Þýska í tónlist okt. 2010
Þýska í tónlist okt. 2010

Dagana 13. og 14. október var haldið tónlistarnámskeið í Menntaskólanum á Akureyri sem hét Von der Idee zur eigenen CD eða Frá hugmynd að eigin geisladiski. Í námskeiðinu tóku þátt 17 tónlistarmenn og tónlistaráhugamenn úr 2., 3. og 4. bekk skólans og voru þeir úr ýmsum geirum tónlistarinnar, söngvarar, rapparar, gítarleikarar, trommuleikarar o.fl. Námskeiðið var á vegum Goethe-Institut en þýskukennarar M.A. sáu um skipulagninguna hér heima.

Tveir tónlistarmenn, Fabio og Sandro, frá Hamborg í Þýskalandi sem spila m.a. með hljómsveitinni Feinkost, kenndu á þessu námskeiði og héldu nemendum uppteknum við að skapa sameiginlega eitt verk, sem var að sjálfsögðu með þýskum texta. Lagið var síðan tekið upp og brennt á geisladisk sem þátttakendur fengu hver sitt eintak af.

Af myndunum að dæma var ekki að sjá annað en að nemendum líkaði þessi tilbreyting vel og tækju hlutverk sitt alvarlega, enda höfðu Þjóðverjarnir á orði að þetta hafi verið hæfileikaríkt fólk og margir hafi kunnað mun meira til verka en búist hafi verið við.

Þýskukennarar tóku þessar myndir. Fleiri myndir eru í myndasafni (http://www.ma.is/kvosin/myndasafn/album/39).