Menntaskólinn á Akureyri hefur fengið styrk frá Comeniusarsjóði Evrópusambandsins til að vinna að samskiptaverkefni við ferðamálaskóla TÜV í Potsdam í Þýskalandi. Skólarnir hafa áður unnið saman og skipst á heimsóknum nemenda og kennara, og starfið gengið svo vel að niðurstöður verkefnisins voru síðast valdar til opinberrar sýningar í nýju járnbrautastöðinni í Berlín.

Að þessu sinni munu nemendur og kennarar MA fara til Þýskalands á haustönn, í byrjun nóvember, en Þjóðverjarnir munu koma og endurgjalda heimsóknina um páska. Í hópnum verða 21 nemandi og 3 kennarar. Í upphafi skólaársins verður verkefnið kynnt fyrir nemendum og auglýst eftir þátttakendum. Miðað er við að þeir séu í 3. bekk og þeir munu sitja fyrir sem eiga að baki öðrum meira þýskunám. Verkefnisstjóri er Sigrún Aðalgeirsdóttir kennari og námsgreinarstjóri í þýsku.

.