Frá vinstri: Lára Þorsteinsdóttir, Elínbjörg Þorsteinsdóttir, Guðrún Jónsdóttir og Sigmundur Rafn Ei…
Frá vinstri: Lára Þorsteinsdóttir, Elínbjörg Þorsteinsdóttir, Guðrún Jónsdóttir og Sigmundur Rafn Einarsson

Miklar hræringar voru í skólamálum á Akureyri um miðbik áttunda áratugar síðustu aldar. Árið 1975 útskrifaðist árgangur frá MA sem hafði að hluta til byggt nám sitt á annafyrirkomulagi. Ári síðar útskrifaðist fyrsti hópurinn eftir fjögurra ára annakerfi. Eiríkur Rögnvaldsson var í hópi stúdenta vorið 1975. Ekki alls fyrir löngu rifjaði hann upp neysluvenjur í mötuneyti skólans þegar hann var á fyrsta ári í námi veturinn 1971-1972. Á fésbókarsíðu sinni birtir hann m.a. dæmi um sundurliðaðan kostnað pilts sem nýtti sér þjónustu mötuneytisins yfir tímabil sem spannar 247 daga.

Meðal þess sem vekur sérstaka athygli í færslu Eiríks eru ólík útgjöld eftir kynjum. Kostnaður pilta var 180,00 krónur á dag á meðan stúlkur greiddu 157,50 fyrir matinn. Stúlkurnar greiddu því 87,5% af því sem piltarnir greiddu fyrir sömu afurðir veturinn 1971-1972. En hvað skýrir þennan mun? Svarið er e.t.v. að finna í skólablaðinu Muninn sem gefið var út þann 1. nóvember árið 1978.

Haustið ´78 hóf Sigmundur Rafn Einarsson störf sem bryti við mötuneytið. Hann tók við af Elínbjörgu Þorsteinsdóttur sem lét af störfum eftir 22 ár við stjörnvölinn í eldhúsinu. Saga mötuneytis MA var orðin löng og ýmsum vörðum prýdd þegar Sigmundur tók við kökukeflinu af Elínbjörgu. Þannig hefur mötuneytið t.a.m. fylgt heimavist skólans frá upphafi. Á meðan vistarnemendur bjuggu eingöngu í Gamla skóla var matsalur þeirra þar sem nú er vinnustofa kennara Undir Svörtuloftum og eldhúsið þar sem skrifstofur brautarstjóra eru nú til húsa. Á sjötta áratug síðustu aldar flutti mötuneytið í núverandi húsnæði.

En aftur að haustútgáfu Munins veturinn 1978-1979. Nýráðinn bryti segir blaðamönnum skólablaðsins frá starfi sínu undir fyrirsögninni Brytinn (viðtal). Undir frásögnina rita aeó og egg. Gefum Sigmundi orðið.

-

Blm. Hvar ertu fæddur og uppalinn?

S.R.E. Ég er fæddur í Melgerði sem þá tilheyrði Glæsibæjarhreppi, en nú Glerárhverfi og hef ég aðallega verið hér á Akureyri síðan.

Blm. Ertu giftur?

S.R.E. Nei, ógiftur.

Blm. Í hvaða skólum hefurðu stundað nám?

S.R.E. Ég er gagnfræðingur frá G.A. og lærði mitt fag í Hótel- og veitingaskóla Íslands.

Blm. Hvað hefurðu starfað áður?

S.R.E. Ég hef einungis unnið á Hótel KEA og var þar sem lærlingur en fékk réttindi 1971. Eftir það fór ég til Svíþjóðar í smá kynnisferð í sambandi við starf mitt.

Blm. Hvers vegna hættirðu á Hótel KEA?

S.R.E. Mig langaði til að breyta til eftir um það bil tíu ára starf á hóteli.

Blm. Hvernig finnst þér vinnuaðstaðan hér?

S.R.E. Hún er þokkaleg en gæti verið betri. Hér hefur engu verið breytt í um 30 ár og virðist sem það hafi þurft að fá nýjan yfirmann. Að vísu er ég búinn að fá góða aðstöðu til að vinna kjöt. Og það sem er einna nauðsynlegast er að fá nýja kæla og frysta því þeir eru bæði lélegir og geta auðveldlega bilað og þá skemmast náttúrulega mikil verðmæti. Þó það sé ekki beint í mínum verkahring hef ég mikinn áhuga á að láta breyta matsalnum því matur er betri í skemmtilegu umhverfi. Og hef ég þar í huga að láta breyta lýsingu og litum í salnum, fá minni borð og jafnvel hringborð og einnig væri hægt að gera bása út frá súlunum. Yfirvöld skólans virðast vera jákvæð í sambandi við breytingar þessar og er fyrirhugað að hafa samráð við arkitekt.

Blm. Hvernig finnst þér umgengni nemenda í mötuneytinu?

S.R.E. Í heild finnst mér hún góð þó að til séu undantekningar á því.

Blm. Finnast þér nemendur vera matvandir og er mikið um kvartanir?

S.R.E. Nei, ekki til mín persónulega en ég hef orðið var við smá skot. Að vísu er alltaf til matvant fólk innan um. Ég vil benda á að þetta er ekki veitingastaður, heldur stórt heimili. Krakkarnir geta ekki átt von á að fá alltaf spennandi mat vegna þess að mér eru skammtaðir peningar og ég verð að hafa matinn í samræmi við það. Til dæmis kostar það um 1/2 milljón yfir veturinn að hafa kaffi í hádeginu. En fólk fær alveg eins leiða á fínum mat ef hann er oft og hversdagsmat. Ég reyni að fara sparlega með matinn hér í eldhúsinu en mér finnst nemendur alls ekki gera það.

Blm. Er einhver matur sem virðist vera sérstaklega vinsæll?

S.R.E. Nei, ég hef ekki orðið var við það.

Blm. Ákveður þú alltaf matseðil dagsins?

S.R. E. Já.

Blm. Finnst þér sanngjarnt að stúlkur borgi minna en drengir?

S.R.E. Já, stúlkur borða yfirleitt minna. Þó finnst mér það sérstaklega þegar tillit er tekið til þess að þær hafa lægri tekjur. Og einnig má geta þess að sumir strákar borða miklu meira en þeir borga fyrir.

Blm. Viltu segja eitthvað að lokum?

S.R.E. Ég óska þess að eiga góð samskipti við nemendur og vona í lengstu lög að þeir séu ánægðir. Ég vil að nemendur komi sjálfir og tali við mig ef þeir hafa yfir einhverju að kvarta, en séu ekki með nein skot né skilaboð.

 


Heimildir:

Eiríkur Rögnvaldsson. (2022, 23. janúar). Fyrir hálfri öld var ég á fyrsta ári í Menntaskólanum á Akureyri, bjó á heimavistinni og borðaði vitanlega í mötuneytinu. [áföst mynd] [stöðuuppfærsla].
Facebook. https://www.facebook.com/photo?fbid=10158856372398871&set=a.103610013870

Muninn 51. árgangur, 1. tbl.

Tómas Ingi áfram konrektor. (1978, 24. ágúst). Vísir, bls. 5.

112 nýir MA-stúdentar. (1975, 19. júní). Íslendingur, bls. 1 & 3.

Meðfylgjandi mynd er tekin í mötuneyti skólans veturinn 1958-1959. Frá vinstri: Lára Þorsteinsdóttir, Elínbjörg Þorsteinsdóttir og Guðrún Jónsdóttir. Myndin er ein af fjórum sem birtust hér á síðunni í ársbyrjun 2017. Þær eru úr fórum Auðar Filippusdóttur, dóttur Elínbjargar. Búið er að skeyta mynd af Sigmundi Rafni saman við þær stöllur. Myndin af honum fylgdi viðtali við hann í skólablaðinu Muninn árið 1978.