- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Um þessar mundir eru liðin 27 ár frá Listadögum í MA vorið 1992. Í rúma viku frá 24. febrúar var listum, menningu og stjórnmálum gert hátt undir höfði í skólanum. Boðið var upp á fyrirlestra, tónleika og kvikmyndir svo eitthvað sé nefnt. Heimsþekkt hljómsveit á hátindi ferilsins kom fram og spilaði fyrir nemendur undir lok Listadaga. Síðar sama ár var saga sveitarinnar öll.
Listadagar hófust á málfundi með þáverandi menntamálaráðherra, Ólafi G. Einarssyni. Fundurinn var á vegum MFH og HÍMA. Fundinum var ætlað að upplýsa nemendur um stefnu ríkisstjórnarinnar í skólamálum og niðurskurðinn í menntakerfinu. Líflegar umræður sköpuðust m.a. um framtíð Háskóla Íslands og Lánasjóð íslenskra námsmanna. Stúlka sem var nemandi í MA skrifaði svo um upplifun sína af fundinum í skólablaðið Munin: Því miður varð árangurinn af þessum fundi ekki sem skyldi. Ráðherra sagði í raun og veru ekkert nýtt, heldur endurtók í sífellu sömu klisjurnar um nauðsyn sparnaðar. Hann virtist heldur ekkert skilja í því að gjörvöll þjóðin væri ekki yfir sig ánægð með allt „aðhaldið“, sem virtist því miður einkum felast í því að taka peningana frá þeim sem síst mega missa þá, til að þeir sem hafa meira en nóg þurfi ekkert að spara við sig.
Fjölbreyttar kvikmyndasýningar og fyrirlestrar voru í boði fyrir menningarþyrsta nemendur skólans. Í Borgarbíói var boðið upp á stuttmyndirnarHundur hundur, Hljóð og Ókunn dufl eftir Sigurbjörn Aðalsteinsson og spjall við höfund að sýningu lokinni. Þá voru og myndbandasýningar í Möðruvallakjallara. Af fyrirlestrum má nefna erindi Magnúsar Skarphéðinssonar um geimverur og yfirnáttúrleg málefni og samtal sem skáldin Einar Kárason og Sjón áttu við nemendur.
Tónlistin var áberandi í Möðruvallakjallara á meðan Listadögum stóð. Hljómsveit Tómasar R. Einarssonar hélt djasstónleika og fyrir unnendur klassískrar tónlistar var boðið upp á lifandi tónlist að hætti hússins. Dægurlagatónlist fékk einnig sitt pláss í dagskránni því sjálfur Megas mætti norður með gítarinn sem hann plokkaði af sinni alkunnu snilld. Blaðamenn Munins settust niður með listamanninum og lögðu fyrir hann nokkrar spurningar. Spurður, hvernig honum litist á MA, stóð ekki á svari: Alltaf jafn vel, hann er yndislegur, Bautinn, heimavistin, Sjallinn, 1929 og fornbókaverslunin.
Rúsínan í pylsuendanum voru tónleikar Sykurmolanna sem haldnir voru í Gryfjunni í húsnæði Verkmenntaskólans. Um samstarfsverkefni skólanna tveggja var að ræða í tilefni af Listadögum í MA og Opnum dögum í VMA. Hefðbundið skólastarf var brotið upp í VMA dagana 3. – 5. mars og fjölbreytt menningardagskrá var í boði fyrir nemendur skólans. Í dagblöðunum var talað um heimsviðburð á Akureyri. Víst er að hljómsveitin var á hátindi ferilsins þegar hún spilaði fyrir u.þ.b. sex hundruð framhaldsskólanemendur og aðra gesti á Akureyri. Bretar höfðu tekið ástfóstri við hljómsveitina sem og aðrar Evrópuþjóðir. Dagblöðin voru einhljóma um að sömu tíðinda væri að vænta frá Bandaríkjunum áður en langt um liði. Þriðja breiðskífa sveitarinnar Stick Around For Joy var nýkomin í verslanir þegar Björk og hinir sykurmolarnir komu í bæinn. Tónleikarnir á Akureyri ásamt öðrum á Hótel Borg fjórum dögum fyrr voru þeir fyrstu í tónleikaröð til að kynna nýju breiðskífuna og jafnframt hinir einu á Íslandi. Frá Akureyri hélt hljómsveitin til Evrópu og síðar Bandaríkjanna.
Samstarf MA og VMA vorið 1992 skilaði sér í einhverjum eftirminnilegustu tónleikum sem haldnir hafa verið á Akureyri með einni þekktustu hljómsveit Íslandssögunnar. Ekki seinna vænna fyrir framhaldsskólakrakka í MA og VMA að berja goðsagnirnar augum saman á sviði því aðeins nokkrum mánuðum síðar, í desember 1992, bárust fregnir sem snertu margan aðdáandann. Samstarfi hljómsveitarmeðlima var lokið. Listadagar héldu hins vegar áfram árið eftir. Samstarf framhaldsskólanna tveggja á Akureyri náði nýjum hæðum vorið 1993 þegar sameiginlegir Listadagar MA og VMA voru settir með tónleikum KK bands.
Fyrir þá sem vilja (eftir atvikum) komast í snertingu við stemninguna sem var á Listadögum 1992 eða rifja hana upp má smella hér á myndbandsbrot. Í brotinu flytja Sykurmolarnir vinsælasta lag breiðskífunnar Stick Around For Joy á tónleikum árið 1992. Lagið heitir Hit.
Heimildir: Muninn 65. árgangur, 3. tbl. og 66. árgangur, 3. tbl.
Dagur 1992, 39. tbl.