- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Áhugi Rannveigar á þýsku kviknaði þegar hún bjó í Þýskalandi árið eftir stúdentspróf og vann sem au-pair. Henni gekk mjög vel að ná tökum á þýskunni þetta ár og að því að hafa lært þýska málfræði í MA. Rannveig hefur reyndar passað börn víðar en í Þýskalandi því hún var líka au-pair í tæplega hálft ár í Bandaríkjunum í grennd við Philadelphiu og lagði svo land undir fót og fór í sex vikna hringferðalag um flest fylki Bandaríkjanna. ,,Það var algjörlega geggjað. Annað eftirminnilegt er þegar ég vann á hóteli í Þýskalandi sumarið 1990 þegar Þjóðverjar urðu heimsmeistarar í fótbolta einu sinni sem oftar og ég fór og tók á móti liðinu við heimkomuna í Frankfurt.“ Þýskalandsdvölin leiddi Rannveigu svo beint í þýsku í HÍ. Árið 2006 hóf hún störf í MA og hefur verið þar síðan að tveimur árum undanskildum. Og þetta hefur ekki verið einsleitur ferill; hún hefur kennt dönsku og lífsleikni auk þýskunnar, haft jógatíma fyrir starfsfólk, verið formaður STAMA (starfsmannafélags MA) og verið veislustjóri og siðameistari 17. júní. ,,Störfin í kringum 17. júní eru með því skemmtilegra, það er gaman fást við skipulag, láta allt falla saman og enda á þessum frábæra degi þar sem allir eru svo þakklátir.“
Hver eru markmið Rannveigar í kennslu? ,,Að mörgu leyti er það lífsstíll að vera kennari, það er áhugi á nemendum og faginu sem rekur mann áfram. Ég vil miðla einhverju jákvæðu, hvetja nemendur áfram. Það að þeim líði vel og hafi trú á eigin getu er númer eitt, svo kemur þýskan.“ Aðspurð segir hún að kennslan gangi oftast vel og gleðin sé mjög mikilvæg til að geta miðlað. Það skili sér svo til baka frá nemendum – en þó vissulega minna núna bak við tölvuna á COVID-tímum. En hún væri ekki í kennslu ef hún fengi ekki þessa svörun til baka. ,,Kennslan togar alltaf. So ist das.“ Genau hefur orðið í huga nemenda nokkurs konar einkennisorð fyrir Rannveigu og hún á málverk, boli og borða sem nemendur hafa gefið henni á dimissio, merkt þessu góða orði.
Rannveig fór í jógakennaranám fyrir nokkrum árum. ,,Ég hef mikinn áhuga á almennri vellíðan, að fólki líði vel í eigin skinni og hafi einhver verkfæri til að leita í. Jógað er eitt besta tækið til þess þegar á bjátar. Ég vil vera heil i hjartanu og hafa þriðja augað í lagi.“
Rannveig á sér ýmis önnur áhugamál, t.d. lestur. Best í heimi finnst henni að vera úti og ganga á fjöll. Í sumar og haust hefur hún t.d. farið á Hálshnjúk, Mælifellshnjúk, Staðartunguháls í Hörgárdal og alloft upp á Vaðlaheiði. Hún stefnir líka á að fara út í eina eyju á hverju sumri. Í sumar var það Viðey og næsta sumar stefnir hún út í Flatey á Skjálfanda.
Og ekki má gleyma að Rannveig er dansdrottning og hefur hvorki meira né minna en titil að verja í dansi. Þegar hún var í grunnskóla var keppt í Dynheimamaraþoni og tók hún þátt í því þrisvar, náði 3. sæti í eitt skipti og stóð svo uppi sem sigurvegari eftir að hafa dansað í alls 28 klukkustundir. Geri aðrir betur! Hún er alls ekki hætt að dansa og dansar t.d. alltaf þegar hún þrífur…
Að lokum: Á Rannveig einhver ráð í pokahorninu til okkar? ,,Það er kannski bara að taka eitt lítið skref í einu á þessum tímum núna, vera umburðarlynd gagnvart okkur sjálfum og öllum hinum. Horfa mildilega á hlutina og kannski ekki síst okkur sjálf.“