- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Eftirfarandi grein birtist í skólablaðinu Muninn í nóvember 1997.
Íslendingar hlusta á tónlist eins og gengur og gerist. Sumir hlusta á tónlist með stóru T en aðrir hlusta á sýru. Ég fer í fyrri flokkinn. Ég hreinlega fatta ekki hvernig fólk getur hlustað á tölvu spila garg. Er eitthvert vit í því að fara á ball og það eru einungis tvær tölvur uppi á sviði. Eru þá ekki samræðurnar einhvern veginn svona: „Heeeeiii, Tóti sýra, langt síðan maður hefur séð þig. Macintosh er alveg á útopnu í kvöld“. Þá segir Jói sýruhaus við Tóta „Nei veistu, mér finnst PC bera af, finnst þér þetta ekki alveg mergjað?“. Ég spyr, er þetta heilbrigt? Fólk dettur inn í einhverja leiðslu og það verður svo gegnumsýrt að það nær bara ekki nokkurri átt. Nú er ég orðinn svo reiður að ég ætla aðeins að róa mig niður og tala aðeins um þá Tónlist sem ég hlusta á.
Ég var einu sinni 12 ára og það er nú ekki í frásögur færandi, nema fyrir það að þá frelsaðist ég. Ég ætla að segja ykkur aðeins frá því. Það var þannig að á þeim tíma bjó ég í Bolungarvík. Ég hlustaði á útvarp eins og aðrir og ég tók upp á spólu þau lög sem mér fannst góð. Svo einn fagran sumardag þá fór ég í heimsókn til afa og ömmu og þann dag fór afi út á sjó. En áður en hann fór þá bað hann mig að taka upp lög úr þætti sem hét „Á frívaktinni“ og þar voru bara spiluð sjómannalög. Nú, ég fór heim og hlustaði á þáttinn og fyrsta lagið í þessum þætti átti eftir að hafa mikil og sterk áhrif á mitt líf. Þetta lag heitir „Hafið lokkar og laðar“, og er það sungið af kónginum sjálfum, Ragnari Bjarnasyni. Ég get sagt ykkur það að ég kiknaði í hnjánum, ég fékk fiðring í magann og ég táraðist. Þetta var eins og andleg fullnæging. Straumurinn sem fór um minn litla líkama var æðisgenginn. Ég hugsaði með mér að þarna færi sko söngvari. Þetta var nú sagan af því þegar ég frelsaðist.
Ég fór strax að leita mér allra upplýsinga um þennan meistara. Ég fór og heimsótti fólk sem komið var til vits og ára og spurði hvort það ætti plötur með meistaranum og þau sem áttu plötur lánuðu mér og ég var ekkert smá ánægður. Ég var samt ekki alveg sáttur, það vantaði eitthvað. Það sem mig vantaði var að eignast plötu með Ragga Bjarna. Þessar svokölluðu tónlistarbúðir sem segjast eiga alla tónlist áttu ekkert með Ragga og nú voru góð ráð dýr. Hmmmmm hvað átti ég nú að gera? Þegar allt virtist ómögulegt og lífið hafði engan tilgang lengur þá fékk ég þessa líka snilldarhugmynd, að skrifa Ragga bréf og biðja hann um plötu sem ég og gerði. Ég skrifaði honum ekki bara bréf heldur sendi ég honum mynd af mér líka og ég vona að sú mynd sé uppi á vegg hjá honum núna. Kannski er hann að horfa á mig í þessum skrifuðu orðum. Ég vona það allavega. Nóg um það. Raggi sendi mér plötu, og bréf með og það var yndislegt. Að fá þetta bréf og plötu er ábyggilega betra heldur en að láta Demi Moore nudda sig, allavega mundi ég taka Ragga fram yfir Demi.
Nokkrum árum seinna þá hitti ég hann. Það var þannig að hann var að skemmta á Ísafirði og ég fékk fregnir af því. Ég fór til Ísafjarðar og bankaði uppá á hótelinu sem hann gisti á. Ég var voða stór með mig og spurði hvort ég gæti fengið að hitta Ragnar Bjarnason. Það var ekkert mál og var hann sóttur.
Svo sá ég hann og augu okkar mættust. Hann brosti og ég brosti, ég hljóp til hans og faðmaði hann. Neeeeeii smá djók, ég tók nú bara í hendina á honum og spjallaði við hann í smá tíma og það var yndislegt. Hann er svo fyndinn og þægilegur í viðmóti.
Þetta eru kynni mín af Ragga Bjarna svona í grófum dráttum. Mér finnst hann syngja listavel og ég skil ekki alveg af hverju unglingar í dag eru ekki búnir að uppgvöta hann. Sumir segja að unglingar á árunum 1955 - 1965 hafi uppgvötað hann og því þarf ekkert að uppgvöta hann aftur, en málið með Ragga er það að hann og lögin hans eru ódauðleg. Hver kannast ekki við lög eins og Vorkvöld í Reykjavík, Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig, Anna í Hlíð, Börn og mörg, mörg fleiri? Lögin hans Ragga eru löngu orðin sígild og þau munu lifa. Í dag eru ekki nein grípandi lög sem munu koma til með að lifa, allavega sé ég ekki fram á það. Ég skora á ykkur að setjast niður og hlusta á lögin hans og takið sérstaklega eftir innihaldi textanna. Textarnir á þessum árum höfðu eitthvað að segja. Lögin voru um eitthvað sérstakt, en í dag eru lögin ekki um neitt. Hverjum er ekki sama þó að stúlkan kyssi á stein (Todmobile), það hlýtur að vera eitthvað mikið að þessari stelpu, eða hvort það búa álfar inni í þér (SSSól). Lögin hérna áður fyrr höfðu eitthvað að segja um ástina, hafið og lífið. Það var svo mikill metnaður í þessu öllu saman hérna áður fyrr.
Raggi er mikill húmoristi og maður veltist um af hlátri þegar hann er að segja frá. Svo er hann líka svo sjarmerandi. Hann er 64 ára gamall og ber aldurinn mjög vel og það sem meira er þá er hann í fullu fjöri og hann er ekkert á leiðinni að hætta. Fólk sem hefur farið á ball með honum er sammála um að stemmningin a böllunum á enga sína líka. Ég las einu sinni í blaði að á einni samkomunni hafi hann tekið gamla Frank Sinatra lagið, My way. Það eitt og sér er svo sem ekkert merkilegt nema fyrir það, að fólk var sammála um að hann hefði tekið það betur en Sinatra. Sjáið styrkinn í kalli.
Ég vona bara að þið farið að sjá Ijósið og hlusta meira á meistara Ragnar Bjarnason. Ég get vel séð hann fyrir mér á næsta peningaseðli eða frímerki. Nei, kannski ekki frímerki, það er of mikil óvirðing að hver sem er fái að sleikja á honum bakhlutann. Hann á allavega að vera á næsta peningaseðli. Ég gæti dásamað Ragga miklu lengur er ég ætla að láta hér staðar numið. Raggi er draumur og Raggi er æði. Ég vona bara að þið farið að hlusta meira á hann og ef þið hafið áhuga þá komiði upp á herbergi 344 og þá fáið þið sko Ragga beint í æð.
Með vinsemd
Valdimar Víðisson
Heimild: Muninn 71. árgangur, 1. tbl.