- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Veturinn 1980-1981 gerðu nemendur í sjötta bekk félagsfræðideildar Menntaskólans á Akureyri könnun á högum fatlaðra í bænum. Könnunin sem unnin var í samstarfi við Sjálfsbjörg á Akureyri var sú fyrsta sinnar tegundar þar sem rýnt var í hlutskipti fatlaðra í sveitarfélaginu.
Í nóvember 1980 spígsporuðu nemendur MA um Akureyri og höfðu hjólastól meðferðis. Þeir vildu kanna hvernig fólki í hjólastól gengi að komast til og frá hinum og þessum stöðum í bænum. Niðurstaðan af könnunarleiðangrinum var að víða væri pottur brotinn þegar kæmi að aðgengi fatlaðra að nokkrum af helstu stofnunum bæjarins. Eftirminnileg mynd sem birtist í Degi í desember sýnir hóp nemenda gera tilraun til að koma samnemanda í hjólastól upp tröppurnar við innganginn á skrifstofum Akureyrarbæjar (sjá meðfylgjandi mynd). Þeir höfðu ekki erindi sem erfiði.
Dagblaðið Dagur fjallaði um tímamótakönnun nemenda félagsfræðideildar í blaði sínu í febrúar 1981. Segir þar nánar af hrakningunum í tröppunum við bæjarskrifstofurnar. Hið sama var upp á teningnum þegar átti að koma hjólastólnum inn í lyftuna sem þá var í skrifstofuhúsnæðinu. Nemendur urðu frá að hverfa, „enda er ekki gert ráð fyrir að fatlaðir í hjólastól eigi neitt erindi á bæjarskrifstofurnar eða í aðrar skrifstofur í sama húsi“ eins og það var orðað í Degi.
Í samtali við blaðamann Dags sagði Heiðrún Steingrímsdóttir formaður Sjálfsbjargar að nemendur hefðu unnið alla undirbúningsvinnu og sett saman spurningalista til að leggja fyrir félaga í Sjálfsbjörg. „Áður hafa þrír nemendur 6. bekkjar gert ritgerðir í íslensku, þar sem þeir hafa fjallað um málefni fatlaðra en svona könnun hefur aldrei verið gerð áður. Nemendurnir ætla að afhenda okkur niðurstöðurnar svo verkið sé ekki unnið til einskis. Við munum því geta notfært okkur þetta þegar það liggur fyrir.“
Heimildir: Dagur 1980, 87. tbl. og 1981, 14. tbl.