Stefán Sörensen varð vitni að því þegar Gunnar Huseby vann gullverðlaun á Evrópumeistaramótinu í Osl…
Stefán Sörensen varð vitni að því þegar Gunnar Huseby vann gullverðlaun á Evrópumeistaramótinu í Osló 1946

Tíu íslenskir íþróttamenn kepptu á Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum á Bislett-leikvanginum í Osló í ágúst 1946. Eitt mesta afrek íslenskrar íþróttasögu vannst á mótinu þegar Gunnar Huseby fagnaði sigri í kúluvarpi. Fjöldi keppenda frá þessari litlu eyju í Atlantshafi og Evrópumeistaratitill vakti athygli þátttakenda á mótinu sem og aldur íslensku íþróttamannanna. Meðalaldur liðsins var rétt rúm tuttugu ár en liðið var hið yngsta á mótinu.

Einn úr hópi íslensku keppendanna í Osló var Stefán Sörensson frá Húsavík. Hann keppti í þrístökki. Haustið 1946 var Stefán við nám í Menntaskólanum á Akureyri. Íþróttafréttamaður Dags á þessum tíma, sem ekki er nafngreindur, hitti Stefán að máli og ræddi við hann um þáttöku hans í mótinu. Viðtalið birtist í blaðinu þann 24. október. Við birtum hér vel valda kafla úr viðtalinu.

Voru það ekki skemmtilegir dagar, sem þið áttuð í Osló í sumar?

Jú, en þeir liðu bara alltof fljótt. Veðrið var dásamlegt, alltaf sólskin og blíða og svo heitt, að flestum okkar fannst nóg um. En áður en við komum, hafði rignt stöðugt í hálfan mánuð, svo ekki er annað hægt að segja, en goðin hafi verið hliðholl þessu þriðja Evrópumeistaramóti. Við bjuggum í herbúðum, sem Þjóðverjar höfðu reist á hernámsárunum, en nú voru þær notaðar af norska hernum. Stóðu þær í útjaðri borgarinnar. Þar í herbúðunum voru ekki allfáir Quislingar í haldi, og sáum við þá á hverjum degi. 

Umhverfið þarna var dásamlegt. Allt var vaxið háum skógi svo langt sem augað eygði, og innan herbúðanna, sem voru afgirtar, voru nokkrar smátjarnir og lækir, og voru þau öll full af smásílum. Var það góð dægrastytting ýmsum að reyna að veiða sílin. Man ég eftir einu sinni, að við sáum einn af sænsku keppendunum, unga og fallega stúlku, sem stóð í einum læknum og var að veiða síli með höndunum. Á bakkanum sátu þrír Belgir og horfðu hugfangnir á stúlkuna og veiðina. Sennilega hafa þeir verið hrifnari af stúlkunni, heldur en veiðimennsku hennar, því að hún var mjög ófiskin. 

Skemmtanir höfðum við fáar aðrar en þær, sem við fengum heima í herbúðunum. Þó fórum við í hringferð um Osló og helzta nágrenni og sáum Holmenkollen, Frognersæteren og margt fleira. Einn daginn fórum við á veðreiðar og höfðum hina beztu skemmtun af. Eitt sinn komu norskir piltar og stúlkur, klædd þjóðbúningum, í heimsókn og dönsuðu fyrir okkur norska þjóðdansa. Var það mjög ánægjulegt. Fannst mér þeir mjög líkjast þjóðdönsum, sem sýndir hafa verið hér heima, nema búningarnir voru öðruvísi.

Fæðið var ágætt, nóg af alls konar kræsingum. Höfðum við ekki búizt við slíku, því að mjög hafði verið látið af matarskorti. Eins mun það hafa verið með Ítalina. Þeir fluttu með sér kynstur af makaronum og vínberjum og öðru sem þeir gátu ekki búizt við að fá þar.

Æfingum var þannig hagað, að við fórum kl. 10 á morgnana út í skóg og hlupum þar og mýktum okkur upp. Síðan fórum við í gufubað. Um tvöleytið fórum við svo á æfingavöllinn. Þar fór fram aðalæfingin og var henni lokið um kl. 4. Eftir þann tíma var ekkert annað að gera, en liggja og hvíla sig eða ganga sér til skemmtunar, því að talið var óhollt fyrir okkur að fara inn í borgina og ganga á steinlögðum götunum.

Sjálf íþróttakeppnin hefur þó líklega verið það tilkomumesta?

Jú, allt var svo nýstárlegt fyrir okkur, bæði fjöldi og geta keppenda, svo og fjöldi áhorfenda. Þrátt fyrir allan taugaóstyrk og annað slíkt, er ég viss um, að enginn okkar hefði dregið sig í hlé, þó að hann hefði mátt, enda þótt hann stæði þarna frammi fyrir 30 þúsundum áhorfenda, sem vöktuðu og dæmdu hverja hreyfingu hans. Ég lenti fyrstur Íslendinganna í eldinum, strax eftir opnun mótsins ,svo að ég gat áhyggjulaus notið keppninnar hina dagana. Já, það voru dásamlegir dagar.

Hvernig var ykkur Íslendingunum tekið yfirleitt í keppninni?

Okkur var ágætlega tekið, einkum hjá Norðmönnum. Hjá þeim vorum við ekki sem gestir, heldur sem bræður, og þeir glöddust yfir því, ef einhver Íslendingur stóð sig vel. Í sjálfri keppninni vorum við vinsælir, einkum Evrópumeistarinn okkar, Gunnar Huseby og spretthlauparinn Finnbjörn Þorvaldsson, sem voru meðal vinsælustu keppenda mótsins. Flestir undruðust yfir íþróttagetu 130 þúsund manna þjóðar, að hún skyldi geta sent 10 menn fullboðlega á slíkt mót sem þetta. Einnig undruðust þeir hversu ungir við vorum (meðalaldur 21½ ár), enda vorum við yngstu keppendurnir í mótinu.

Voruð þið ekki að ráðgera um þátttöku ykkar í næstu Ólympíuleikum?

Jú, allir vonuðumst við eftir að komast á næstu Ólympíuleika, sem haldnir verða í London árið 1948. Má þá búast við að sterkari sveit verði send þangað, heldur en sú, sem fór á Óslómótið, því að bæði verða komnir fram nýir menn og einnig munu hinir gömlu Óslóarfarar eflaust eiga eftir að bæta miklu við árangra sína.

Hvað telur þú mikilsverðast fyrir þann, sem vill komast langt á íþróttasviðinu?

Það er til lítils að spyrja mig að því, ég hefi ekkert vit á því. Þó get ég sagt, að sá maður, sem ætlar að ná langt á íþróttasviðinu, verður að æfa mikið og lengi og umfram allt, að æfa reglulega. Það mun einnig rétt að íþróttamenn verði að vera bindindismenn, a. m. k. ætti hver sá maður, sem reykir, að leggja það niður þann tíma sem hann stundar æfingar. Undantekningar frá því að þetta sé gert, eru þó fyrir hendi. T. d. mátti þarna líta heimsmeistara reykjandi, milli þess, sem hann stundaði æfingar.

Hér lýkur viðtalinu. Þess má geta, að Stefán er mjög ungur íþróttamaður. Hann er tvítugur í dag. Jafnframt því sem við óskum til hamingju með nýja árið, skal hann vita, að við væntum í framtíðinni enn meiri afreka drengilegs íþróttamanns.

 

Heimild: Dagur 1946, 49. tbl.