- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Ritstjóri Munins, skólablaðs MA, veturinn 1932-1933 var Karl Strand. Í vorútgáfunni það árið birtist, að beiðni ritstjórans, „Annáll vetrarins“ skráður af Óskari Magnússyni frá Tungunesi. Karl skrifar inngang að annálnum þar sem hann lýsir tilgangi annálaritunarinnar. Tilgangurinn ku hafa verið sá að þeir sem geymdu blaðið gætu rifjað upp atburði vetrarins síðar meir.
Menntaskólinn á Akureyri geymdi blaðið. Því er kannski ekki úr vegi að fylgja ráðum ritstjórans og rifja upp örlítið brot af atburðum úr skólalífinu fyrir 87 árum. Við bendum þeim sem hafa áhuga á að lesa sér til um skólalífið veturinn 1932-1933 á 7. - 8. tölublað. Við látum nægja að grípa niður í niðurlag annálsins þar sem segir af hrakningum nemenda í fjöllgöngu og fimleikum.
Áður ég lýk máli mínu langar mig til þess að geta um tvennt enn þá, sem nýstárlegt þótti í sögu skólans á vetri þessum. Hið fyrra er ferð 4. bekkinga, er þeir freistuðu að klífa Súlur. Kom á þá fárviðri mikið og manndrápsveður. Komust þeir með naumindum til Skíðastaða og höfðu þar næturgisting. Gó Elrishundr alla þá nótt óþrotnum kjöftum, ok tögg allar jarðir grimmum kuldatönnum. (Fóstbræðrasaga).
Er morgnaði vóru Súlur hvítar mjög og kuldalegar, og þar eð allir vóru mjög lerkaðir af þungum byltum og vási treystust þeir eigi að klífa Súlutind það sinn og snéru heimleiðis. Svo fór um sjóferð þá.
Hið seinna nýmæli er fimleikaprófið, er þreytt var hér í skóla nú í fyrsta sinni um margra ára skeið. Sýndu menn þar variationir í listum og kunnustu margskonar. Urðu og einkunnir mjög misjáfnar, allt frá hrakalegustu smánareinkunnum að ágætiseinkunn. En engan sá ég gráta, þótt þeir væru með þeim ósköpum bornir að vera svo gersneyddir fimi, að þeir fengu aðeins 32. Lýkur hér annálum þessum.
Heimild: Muninn 6. árgangur, 7. – 8. tbl.