Gendarmenmarkt
Gendarmenmarkt

Tuttugu og sex nemendur 3. og 4. bekkjar í sérstökum áfanga í þýsku leggja af stað í kvöld í stutta kynnisferð til Berlínar og koma til baka á sunnudag. Þeir leggja af stað ásamt kennara sínum, Sigrúnu Aðalgeirsdóttur, í kvöld, aka suður í nótt og fljúga til Berlínar rétt fyrir klukkan 7 í fyrramálið.

Þessi ferð er þáttur í þýskuáfanga sem nemendurnir hafa verið í á haustönninni, en verkefni í honum hefur meðal annars verið að undirbúa þessa ferð og skipuleggja, ákveða skoðunarferðir og söfn, sýningar og staði sem skoðað verður. Dagskráin er mjög þétt og metnaðarfull og ekki verður slegið slöku við. Skoðunarferðir hefjast strax um hádegisbil á fimmtudag og standa allan föstudaginn og þar til síðdegis á laugardag, en eftir það verður nóg að gera við að heimsækja fjölmarga jólamarkaði sem eru bókstaflega hvar sem hægt er að koma fyrir sölutjaldi í Berlín á aðventunni. Meðal staða þar sem stansað verður er Gendarmenmarkt, en myndin sem hér sést er þaðan.