- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Hinir fornu meiðir í aldargömlum garði skólameistaranna sunnan og neðan við Gamla skóla týna smátt og smátt tölunni. Í veðrinu mikla í fyrrahaust féllu tvö þessara trjáa neðan við bakkann. Þótt ekki hafi blásið miklir vindar þessa dagana hafa þeir nægt til að brjóta enn eitt tré. Það stendur við suðausturhorn Gamla skóla, við tröppurnar sem gengnar voru til að komast inn í Sólbyrgið, sem var forstofa og jafnframt blómastofa skólameistara, og byggt við húsið árið 1915. Ekki er ólíklegt að þetta ágæta tré hafi verið gróðursett við húshornið skömmu síðar og því orðið öldungur.
Snemma hefur stofninn greinst í nokkra arma og nú hafa tveir þeirra rifnað frá stofninum. Í sárinu sést að mikil skemmd eða fúi er inni í þessum viði, aðeins vöxtur nokkurra síðustu áratuga hefur haldið þessu uppi uns það varð undan að láta nú. Á innfelldu myndinni sést brúnn og svartur fúinn, svo þurr og léttur að mylja má milli fingra sér.