Sigurvegari í söngkeppni MA árið 2003, Anna Katrín Guðbrandsdóttir
Sigurvegari í söngkeppni MA árið 2003, Anna Katrín Guðbrandsdóttir

Þann 4. mars árið 2003 fór Söngkeppni Menntaskólans á Akureyri fram í Kvosinni. Mikill metnaður var hjá skipuleggjendum keppninnar að gera viðburðinn sem eftirminnilegastan. Hitann og þungann af undirbúningnum báru meðlimir í félögunum Huginn, TÓMA og MYMA. Hljómsveit hússins var skipuð nemendum úr MA og VMA, þeim Aðalsteini Grétari Guðmundssyni, Arngrími Konráðssyni, Elvari Inga Jóhannessyni, Ólafi Hauki Árnasyni og Valgarði Óla Ómarssyni.

Mikill áhugi á söngkeppninni

Nemendur MA sem og aðrir sýndu söngkeppninni mikinn áhuga og var hvert sæti skipað þegar dagskrá hófst. Salurinn var troðfullur af fólki en áætlað er að um 700-800 gestir hafi lagt leið sína í Kvosina þetta kvöld. Söngatriði 20 efnilegra flytjenda féllu vel í kramið hjá ánægðum tónleikagestum sem skemmtu sér hið besta. Í dómnefnd sátu Árný Helga Reynisdóttir, Friðrik Ómar Hjörleifsson, Pálmi Gunnarsson, Þuríður Baldursdóttir og Örlygur Hnefill Örlygsson. Ljóst var að dómnefndinni var vandi á höndum að velja sigurvegara úr þessum hópi frambærilegra flytjenda. Margir voru kallaðir en fáir útvaldir. Að lokum komst dómnefndin að niðurstöðu.

Sigurvegari keppninnar var Anna Katrín Guðbrandsdóttir. Hún flutti nýstárlega útgáfu af Vísum Vatnsenda-Rósu í útsetningu Styrmis Haukssonar og Ólafs Hauks Árnasonar. Tomasz Kolosowski lék undir á fiðlu. Gunnhildur Vala Valsdóttir hreppti annað sæti með lag Bubba Morthens, Syneta. Borgný Skúladóttir varð í þriðja sæti með Stuðmannalagið Leitin að látúnsbarkanum.

Þá var kátt í Höllinni

Tæpum mánuði síðar sigraði Anna Katrín söngkeppni framhaldsskólanna sem haldin var í Íþróttahöllinni á Akureyri. Þar var ekki síður um metnaðarfullan menningarviðburð að ræða þar sem nemendur MA og VMA stóðu vaktina. Keppnin var í beinni útsendingu í sjónvarpi og útvarpi, 2000 gestir voru í sal og þá var svo sannarlega kátt í Höllinni. Var þarna um einhverja fjörugustu og best heppnuðu söngkeppni framhaldsskólanna að ræða frá uppafi að mati dómnefndar. Líklega er það efni í aðra umfjöllun.

Niðurlag þessarar upprifjunar frá árinu 2003 kemur frá höfundi greinarinnar sem upprifjunin er byggð á. Hann var jafnframt einn af flytjendunum 20 sem trylltu lýðinn í Kvosinni fyrir tæpum 16 árum síðan.

Það þarf svo varla að minnast á að Anna Katrín, ásamt fleirum, sigraði einmitt í Söngkeppni FF með glæsibrag og því tek ég mér það bessaleyfi að draga þá ályktun að þessi undankeppni okkar hafi verið svo gríðarlega góð að við hlutum að vinna stóru keppnina. Við öðru var varla að búast! Þegar ég lít aftur á allt það sem við gerðum, vinnuna sem var á bak við þetta allt saman og svo að lokum hvernig keppnin varð er ég mjög glaður og stoltur að hafa fengið tækifæri til að vera partur af þessu stóra batteríi sem Söngkeppni MA er orðin. Keppnin gekk eins og í sögu, ekkert klikkaði og allir skemmtu sér konunglega. Þetta hefði ekki getað gengið betur.

Ævar Þór Benediktsson.

 Söngkeppni MA


Heimild: Muninn 76. árgangur, 2. tbl.