Berlínarfarar ÞÝS533
Berlínarfarar ÞÝS533

Nemendur í þýskuáfanganum ÞÝS533 fara nú á föstudag í náms- og skoðunarferð til Berlínar og dvelja þar í þrjá daga. Flogið verður síðdegis til Berlínar og lent þar nærri miðnætti. Laugardagur, sunnudagur og mánudagur eru þéttskipaðir dagar í skoðunarferðum um hina litríku borg og í söfn og merkar byggingar. Lagt verður af stað heim upp úr miðnætti 1. maí og komið heim norður undir morgun.

Þýskunámið í þessum valáfanga hefur öðrum þræði verið í því fólgið að lesa og læra um Berlín og sögu hennar og undirbúa ferðina, en nemendur hafa sjálfir unnið ferðagögn og skipulagt skoðunarferðir og heimsóknir á söfn o.s.frv. undir handleiðslu Sigrúnar Aðalgeirsdóttur þýskukennara, sem verður með í för. Dagskráin í ferðinni er afar þétt og má með sanni segja að leitast verður við að skoða allt það merkasta sem unnt er að sjá á þessum skamma tíma, bæði í austurhluta og vesturhluta borgarinnar.

Á myndinni er hópurinn, þegar opnaður var kassi frá þýska sendiráðinu með alls kyns kortum, bæklingum og öðrum gögnum sem þaðan fengust.