Kvennalið ÍMA í handknattleik 1946-47. Fremri röð frá vinstri: Elísabet Hermannsdóttir, Guðrún Tómas…
Kvennalið ÍMA í handknattleik 1946-47. Fremri röð frá vinstri: Elísabet Hermannsdóttir, Guðrún Tómasdóttir, Guðrún Friðgeirsdóttir. Aftari röð f. v.: Sigrún Þorgilsdóttir, Árnína Guðlaugsdóttir og Jónína Guðjónsdóttir

 

Íþróttafélag Menntaskólans á Akureyri var stofnað árið 1937. Starfsemi félagsins var fremur fábreytt fyrstu fjögur árin og miðaðist „eingöngu við þær íþróttir, er mestrar hylli nutu um þær mundir í skólanum“. Íþróttagreinum fjölgaði eftir því sem árin liðu sem og iðkendum.

Í tilefni af tíu ára afmæli ÍMA tefldi MA fram handknattleiksliði í kvennaflokki. Handknattleikur var ekki mikið stundaður af nemendum skólans veturinn 1946 – 1947 ólíkt blaki sem „er sú íþrótt, sem langflestir nemendur þessa skóla stunda og má með réttu kallast skólaíþrótt M. A.“ Aðrar íþróttagreinar sem nutu vinsælda voru frjálsar íþróttir, knattspyrna, sund og skíði.

Þó handknattleikur hafi þekkst meðal drengja í MA þegar kom að stofnun kvennaliðs, var handbolti sú knattíþrótt sem minnst hafði verið lögð rækt við í skólanum. Handbolti var hins vegar vinsæl íþróttagrein á Akureyri en hið minnsta tvö handknattleiksmót voru haldin í bænum um veturinn á vegum ÍBA. Íþróttafélag Menntaskólans sendi lið til þátttöku í karla- og kvennaflokki í bæði skiptin og „kepptu þá allir gegn einum og einn gegn öllum“.

Kvennalið ÍMA „bar ekki gæfu til að sigra“ í fyrra móti vetrarins. Svo virðist sem annað hafi verið upp á teningnum á vormóti ÍBA þar sem liðið „varð félagi sínu til sóma á þessu móti með leik sínum, framkomu og sigri“.

 

Heimild: Muninn 19. árgangur, 4. tbl.