Heimsmálin voru nemendum ofarlega í huga vorið 1980
Heimsmálin voru nemendum ofarlega í huga vorið 1980

Eftirfarandi grein birtist í skólablaði MA þann 1. apríl árið 1980. Greinin ber titilinn Út um græna grundu. Höfundur er Adolf Hjörvar Berndsen. Vorið 1980 sátu í ritnefnd þau Árni Finnsson, Herdís Jónsdóttir, Hólmgeir Karlsson, Inga Eydal, Ingunn Hafstað og Ólöf Jónsdóttir. Ritstjóri var Þorsteinn Guðbrandsson. Sverrir Páll Erlendsson sá um fjölritun í fjölritunarfabrikku MA, Ytrabergi. Forsíðumyndina Skref óvissunnar gerði Ásdís Arnardóttir.

-

Út um gæna grundu

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að blaðaútgáfa í M.A. hefur verið í algjöru lágmarki nú síðustu ár. Ástæðurnar eru fyrst og fremst leti nemenda. Hafa örfáir nemendur átt meginþorra þess efnis sem birst hefur á síðum skólablaðanna.

Það var sl. mánudag að Gambri sá dagsins ljós í annað skiptið í vetur. Við lestur þessa blaðs má augljóslega sjá merki breytinga. Gambramenn taka nú þá stefnu frekar en áður að opinbera pólitíska trú sína og samherja sinna. Eflaust er tilgangurinn með þessum skrifum margþættur. Pennaleti nemenda hefur án efa átt sinn hlut í því, að pólitískar umræður eru nú dregnar inn á síður Gambra meir en áður. Með því má búast við meiri umræðum og skrifum. Gallinn er aftur á móti sá, að þorri nemenda hefur lítinn sem engan áhuga á stöðugu þrasi um pólitik. Það er því ekki nóg að gefa út blöð, uppfull af efni sem enginn hefur áhuga á að lesa. Þá er betur heima setið en af stað farið.

Þrátt fyrir þessar hugleiðingar hér á undan um skrif Gambramanna, hef ég ákveðið að leggja nokkur orð í belg vegna tveggja greina sem birtust í blaðinu.

"Gerillinn" Sigmundur Ernir Rúnarsson tekur til umfjöllunar hugtakið lýðræði. Um margt er grein Sigmundar athyglisverð. Sigmundur getur þó ekki látið hjá líða að draga inn í umræðuna um lýðræðið "blessaða kanana" og dvöl þeirra á Fróni. Sigmundur segir (bls.5): "Algengasta dæmið um ófullkomleika okkar lýðræðis er innganga Íslands í NATO og hernám kana á Miðnesheiði sem var gerð í hrópandi ósamræmi við allar lýðræðislegar ákvarðanir". Hvað er Sigmundur að fara hér? Þessi orð eru kannski sögð til að læða inn hjá nemendum "réttri" söguskoðun. Margir nemendur hafa eflaust ekki kynnt sér aðdraganda og ástæður þess að Íslendingar gerðust aðilar að Atlandshafsbandalaginu (NATO). Sama á við um veru hersins hér á landi. Það væri alltof langt mál að fara ýtarlegum orðum um þessi mál. Hér ætla ég að láta nægja að fjalla um orð Sigmundar sem vitnað var í hér á undan. Það sem Sigmundur telur ófullkomleika lýðræðisins, er að á Alþingi var samþykkt 30. mars 1949 með 37 atkvæðum gegn 13 aðild Íslendinga að NATO. Herstöðvaandstæðingar hafa þrástagast á þeirri kröfu sinni, að um aðildina hefði átt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu. Endalaust má deila um þá kröfu. Þeir sem studdu aðild að NATO töldu engan vafa á því að meirihluti væri fyrir aðild meðal þjóðarinnar. Síðla árs 1949, um 6 mánuðum eftir hinn umtalaða dag 30. mars, var gengið til Alþingiskosninga. Nú var komið tækifærið fyrir hina "þjóðelskandi" menn að refsa "landráðamönnunum" sem selt höfðu landið. Sósíalistar (kommúnistar) sem barist höfðu harðast gegn samningnum, hlutu nú að uppskera ríkulega. En uppskeran varð eins og sáð var, þjóðin felldi sinn dóm, þar sem þeir þrír flokkar sem studdu inngönguna fengu samtals rúm 80% atkvæða. Sósíalistaflokkurinn fékk um 19% atkvæða og tapaði einu þingsæti. Þetta var svar þjóðarinnar. Ásakanir um að stuðningsmenn aðildar legðu ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu af ótta við það, að meirihluti þjóðarinnar væri andvígur aðild voru kveðnar niður gersamlega með dómi þjóðarinnar í Alþingiskosningunum 1949.

Það væri hollt fyrir menn að kynna sér þær umræður sem fram fóru á sínum tíma um aðild Íslendinga að NATO. Margur maðurinn sæi þá eflaust málin í nýju Ijósi. Staðreyndin er sú að ýmsir þeir sem mæltu harðast gegn aðild voru miklir aðdáendur Sovétríkjanna. Vildu margir þeirra koma á hér á landi sama þjóðskipulagi og í Sovétríkjunum. Aðdáun Brynjólfs Bjarnasonar eins af leiðtogum Sósíalistaflokksins, leynir sér ekki í þessum orðum: "Þjóðskipulag Bandaríkjanna krefst styrjaldar, þjóðskipulag Sovétríkjanna friðar" (Þjóðviljinn 30. mars 1949).

Heimurinn hafði þegar á árinu 1949 kynnst hinu "Sovéska friðar-þjóðskipulagi"; atburðirnir í Tékkóslóvakíu 1948 og mörg önnur dæmi höfðu sýnt það í verki. Árin eftir 1949 hafa sýnt okkur enn frekar dásemd hins sovéska skipulags.

Alþýðubandalagið er einmitt arftaki Sósíalistaflokksins sem predikaði og lofsöng hið Sovéska þjóðskipulag. Hefur Alþýðubandalagið haft þann háttinn á að "sannfæringin" hefur verið seld fyrir ráðherrastólana í varnarmálunum. Sýnir sú stefna mæta vel undanhald herstöðvaandstæðinga. Hér mun ég láta staðar numið i umfjöllun minni um fyrgreind orð Sigmundar. Mönnum má ljóst vera að söguskoðun Sigmundar stenst á engan hátt.

Lýðræði er á engan hátt fullkomið í hinum vestræna heimi. Að því víkur Sigmundur og færir nokkur rök fyrir máli sínu. Í því sambandi minnir Sigmundur á að meirihlutinn kúgi minnihlutann. Er raunverulega siðferðisvitund Sigmundar á þann veg að minnihlutinn eigi að kúga meirihlutann? Þarna er líklega komin skýringin á hugmyndum hans um alræði hinna fáu öreiga.

Skoðum nánar kenningar um alræði (dæmi Sovétr.) og einræði (dæmi Þýskal. Hitlers), höfuðandstæður lýðræðisins: "Einræði merkir, svo sem ekki mun ágreiningur um, að allt pólitískt vald sé á einni hendi og andstaða gegn þeim, sem með vald fara, er bönnuð. Alræði merkir aftur á móti ekki einvörðungu að réttur til stjórnmálastarfsemi sé aðeins leyfður einum aðila, heldur einnig, að sami aðili hafi allt hagvald í þjóðfélaginu í sinni hendi og sé sömuleiðis alráður á sviði menningarmála. Einræði getur því hugsast án alræðis, en alræði ekki án einræðis". (Ólafur Björnsson: Frjálshyggja og Alræðishyggja. Bls. 148).

Þrátt fyrir galla lýðræðisins ætti mönnum því að vera ljós munurinn á því alræði og/eða einræði sem ber að líta um víða veröld. Ein meginástæðan fyrir veru okkar í NATO og samfloti við önnur lýðræðisríki er því sú að við viljum forðast stjórnskipulag alræðis og/eða einræðis.

Sífellt hjal herstöðvaandstæðinga um hlutleysi fellur um sjálft sig. Sagan hefur kennt okkur að hlutleysi stendur ekki í vegi fyrir útþenslustefnu ýmissa ríkja. Lönd sem kenna sig í dag við hlutleysi, halda uppi öflugum landvörnum, gott dæmi um það eru Svíar.

Einn er sá maður á Íslandi sem skrifað hefur hvað mest um aðdraganda þáttöku Íslendinga Í NATO, sá maður er Þór Whiteheed sagnfræðingur. Hafa herstöðvaandstæðingar jafnt sem aðrir vitnað mjög í skrif hans um þessi mál. Lokaorð Þórs í erindinu "Raunsæi og þjóðernishyggja", sem hann flutti árið 1979, eru vel til þess fallinn að sýna mönnum enn frekar hvers vegna Íslendingar völdu ekki hlutleysi heldur þáttöku í vestrænni samvinnu: "Íslendingar höfðu aðlagað hugmyndafræði sína að veruleikanum til að forða henni frá því dapurlega hlutskipti að tortíma sjálfri sér. Þeir ætluðu að deila örlögum sínum með þeim þjóðum, er byggðu á sama arfinum í stjórnarfari, lífsháttum og menningu".

Þrátt fyrir alla þjóðernishyggju og stolt Íslendinga verða menn að gera sér grein fyrir að við erum ekki einir í heiminum. Við lifum ekki í dag þá tíma er hetjur riðu um héruð. Draumaheimur herstöðvaandstæðinga fyrirfinnst ekki hér á jörðu.

Í dag er talað um "rússagrýlu" ef vikið er máli að því, að Rússar séu að seilast til aukinna yfirráða í Evrópu. Höfum það í huga að er nasistar komust til valda í Þýskalandi á fjórða áratugnum, trúðu menn því ekki að Þjóðverjar hygðust seilast til heimsyfirráða. Vesturveldin voru ósamstæð í afstöðu sinni til Þjóðverja. Smátt og smátt færðu Þjóðverjar sig upp á skaftið er þeir gerðu sér grein fyrir því að aðgerðir Vesturveldanna voru aðeins orð en ekki virkar aðgerðir. Stuttu seinna lá stór hluti heimsins undir hæl þýskra nasista.

Staða heimsmálanna í dag er á margan hátt áþekk. Sovétríkin hafa smám saman fikrað sig áfram enda orðin áþreifanlega vör við linkind Vesturveldanna. Sagan hefur augljóslega ekkert kennt Vesturlandabúum, þar á meðal mörgum Íslendingum.

Fleiri atriði væri vert að staldra við í grein Sigmundar en hér læt ég staðar numið.

"Af könum" heitir grein í Gambra rituð af Hjörleifi R. Jónssyni og Sigmundi E. Rúnarssyni. Var þar á ferðinni grein um heimsvaldastefnu hinna "alvondu" Bandaríkjamanna, sem alls staðar berjast gegn lítilmagnanum. Grein þessi er uppfull af orðréttum tilvitnunum úr kennsluefni 5. bekkjar F. Er þar um að ræða bæklinginn "Öld heimsvaldastefnunnar" eftir Harry Magdoff og fjölrit eftir P. Neersö "Efnahagsþróun Rómönsku Ameríku", báða þekkta vinstrimenn og andstæðinga Bandaríkjanna. Þær lágmarkskröfur verður að gera til höfunda í umræðum sem þessum að þeir geti heimilda svo ekki sé talað um orðréttar tilvitnanir. Í þessari grein er ekki getið um neina heimild.

Sökum þess hve orð mín hér eru orðin mörg, mun ég ekki fjalla um það sem höfundar setja fram (réttara sagt Neersö, Magdoff og fleiri). Margt er til í því sem þarna kemur fram en annað er umdeilanlegt. Þannig láist höfundum að ræða um heimsvaldastefnuna á víðum grundvelli t.d. heimsvaldastefnu Sovétríkjanna. Er kannski ekki við öðru að búast þar eð þær heimildir sem þeir hafa fengið að moða úr í félagsfræðideild eru æði "einlitar", í vetur var þó gerð tilraun til bóta er Afghanistan-málið var tekið til umfjöllunar. Reyndar var það svo á síðasta vetri, er núverandi 6-F lærði um heimsvaldastefnuna, að mönnum var aðeins kynnt heimsvaldastefna Bandaríkjanna. Var ekki laust við að sumir álitu að heimsvaldastefnan þekktist ekki nema hjá Bandaríkjunum. Kannski að fylgifiskur alræðisins, lok sannleiksleitarinnar hafi þar náð inn í félagsfræðideildina?

Adolf Hjörvar Berndsen 6. bekk F

 

Heimild: Muninn 52. árgangur, 2. tbl.