðstu yfirvalda í banka- og innflutningsmálum, arftaka einokunarkaupmannanna dönsku, en fáum litla áheyrn. En eftir 20 ár geng ég styrkum fótum upp í viðskiptamálaráðuneytið; borðalagður varðhundur tekur á móti mér:

—   Hvað er yður á höndum? Fljótir að svara, ég hef lítinn tíma.

—  Mig langar til að hafa tal af viðskiptamálaráðherra Halldóri Blöndal.

—   Ómögulegt. Viðskiptamálaráðherra verður ekki til viðtals fyrir aðra en Reykvíkinga fyrr en í næsta mánuði, svarar sá borðalagði og býst til að skella hurðinni á nasir mér. En ég var viðbúinn — hafði reiknað út, hvernig allt mundi ganga — og stakk einum hundrað-þúsund-kalli (gengið hafði fallið dálítið á undanförnum árum) milli stafs og hurðar, svo að talan 100.000 blasti við þeim borðalagða. Hurðin opnaðist örlítið, seðillinn kipptist inn fyrir, og sá borðalagði hvæsti:

—  Nú.. ..

—  Kannske þér vilduð vera svo góður að koma þessu nafnspjaldi til viðskiptamálaráðherra?

Sá borðalagði svaraði ekki, en spjaldið hvarf inn um dyrnar.

Að vörmu spori kom hann aftur, — og nú var annar svipur á kalli:

—   Gjörið svo vel, gjörið svo vel, herra minn....

Ég geng inn á eftir honum. Hann tekur upp stóra lyklakippu og lýkur upp hverri hurðinni af annarri. Er við komum að fimmtu hurðinni, lemur hann bylmingshögg, opnar og öskrar:    —    Sigurður O.Björnsson.

Ég kem inn í þrjátíu-metra langt herbergi. Við fjarri enda þess grillir í feiknarlegt skrifborð, og þegar ég set upp stækkunargleraugun, sé ég, að maður situr viðborðið.

Ég heyri óm af kalli og geri ráð fyrir að það sé boð um að ganga nær, hvað ég geri.   

Viðskiptamálaráðherra Halldór Blöndal stendur ekki upp, en hrópar: — Sigurður O. Björnsson frá P. O. B. — Sigurður, — Sigurður, — mér finnst eins og ég kannist við nafnið, — já, nú hef ég það. Þér eruð sá Sigurður, sem gaf okkur fjörutíu prósentin við Munin, — já, látum okkur sjá, — tuttugu ár síðan — já, fjörutíu prósent í tuttugu ár með vöxtum og vaxtavöxtum gera hundrað prósent, — já, það stemmir, hundrað prósent, — þér fáið innflutt það, sem yður vantar, hundrað prósent. Sigurður minn. En ég hef lítinn tíma til að spjalla. Og viðskiptamálaráðherra Halldór Blöndal stendur upp og réttir mér höndina til merkis um, að samtalinu sé lokið.

Já, svona reikna ég dæmið, Halldór, svo að þú sérð, að það er ekki af manngæzku, sem þið fáið þessi fjörutíu prósent, heldur er það beinhörð forretning.

Og Sigurður hefur bersýnilega smitazt af viðskiptamálaráðherra, því að hann stendur upp og réttir mér höndina til merkis um, að samtalinu sé lokið.

Og sem ég þakka honum fyrir samtalið, skýtur löngu-liðnum atburði upp í huga mér: Við höfðum verið að leggja síðustu hönd á Munin, Heimir og ég, einu sinni í fyrra, en vöknuðum þá upp við þann ljóta draum, að fjórðung af auglýsingasíðu vantaði. Ég gekk því til Sigurðar og bað um auglýsinguna, sagði það þá gera minna til um borgun. Sigurður hafði þá litið á mig með sinni alkunnu hægð og glettni í andlitinu:

— Ég er nú vanari að gefa en að láta gefa mér.

Og með þetta og auglýsinguna hafði ég skotizt sem halaklipptur hundur út úr skrifstofunni hans forðum.

Ég ranka við mér, þakka Sigurði enn betur fyrir og gæti þess að loka ekki á eftir mér, um leið og ég fer.                   

 

Heimild: Muninn 30. árgangur, 3. – 4. tbl.