Húsmóðir á Akureyri lýsir vanþóknun sinni á skrifum Munins í bréfi til blaðsins í janúar 1972
Húsmóðir á Akureyri lýsir vanþóknun sinni á skrifum Munins í bréfi til blaðsins í janúar 1972

 

Húsmóðir á Syðri-Brekkunni skrifar:

   Hr. ritstjóri (ef nota má það starfsheiti). 

   Ég fékk fyrir nokkru skólablað Menntaskólans okkar hér á Akureyri í hendur. Og það verð ég að segja, að mér brá ónotalega við. Annað eins og því um líkt hef ég bara aldrei séð. Og ég, sem hélt að þetta væri virðuleg menntastofnun, þar sem hin unga æska þessa lands lærir hagnýt fræði og andleg vísindi eins og hann séra Birgir sagði, að mig minnir, en er þó ekki skotið fyrir loku að mér hafi misheyrzt eins og gengur, þeir eru hver öðrum spámannlegri í stólnum, blessaðir prestarnir okkar. En ég ætlaði, ef ég man rétt, að tala um skólablaðið.

   Ég hef aldrei á minni lífsfæddri æfi lesið annað eins Guðlast. Þar er svo úthúðað Guðskristni og góðum siðum af þvílíku kommúnistaofstæki að mig rekur ekki minni til að hafa séð annan eins klámfenginn óþverra á prenti fyrr.

   Guð fyrirgefi mér orðbragðið. Helvíti er þessum mönnum of gott, eins og skáldið sagði.

   Svo reynir ritstjórinn að afsaka allan þennan lygaþvætting með „mistökum í prentsmiðju“.

   En það sem stakk úr mér augun, strax og ég sá blaðið,var kommusetningin. Og er nú ekki um annað meira talað hér á Syðri-Brekkunni. — Annað sem vekur furðu góðs lesanda, er misþyrming á auglýsingum virðulegra og velstæðra fyrirtækja, þar sem þessir tötrum vöfðu ræflar reyna að fá vinnu, þegar þar að kemur.

   Á blaðsíðu 3 er grein um eitthvað þjóðfrelsisklíkustand í Vítanam og 11 ára ammæli. Vinkonu minni varð að orði (og mér líka). Hvenær varð 11 ára mmæli að merkiammæli? Já, hvenær?

   Til að kóróna alla hringavitleysuna er svo einhver „jólasaga“ á baksíðunni. Þar ægir saman klámi og kynþáttafordómum, svo mér alveg blöskraði. Og þetta kalla þessir piltar jólasögu.

   Vegna annarra forseldra. sem eiga börn í þessum skóla, vil ég benda á að þetta blað hét Minnsti-Muninn. Oð þegar það er svona uppfyllt af klámfengnum soravaldi kommúnistaofstækis, hvers má þá vænta, ef þessir menn gefa út eitthvað, sem heitir Stærsti Muninn. Er hér verðugt verk að vinna fyrir hin nýstofnuðu Hagsmunasamtök Norðlendinga, og er ekki að efa, að hin mikla baráttublað formanns þessara samtaka mun gegna miklu hlutverki í því sambandi.

 

Heimild: Muninn 44. árgangur, 7. tbl.