- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Fjöldi Norðmanna kom til Íslands í kjölfar hernáms Þjóðverja í Noregi árið 1940. Í hópi þeirra sem leituðu skjóls hér var Davik-fjölskyldan frá smábænum Brattvåg í Álasundi. Hún kom með skipinu Karalen sem kom hingað á vegum Breta árið 1940. Ingebrigt Davik, 15 ára sonur hjónanna Nils Johan og Johönnu Josefine var með í för ásamt fjórum systkinum. Ingebrigt hóf nám við MA haustið 1941. Hann útskrifaðist með gagnfræðapróf vorið 1944. Öll skólaárin bjó Ingebrigt-fjölskyldan á heimili hjónanna Helga Pálssonar og Kristínar Pétursdóttur við Spítalaveg 8 á Akureyri. Helgi hafði flúið undan Þjóðverjum í Noregi um svipað leyti. Hann var staddur þar í landi til að kanna kaup á fiskiskipi snemma árs 1940 og varð vitni að því þegar Þjóðverjar hernámu landið. Helgi komst með norskum flóttamannabáti frá Álasundi, til Færeyja og þaðan til Íslands. Ingebrigt flutti aftur til Noregs eftir stríð, árið 1945.
Ingebrigt Davik gat sér gott orð sem listamaður eftir að hann kom aftur til heimalandsins og var alla tíð eftir það þekkt nafn í Noregi. Hann starfaði hjá norska ríkisútvarpinu við gerð barnaefnis fyrir útvarp og sjónvarp. Hann skrifaði barnabækur og gaf út barnaplötur. Bækur hans hafa komið út á íslensku, má þar nefna bókina Mummi og jólin í þýðingu Baldurs Pálmasonar sem kom út árið 1976. Þá muna margir eftir hljómplötu frá árinu 1974 í flutningi Helga Skúlasonar, Ævintýri í Maraþaraborg - Barnasaga með söngvum sem SG-hljómplötur gaf út. Þessi sígilda plata er byggð á sögu Ingebrigt, Kristján frá Djúpalæk þýddi og Jón Sigurðsson sá um hljómsveitarstjórn og útsetningar. Árið 2006 var menningarhús vígt í Brattvåg, heimabæ Ingebrigt Davik. Fékk það nafnið Ingebrigt Davik-huset. Fyrir utan húsið stendur brjóstmynd myndhöggvarans Ola Stavseng af listamanninum.
Ingebrigt Davik lést árið 1991. Hann bar sterkar taugar til Íslands, ekki síst Akureyrar og Menntaskólans. Hann hélt sambandi við gamla vini á Íslandi allt þar til yfir lauk. Hann kom til Íslands árin 1970 og 1986. Í bæði skiptin heimsótti hann vistarverurnar í gamla skólanum sínum ásamt því að heilsa upp á skólafélaga úr MA. Við rifjum upp brot úr viðtali sem Helga Jóna Sveinsdóttir tók við Ingebrigt árið 1986 þegar hann var staddur á Akureyri. Viðtalið birtist í dagblaðinu Degi undir yfirskriftinni „Ísland er mitt annað heimaland“.
„Ég fór í Menntaskólann árið 1941 og var þar á veturna til 1945, útskrifaðist þá sem gagnfræðingur. Ég fór að skoða skólann núna og það var svo gaman. Koma á sal og skoða kennslustofurnar eftir öll þessi ár. Það var líka gaman að sjá myndirnar af okkur á veggjunum. Ég var með mörgu góðu fólki í bekk, en besti vinur minn á íslandi heitir Grímur Björnsson. Hann er nú tannlæknir í Reykjavík. Fjölskylda hans bjó í Aðalstræti 17. Ingvar Gíslason, alþingismaður, var líka með mér í bekk. Þessir kallar hjálpuðu mér mikið á þessum árum. Við þrír vorum mikið saman.“
Ingebrigt bjó í Spítalavegi 8, hjá Helga Pálssyni. „Ég er búinn að skoða það og þegar ég kom þar inn var alveg eins og ég væri að koma heim. Það er alveg eins og það var, nema það var hvítt en er nú blátt.“ Ingebrigt var spurður hvort hann hefði aldrei saknað Noregs. „Jú, mig langaði auðvitað oft heim, en það var alveg einstaklega vel tekið á móti okkur. Sigurður Guðmundsson, þáverandi skólameistari, hjálpaði okkur mikið. Við áttum svo marga góða vini hérna, mig langar að þakka fyrir þessar góðu móttökur sem við fengum. Mér finnst svo gott að koma til íslands aftur og fá hangikjöt, skyr og rjómapönnukökur. Ísland er mitt annað heimaland.“
„Það er svo skrítið að þegar ég kem til Íslands þá rifjast orðin smám saman upp. Þegar ég var hér á stríðsárunum og fór suður var sagt við mig að ég væri frá Akureyri, það heyrðist á málinu, ég var stoltur af því. Það eina sem ég les á íslensku er málfræði. Það er bók sem ég lærði hér í Menntaskólanum, eftir Björn Guðfinnsson frá 1938. Ég les hana á hverju kvöldi meðan ég er hér á landi. Mér fannst erfitt að læra íslenskuna þegar ég kom hingað fyrst. Við höfum ekki svona flókna málfræði í Noregi, ekki allar þessar beygingar. En ég gleymi ekki íslenskunni.“ Ingebrigt sagðist vera búinn að skoða bæinn, bæði fótgangandi og akandi og hefði hann haft einstaklega gaman af því. „Bærinn hefur breyst mikið, en samt finnst mér miðbærinn og innbærinn lítið hafa breyst. Mér finnst svo gaman að sjá hvað gömlu húsunum er vel við haldið. Lækjargilið er alveg eins og það var og mér finnst að það megi alls ekki breyta því.“
Athugasemd greinarhöfundar.
Í einni heimild sem stuðst var við kom annað nafn við sögu en Ingebrigt. Undir mynd af honum á skólaspjaldi MA frá árinu 1942 stendur ritað Inbrigt Davík.