Við og við berast skólanum gjafir frá fólki sem fyrrum stundaði nám við skólann. Gjafirnar eru af ýmsum toga. Oftar en ekki tengjast þær dvöl viðkomandi í skólanum og hafa þá gjarnan tilfinningalegt gildi fyrir þann sem á í hlut. Dæmi um slíkar gjafir eru ljósmyndir, glósubækur og endurminningar.

Vilhjálmur Þórhallsson útskrifaðist frá MA árið 1953. Vorið 2010 færði hann skólanum góða gjöf þar sem kenndi ýmissa grasa, meðal annars ljósrit af minningarbrotum sem hann hafði eftir látnum föður sínum. Þórhallur Vilhjálmsson var gagnfræðingur frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri árið 1915. Í minningarbrotunum segir Þórhallur m.a. frá aðkomu sinni að flutningi á nýrri skólabjöllu frá Kaupmannahöfn til Akureyrar haustið 1920.

Við gefum Vilhjálmi orðið.

 

 

Pabbi var á Gagnfræðaskólanum á Akureyri 1914-1915 og Sigurður bróðir hans útskrifaðist gagnfræðingur nokkrum árum áður.

Hér skal sagt frá einu atviki er snertir vist föður míns í Gagnfræðaskólanum. Það var haustið 1920 er faðir minn var háseti á Lagarfossi og skipið þá eitt sinn statt á Akureyri. Komu þar þá niður í skip Steinunn kona Stefáns skólameistara og Guðrún frá Veðramóti gift Sveinbirni Jónssyni í Ofnasmiðjunni, til þess að bjóða föður mínum í kvöldverð. Þá var Stefán veikur orðinn. Erindið við pabba var að biðja hann að taka nýja skólabjöllu hjá Valtý Stefánssyni í Kaupmannahöfn. Pabbi kom klukkunni svo klaklaust til Akureyrar, en þar afhenti hann hana Lárusi Rizt, þar eð Stefán var lagður banaleguna. Var þetta um mánuði síðar.

Eldri bjallan hafði verið höfð í glugga á miðjum skólaganginum gegnt stundaklukkunni. Þetta reyndist eigi heppilegur staður, þar sem bjallan vildi detta á gólfið. Einn sumarmorgun lá bjallan sem oftar á gólfinu, en nú var hún brotin. Þess vegna var smíðuð hilla í horninu við innganginn á kennarastofuna fyrir nýju bjölluna og þar hefur hún staðið síðan.

Pabbi segir að bjallan hafi enzt til þessa dags en telur nýjan kólf hafa verið settan í bjölluna.

Af skólabræðrum pabba má nefna Arinbj. heit. Þorvarðarson, herbergisfélaga hans síðar. Karl Kristjánsson, Húsavík, Hermann Jónasson, ráðh. og Aðalstein Jónsson á Vaðbrekku. Bjuggu þeir á samliggjandi herbergi Hálogalandi á Norðurvistum.