- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Um hádegisbil sunnudaginn 8. nóvember árið 1959 skall á snarvitlaust veður á norðurhluta landsins. Í dagblöðum þess tíma var jafnvel talað um eitt versta norðanáhlaup á þessum árstíma hin seinni ár. Veðurspár höfðu ekki gert ráð fyrir óveðrinu svo áhlaupið kom fólki norðan heiða í opna skjöldu. Rafmagn var skammtað á Akureyri fram eftir degi en um kvöldið varð rafmagnslaust með öllu. Þannig var málum háttað í fjóra sólarhringa.
Óveðrið hafði margskonar áhrif á Akureyri. Götur fylltust af snjó svo erfitt var að komast á milli staða í nokkra daga. Rafmagnsleysið lamaði rekstur fyrirtækja og heimilin fóru ekki varhluta af því. Skólalíf lamaðist. Menntaskólinn hélt þó úti kennslu fyrir nemendur sína um miðbik hvers dags á meðan ósköpin dundu yfir.
Nemandi í MA lýsir upplifun sinni af ófærðinni, kuldanum og rafmagnsleysinu dagana 8. – 14. nóvember árið 1959 í grein sem birtist í Íslendingi. Greinin ber heitið Mættu stundum í ranghverfum fötum.
Ljósleysið var mikil tilbreyting fyrir menntskælinga. Sér í lagi féll fríið í fyrsta tíma á morgnana í góðan jarðveg. Þar sem heimavistirnar eru kynntar með rafmagni varð fljótlega kalt þar. Það var því eðlilegt, að nemendur leituðu niður í skólann, enda var þar viðhafður gleðskapur mikill, þegar dimma tók. Á eftirmiðdögum var ýmist dansað eða sungið og einu sinni haldinn málfundur. Á kvöldin voru kvöldvökur, þá sagði skólameistari og nemendur sögur, draugasögur voru lesnar, spurningakeppni fór fram, og einnig var keppt í ýmsum líkamlegum greinum, svo sem þolhlaupi. Á eftir var dansað oftast til um kl. 11.
11. nóv. var gefið mánaðarfrí, og þar með tekin upp gömul „tradition“, sem legið hafði niðri um árabil, að hafa mánaðarleyfi á afmælisdegi Matthíasar Jochumsonar. Síðdegis hinn 11. höfðu nemendur með aðstoð skólameistara smákynningu á Sal á verkum skáldsins.
Vistirnar voru kuldalegar þessa dagana. Nemendum var ekki leyft að hafa kerti eða olíulampa og voru því engin undur þó að menn kæmu stundum í ranghverfum fötum til dansleiksins á kvöldin.
Á sunnudag og mánudag var slíkt aftakaveður, að heita mátti ófært milli skóla og vista. En fæstir létu það aftra sér frá gleðskapnum. Menn drógu vettlinga á hendur sér og belg á höfuð sér. Sterkara kynið veitti hinu veikara stuðning eftir beztu getu, og þannig var baksað á milli. Þegar leið á vikuna og lægði, tóku bæjarnemar einnig að sækja fagnaðinn í skólanum síðdegis og á kvöldin.
Í eldhúsinu háði ráðskonan erfiða baráttu við verstu aðstæður, og urðu endalokin að jafnaði þau, að heitur matur var á borð borinn fyrir svanga og kalda nemendurna.
Er það mál menntskælinga, að þessir dagar hafi verið hinir skemmtilegustu.
H.M.
Heimild:
H.M. (1959, 20. nóvember). Mættu stundum í ranghverfum fötum. Íslendingur, bls. 9.