- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Sú var tíð í MA að nemendur fimmta bekkjar fóru á eins til tveggja vikna langt sundnámskeið um mitt skólaár í Svarfaðardal. Í blaði skólans sem kom út í ársbyrjun 1933 rifjar Ragnar Jóhannesson upp eina slíka Svarfaðardalsför sem hann fór í ásamt fleiri skólapiltum á aðventu 1932. Hópurinn lagði úr höfn á Akureyri eftir hádegi þann 5. desember með „knerrinum Gretti“. Siglt var til Dalvíkur. Ragnar segir svo frá:
Fórum við í fararbroddi búnir Ioðhöttum, peysum og treflum, spenntir megingjörðum. Skíði bárum við og stafi, sængurföt og farangurssekki og annað það, er ferðamenn má prýða. Voru menn gunnreifir og börðu bumbur, því að sundkútar voru með í förinni, lof sé hamingjunni.
Siglingin gekk vel, veður var gott og „var gleðskapur mikill og etin slík ógrynni af vínarbrauðum, að slíks munu fá dæmi í sögu lands og þjóðar.“ Á Dalvík tóku félagar úr ungmennafélaginu á móti ferðalöngunum og buðu upp á heitt kaffi og kökur. Framundan var ferðalag í Svarfaðardal þar sem dvelja skyldi í viku eða tvær við sundiðkun. Við grípum hér niður í frásögn Ragnars á nokkrum vel völdum stöðum í skólablaðinu Muninn. Segir hann m.a. frá sundnáminu og kynnum sínum af heimilisfólki á bæjunum Tjörn og Völlum þar sem skólapiltarnir héldu til.
Síðan héldum við fram Svarfaðardal. Sumir á skíðum, aðrir á postulahestunum einum saman. Veður var stillt og gott og stjörnubjartur himinn. Snjór lá yfir öllu, Svarfaðardalur blasti við, víður og fjöllum luktur. Til beggja handa brunnu Ijós í gluggum sveitabæjanna, sem að því er okkur virtist, sendu hlýjar kveðjur. Á Tjörn skiftumst við í tvo hópa. Urðu 9 sveinar eftir þar með Þórarni hreppstjóra Eldjárn, en 6 skyldum gista á Völlum að síra Stefáns. Á báðum stöðum var okkur tekið opnum örmum, en miklu betur og miklu oftar áttum við þó eftir að kynnast svarfdælskri gestrisni. Gengum við nú reifir til rekkna og dreymdi um óorðnar dásemdir fararinnar. Glögglega minnist ég fyrsta morgunsins, er við komum til laugar. Við Vellingar (en svo nefndust þeir, er á Völlum bjuggu), komum nokkru síðar en þeir Tirningar.
-
Hófst nú hið skemmtilega nám, sem ötullega var áfram haldið, því að letingjum verður vistin óbærileg með Hermanni fimleikakennara Stefánssyni. Fórum við ofan í þrisvar - fjórum sinnum á dag. Flestir höfðu numið sund áður, og voru sumir snjallir sundmenn, en 5 voru ósyndir með öllu. Byrjuðu þeir sundferil sinn með kúta og gjarðir, en einhver sundfróður maður stóð yfir fáráðlingunum og kenndi. Ýmist hélt sá í gjörðina eða reiddi eina helvíta mikla stöng yfir höfði vesalingsins, sem braust um á hæli og hnakka og buslaði í dauðans angist í lauginni. Þessi kennsla bar brátt árangur og fóru hinir fákunnandi að bera sig borginmannlega sem hinir. Gekk allt þetta sundnám vel og slysalaust.
-
Sama dag bar svo til að Ólafur, inspector, Kristmundarson var á sundi með kút á baki og kút í höndum. Yfir honum stóð Kristinn Júlíusson með geysilanga stöng, glottandi að fjörbrotum Ólafs. Í fyllingu tímans fylltist bakkútur Ólafs, og fór þess á leit við hann, að hann fylgdi sér niður til Hadesar. En það vildi Ólafur með engu móti þýðast og varpar í fáti frá sér hinum kútnum og grípur eftir stönginni Kristins. En þar eð Ólafi láðist að hafa opin augun fór stöngin fyrir ofan garð og neðan hjá honum. Hvarf hann sjónum manna til undirdjúpanna. Varð grátur mikill og gnístran tanna í skálanum, er sú fregn barst um, að Ólafur væri drukknaður Kristmundsson. Hvikuðu þá allir nema Kristinn Júl., sem með mikilli ró stakk stönginni í hyldýpið og dró upp aftur með Ólafi á endanum. Blés Ólafur vatnsstólpa hátt í loft upp sem steypireyður og starði á okkur undrandi því að hann bjóst við að vakna í faðmi afa sinna og ammna, er komin væru til að taka á móti honum við hlið Himnaríkis. Bar hann sig þó mannalega, er upp úr kom.
-
Geta má í þessu sambandi, að fleiri íþróttir iðkuðum við en sund. Má nefna skíðagöngu. Gengum við að heita má daglega á skíðum til laugar og frá, auk annara ferða er fara þurfti. Tóku margir miklum framförum í þeirri íþrótt. Á skautum hlupum við nokkur kvöld á ágætu svelli neðan við Tjörn og svo á ánni.
-
Þeir tveir bæir, er við dvöldum á nú í vetur, eru báðir hin mestu myndar- og rausnarsetur, kirkjustaðirnir Tjörn og Vellir. Þórarinn bóndi og hreppstjóri á Tjörn er vel viti borinn og glæsilegur bóndi, fjörugur og viðfelldinn í viðmóti. Reyndust þau Tjarnarhjón, Þórarinn og kona hans, frú Sigrún, þeim félögum, er þar dvöldu ágæta vel um risnu og aðbúð alla. Gerðum við það stundum til gamans, Vellingar og Tirningar, að metast um hverjir mundu betur aldir, en hættum því brátt, því að auðséð var að þar hallaðist ekki á. En um dvölina og heimilið á Völlum get ég borið um persónulega og lýsi yfir, að á betra varð ekki kosið. Stefán prófastur Kristinsson er gáfaður og vel menntaður maður og furðulega ríkur af fjöri og þrótti svo aldurhniginn maður. Í viðræðu er hann skemmtilegur og fróður vel. Var það okkur mikið gagn og gaman að heyra prófast segja frá skólaárum sínum og bárum við þau saman við okkar eigin. Prófastur reyndist okkur sem bezti faðir, og lét sér annt um heilsu okkar og vellíðan í hvívetna. Eigi má gleyma konu hans. Er frú Sólveig ein hin glæsilegasta húsmóðir, sem ég fæ hugsað mér á íslenzku prestssetri. Var okkur jafnan fagnaðarefni, er hún kom inn í stofuna, því að hún gerðist þar óðara hrókur alls fagnaðar. Var hún okkur hin umhyggjusamasta húsmóðir. Allt heimilisfólkið var okkur frjálslegt og gott, og féll okkur betur við það með hverjum degi, sem leið.
-
Nú skal stuttlega lýst hversu dagurinn leið í Svarfaðardal. Kl. 8-9 risum við úr rekkjum og settumst þegar að kaffi og sætabrauði, og skömmu síðar að mat. Síðan gengum við til laugar. Kl. 12 á hád. gengu Tjarnarbúar til miðdegisverðar, en við Vellingar átum nesti okkar, brauð og mjólk. Kl. 3—4 var haldið heim og drukkið kaffi. Síðan borðað kl. 6—7 og loks drukkin nýmjólk áður en háttað var. Menn sjá, að Svarfdælir hafa ekki með öllu svelt okkur, enda var matarlystin óviðjafnanleg. Kvöldunum eyddum við margvíslega. Var lesið og teflt, spilað og sungið og margt gert til skemmtunar. Heimilisfólkið sat hjá okkur á kvöldin og gerði það vistina hálfu betri og hlýlegri. Er líklega óhætt að fullyrða, að engum okkar hafi leiðst á kvöldvöku í Svarfaðardal.
-
Við Vallamenn voru svo heppnir, að sr. Stefán varð sextíu og tveggja ára gamall, meðan við dvöldum þar. Var þá hin rausnarlegasta veizla á prófastssetrinu. Gafst okkur aðskotadýrunum færi á að kynnast þar ýmsum góðum Svarfdælum. Skemmtum við okkur ágæta vel. Ennfremur höfðu þau Vallahjón boð inni fyrir félaga okkar á Tjörn, og Tjarnarhjónin buðu heim okkur Vallamönnum. Var vel veitt og skörulega á báðum stöðum, og við allir í sjöunda himni eða meira. Og matarlystin var geysimikil. Í hófinu á Völlum sögðu skæðar tungur, að sumir okkar hefðu lagt sér til munns hvorki meira né minna en 7 – sjö – hluta af rjómatertu. En nefnum engin nöfn.
-
Dansleik höfðum við eitt laugardagskvöld í samkomuhúsi frammi í dal. Það kvöld var gott veður. Máninn slagaði fullur yfir Vallafjalli, og Iaugaði hina hvítu snæbreiðu sínum fölu geislum. Mjöllin tindraði og sindraði í geisladýrð og marraði þýðlega undir skíðunum. Í fjarska báru Ijósin á Dalvík við dökkblátt hafið. Og við vorum svo hjartanlega glaðir og skemmtum okkur af heilum hug í faðmi svarfdælskra blómarósa, sem við eigum hlýjar minningar um. Á Dalvík vorum við einnig á samkomu. Messu hlýddum við allir á Völlum hjá sr. Stefáni, síðari sunnudaginn, sem við vorum út frá. Ótal margt fleira skemmtilegt og unaðsríkt mætti segja úr Svarfaðardalsför, en til þess vinnst ekki rúm né tími. Við héldum heim með póstbátnum 20. des. Sendum við þá þögulir hinztu kveðju Svarfaðardal og Svarfdælum, með þúsund, þúsund þökkum.
-
Á heimleiðinni komum við á hverja höfn, sem auðið var á þeirri leið. Til Akureyrar komum við um miðnætti. Héldum þá beint upp í skóla og settumst að snæðingi bjá þeim skólameistarahjónum, sem tóku við okkur vel. Lauk þar með Svarfaðardalsför.
Heimild: Muninn 6. árgangur, 5. og 6. tbl.