Sjálfsmatsnefnd Menntaskólans á Akureyri hefur nú birt niðurstöður í þjónustukönnun 2010 þar sem meðal annars var kannað viðhorf til þjónustu sem varðar bókasafn og tölvukerfi skólans. Niðurstöður eru sýndar á myndrænu formi á veggspjöldum á ganginum milli Hóla og Gamla skóla. Skýrsla nefndarinnar er svolátandi:

Á tengigangi við Hóla hafa verið hengd upp spjöld með helstu niðurstöðum úr könnun á þjónustu og aðstöðu sem MA veitir nemendum annarri en kennslu. Könnunin var gerð í marsbyrjun 2010 og svöruðu alls 459 af 767 nemendum skólans, svarhlutfall var því 60% rétt tæp. Svörun dreifðist á kyn, bekki og brautir í samræmi við fjölda og samsetningu nemendahópsins og verður því að teljast gefa nokkuð góða mynd af skoðun nemenda MA á þeim atriðum sem könnuð voru.

Nýtt tölvukerfi umdeilt

Að þessu sinni var mestri athygli beint að tölvuþjónustu og bókasafni. Helstu niðurstöður varðandi tölvur eru að nemendur eru almennt óhressir með nýtt stýrikerfi og Open Office hugbúnaðinn sem byrjað var að keyra á tölvukerfi skólans í haust. Hluti óánægjunnar má sennilega rekja til byrjunarörðugleika. Langflestir þeirra sem nota fartölvur telja þær til bóta við námið. Hins vegar eru margir sem telja þær trufla og ekki síður aðra nemendur í kringum notandann.

Almennt eru nemendur ánægðir með bókasafn skólans og þjónustu þess. Helmingur nemenda nota í það að minnsta kosti vikulega. Nokkrir leggja til lengri opnunartíma á föstudögum. Nemendur eru sáttir við vinnufrið á safninu en nokkrir nefna truflun vegna hópvinnu en jafnframt aðstöðuleysi við hópvinnu á safninu. Fáeinir leggja til að safnið fái sófa eða hægindastóla.

Umsjón mikilvæg

Kannaður var hugur nemenda til umsjónarkennara. Rétt tæplega helmingur telur umsjón í sínum árgangi gagnlega og fjórðungur hvorki né. Ef rýnt er í tölur eftir bekkjum sést að flestir telja umsjónarkennslu gagnlega á fyrstu tveimur árunum. Áhugavert er að eldri nemendur vilja ekki ganga svo langt að telja umsjónarkennara lítið eða ekki gagnlega og merkja frekar við möguleikann hvorki né. Meirihluti nemenda telur að miðannarmat í 1. og 2. bekk sé gagnlegt. Aðgengi að stjórnendum og námsráðgjöfum þykir gott en mjög margir merkja þó við svarmöguleikann veit ekki. Við þetta má bæta að sérstaklega þykir sýnileiki skólameistara mikill.

Fleiri dýnur í Kvos

Nemendur eru mjög sáttir við aðstöðu og þrif og hæla ræstingum. Aðstaða í Kvos er gagnrýnd og margir telja að dýnum þar mætti fjölga. Nokkrir finna að úrvali í sjoppu og vilja heilsusamlegra úrval matvæla. Þriðjungur svarenda eru í fastri áskrift að mat á heimavist og annar þriðjungur er stundum í mat þar. Almenn ánægja er með matinn þar, helst bar á neikvæðum athugasemdum frá þeim sem ekki eru í mat og nokkrum af elstu nemendunum sem hafa verið þrjú og fjögur ár á heimavistinni.

Næstu skref hjá sjálfsmatsnefnd eru að vinna úr skýrslunni tillögur til úrbóta og leggja fyrir skólastjórn. Ekki má gleyma að undirstrika það sem vel hefur tekist til og fær jákvæða dóma nemenda og nauðsynlegt er að halda í til þess að hlúa að skólastarfinu.

.