- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Bryndís Þorvaldsdóttir var um langt skeið íþróttakennari við Menntaskólann á Akureyri. Hún hóf störf sem leikfimikennari stúlkna á sjöunda áratugnum en átti eftir að starfa við íþrótta- og sundkennslu í skólanum næstu áratugina.
Við rifjum upp viðtal við Bryndísi sem blaðamaður Íslendings tók við hana og birti í blaðinu í september árið 1974. Gaman er að lesa skilaboð Bryndísar til lesenda og velta upp þeirri spurningu hvort boðskapur hennar eigi erindi 46 árum síðar. Dæmi hver fyrir sig.
-
Margir eru hræddir við augu nágrannans
Líkamsrækt almennings hér á landi er yfirleitt heldur léleg. Á þetta sérstaklega við um fólk, sem komið er yfir skólaaldur. Mér finnst enn vanta skilning á að líkams- og heilsurækt stuðli að bættri líðan og hindri ónauðsynlega hraða hrörnun. — Þetta sagði Bryndís Þorvaldsdóttir, fimleikakennari við Menntaskólann á Akureyri í viðtali.
Mér finnst konum hættara við að gleyma að hugsa um sjálfar sig, sagði Bryndís ennfremur. Þær gleyma sér margar yfir heimilisstörfum og barneignum. Karlmaðurinn fær frekar hvatningu vinnufélaga til að taka þátt í einhvers konar heilsurækt. Vinnuhópar taka sig t. d. oft saman og leigja sali, þar sem fram fer íþróttaiðkun af einhverju tagi. Það skal aftur á móti játað, að mjög mikið skortir á að fólki, sem komið er af skólaaldri, sé veitt viðunandi aðstaða hér á Akureyri til að stunda íþróttir. Erfitt er að fá leigða sali og sundlaug er aðeins ein í bænum og hún getur ekki tekið á móti öllum.
En hitt skal einnig játað, að oft þarf ekki annað til en viljann til þess að koma sér upp aðstöðu til íþróttaiðkunar af einhverju tagi. Stofugólfið er í mörgum tilfellum feiki nógu stórt svæði, eða gatan fyrir utan húsið. Eins tekur fjallið fyrir ofan bæinn á móti ótakmörkuðum fjölda fólks. Það er eins og margir telji að aðeins sé hægt að fara í fjallið um páska en ég get fullvissað fólk um að það er hægt að leita á náðir fjallsins á hvaða tíma árs sem er.
Síðan sagði Bryndís: Ég kom inn á það áðan, að konum virðist vera hættara við að vanrækja líkama sinn hvað hreyfingu snertir og eins virðist þeim oft hættara við að fitna. Þær konur, sem vinna inni á heimilunum eiga mjög léttan aðgang að mat og margar stytta sér stundir við að fá sér kaffisopa og kökur, þegar þær eiga frístund. Þessir aukabitar eru fljótir að hlaðast utan á konur og komast þær þá oft inn í vítahring. Þær fitna, missa áhuga fyrir sjálfum sér og hreyfa sig oft enn minna en þær gerðu áður. Ef litið er á hitaeiningargildi þess matar, sem gjarnan er valinn milli mála, kemur það ekki á óvart að fólk fitni.
Eitt vínarbrauð inniheldur t.d. 175 hitaeiningar og ein sandkökusneið 165 einingar. Ýmis konar salöt eru mikið í tísku í dag. Aðaluppistaða þeirra er olíusósa og inniheldur 25 g magn af þessu hvorki meira né minna en 190 hitaeiningar. Það gefur því auga leið að matvörur sem þessar og hreyfingarleysi eru miklir óvinir líkamans. Betra væri að taka t.d. hrökkbrauð, sem aðeins inniheldur 29 hitaeiningar, fram yfir sandkökuna. Einnig eru flestir ávextir og grænmeti hitaeiningafáir. Appelsína inniheldur 50 hitaeiningar, epli 80, tómatur 20 og gulrót 40, svo einhver dæmi séu nefnd.
Síðan kom Bryndís inn á það, að margir væru það hræddir við hvað nágranninn segir, að þeir þora ekki að láta sjá sig utanhúss við líkamsrækt.
Ég held að fólk sé enn ótrúlega hrætt við hvað nágranninn segir eða álítur. En vonandi fer þessi hræðsla að hverfa. En á meðan við erum ekki enn laus við hana, get ég bent á eina góða aðferð til þess að hafa sig af stað í hressingargöngu eða sprett. Ef nokkrir taka sig saman, t.d. meðlimir í saumaklúbbunum vinsælu, og hlypu saman í hóp upp fyrir bæinn, efast ég um að augu nágrannans myndu skipta máli. Eins er gott að nota börnin sem yfirskin. Börnin eru alltaf til með að taka smásprett með foreldrum sínum og gagnrýnin augu nágrannans myndu líta á slíkan „fjölskylduleik“ með velþóknun.
-
Með viðtalinu við Bryndísi fylgdu skýringarmyndir af nokkrum leikfimiæfingum og leiðbeiningar. Æfingarnar tók hún saman, lesendum til heilsubótar. Þær henta vel þar sem skortur er á æfingasvæði t.d. á stofugólfinu heima. Æfingar Bryndísar frá árinu 1974 má sjá á fésbókarsíðu MA.
Heimild: Margir eru hræddir við augu nágrannans (1974, 5. september). Íslendingur, bls. 2.