- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Gunnhildur er fædd og uppalin í Hrísey en hefur lengi búið á Dalvík og hefur keyrt þaðan í vinnuna Í MA frá árinu 2007. Hún hefur útsýni til Hríseyjar frá Dalvík og segist alltaf líta yfir til eyju. Gunnhildur segist vera mikil landbyggðartútta. ,,Tíminn utan vinnu nýtist svo vel, ég er örskot frá náttúrunni, fjallið er við þröskuldinn og ég fer á skíðin við útidyrnar. Það er gríðarlegur kostur að þurfa ekki að keyra til þess að komast í útivist.“
Nemendur segja stundum að Gunnhildur tali forníslensku og hafi afar mikinn orðaforða. ,,Ég var meðvituð um að halda norðlenskunni þegar ég flutti suður og það smitaði ef til vill yfir á annað. Amma bjó líka heima svo það hafði kannski áhrif á tungutakið og ég las allt sem var í bókaskápnum, hvort sem það var Alistair MacLean eða Ævisaga Sigurðar Ingjaldssonar frá Balaskarði. Og svo fékk ég alltaf bók í jólagjöf.“ Íslensk tunga er Gunnhildi kær og hún segist sposk ekki skilja af hverju krakkarnir elska ekki málsögu!
En hvernig er að kenna: ,,Það eru margir kostir við starfið og meðan enn er þetta frjálsræði að kennarar geta stjórnað tímanum dálítið sjálfir er það mikill kostur. Stundum væri samt gott að koma heim kl. 5 og geta stimplað sig út. Maður er alltaf með þetta í kollinum. En kennslan heldur manni vakandi, og það er alltaf nýtt fólk. Hún er mjög krefjandi og reynir oft á. En þetta er aldrei einhæft starf og enginn dagur eins sem er mikill kostur.“
Og að lokum: Ef þú værir einvaldur í einn dag? Í fullkomnum heimi eigum við öll jöfn tækifæri. Öll dýr í skóginum ættu að vera vinir. Óréttlæti er vont, ég vil hafa það gott en líka að aðrir hafi það gott. Við erum vissulega lúxuspöddur og okkur vandamál lítilsigld í samanburði við heiminn.