- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Skólahald í MA hefur óneitanlega verið með óvenjulegu sniði á því herrans ári 2020. Aðgengi nemenda að skólabyggingunni hefur verið takmarkað frá því á vordögum. Slíkt er þó ekki einsdæmi. Ef rýnt er í söguskruddur má finna dæmi um lokun skólans á skólatíma yfir lengri eða styttri tíma vegna óviðráðanlegra ytri aðstæðna.
Í desember árið 1930 herjaði skarlatssótt á nemendur heimavistar skólans og víðar á Akureyri með þeim afleiðingum að skólum bæjarins var lokað út árið. Bæjarfógetinn á Akureyri, Steingrímur Jónsson, birti tilkynningu þessa efnis í Degi:
Til þess ennfrekar að tefja fyrir eða hefta útbreiðslu veikinnar, hefir sóttvarnarnefnd ákveðið að banna allar bíósýningar, dansleiki, opinber fundahöld og aðrar opinberar skemmtanir, fyrst um sinn, frá því í dag til aðfangadags jóla. Þetta tilkynnist almenningi til eftirbreytni.
Skólaárið 1940-1941 hófst seinna en venjulega vegna hernáms Breta. Skólinn var settur 5. nóvember. Um skólalífið þennan óvenjulega vetur segir í skólablaðinu Muninn:
Aldrei fyr hefir skólinn verið settur jafnseint, en vegna dvalar brezka setuliðsins í skólahúsinu var ekki unnt að byrja fyrr. Þessi dráttur á setningu skólans var mjög bagalegur. Námstíminn styttist allmikið og það olli því, að venjulegt skólalíf fór nokkuð úr skorðum. Félagslíf í skólanum var minna en venjulega, og ástæðan til þess var aðallega sú að námstíminn var styttri en venja hefir verið og þess vegna minni tími til félagsstarfsemi. Hvorki leikfélag né skákfélag starfaði, og væri betur að slíkt kæmi ekki oftar fyrir. Hinn 18. nóv. kom Hermann Jónasson forsætisráðherra í heimsókn í skólann. Gekk hann um íbúðir nemenda í fylgd með skólameistara.
Heimildir: Dagur 1930, 66. tbl. Muninn 15. árgangur, 1. tbl. Virkið í norðri, 1984.